Bjarni Bachmann fyrrverandi safnvörður er látinn, níræður að aldri. Bjarni var fyrsti forstöðumaður safnanna í Borgarnesi og gegndi því starfi í aldarfjórðung á árunum 1969-1994. Hann vann þá mikið frumkvöðulsstarf og var m.a. sá sem vann með Hallsteini Sveinssyni að því að koma gjöf hans til safnanna um 1970. Með því var lagður grunnur að Listasafni  Borgarness sem á um 500 listaverk í dag. Bjarni kom einnig á fót náttúrugripasafni, sem á m.a. viðamikið fuglasafn. Byggðasafn Borgarfjarðar elfdist mjög um hans daga, svo og skjalasafnið og bókasafnið. Einnig var Pálssafni komið fyrir í Safnahúsi í hans tíð. Á þessum árum vann Bjarni mikið og óeigingjarnt starf fyrir söfnin, ásamt eiginkonu sinni Önnu Bachmann sem einnig starfaði þar.

 

Starfsfólk Safnahúss þakkar Bjarna hans góða framlag til safnastarfs í Borgarfirði og sendir fjölskyldu hans samúðarkveðjur vegna fráfalls hans.

 

Nýverið var Safnahúsi Borgarfjarðar fært að gjöf líkan af franska rannsóknaskipinu Pourquoi-pas? Um er að ræða afar vandaða módelsmíði, en skipið er sett saman og gefið af Skúla Torfasyni. Skúli starfar sem tannlæknir og er nú um stundir starfandi sem slíkur í Noregi. Hann hefur varið nokkrum hundruðum vinnustunda í gerð líkansins. 

Laugardaginn 28.nóvember opnaði Snjólaug Guðmundsdóttir sýningu í Safnahúsi þar sem sýndur er vefnaður og flóki.  Sýningin ber nafnið ”Af fingrum fram” og hluti hennar er af sýningu sem Snjólaug hélt á Blönduósi árið 2008  til vors 2009 og bar sama nafn. Nokkru hefur þó verið bætt við sýninguna sem haldin er í Safnahúsinu nú.

Það var góð mæting á opnuninni
Síðastliðinn fimmtudag, þann 12. nóvember var opnuð Ljóðasýning 5.bekkja í grunnskólunum í nágrenninu, í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem er raunar í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Þetta er fimmta árið í röð sem Safnahús Borgarfjarðar efnir til ljóðasýningar af þessu tagi, í góðu samstarfi við kennara fimmtu bekkja, og í fjórða sinn sem haldin er sérstök opnunarhátíð. 

Kvenfélagskonur úr Borgarnesi á ferðalagi. Ljósmyndari ókunnur.
Opinber skjalasöfn á Norðurlöndum hafa lengi kynnt starfsemi sína með ýmsu móti. Frá 2001 hafa þau sameinast um árlegan kynningardag sem að þessu sinni er laugardagurinn 14. nóvember. Eitt markmiða skjaladagsins er að efla vitund fólks um að skjalasöfn séu tryggir vörslustaðir skjala og er fólk hvatt til að hafa sambandi við starfsfólk skjalasafna ef það hefur undir höndum skjöl sem það veit ekki hvað á að gera við.

Næstkomandi fimmtudag þann 12. nóvember kl. 16.00 verður opnuð ljóðasýning barna í Safnahúsi. Krakkar í fimmtu bekkjum í grunnskólunum í nágrenninu sýna ljóð sín um leið og sérstök dagskrá verður af þessu tilefni. Ljóð verða lesin upp og Hildur M. Jónsdóttir frá Brúðuheimum í Borgarnesi kemur á svæðið og fjallar um sköpunarþáttinn í brúðugerðinni. 

Í sumar gafst börnum sem heimsóttu sýninguna Börn í 100 ár tækifæri að gera verkefni tengd sýningunni. Þeim var skipt í 2 aldurshópa; 6-11 ára annars vegar og 12-16 ára hins vegar. Verkefnin voru frekar létt, en þátttakendur þurftu engu að síður að lesa sér aðeins til. Þátttaka var góð í sumar og nú hafa 2 vinningshafar verið dregnir út og vinningar á leiðinni.

 

    

                                         Mynd: www.leikskald.is

 

Í dag eru 80 ár liðinn frá fæðingu hins ástsæla leikara Flosa Ólafssonar en hann lést sem kunnugt er í lok síðustu viku. 

Flosi ólst upp í Reykjavík og bjó þar þangað til hann flutti ásamt konu sinni, Lilju Margeirsdóttur, í Reykholtsdal í Borgarfirði fyrir hartnær 20 árum. 

Til gamans má geta þess að í ljóðabókinni Borgfirðingaljóð, sem geymir safn ljóða eftir borgfirska höfunda og var útgefin af Hörpuútgáfunni árið 1991, birtist ljóð eftir hinn þekkta rithöfund Jónas Árnason sem bjó einnig í Reykholtsdalnum, um búferlaflutning Flosa, ljóðið heitir Haust og hefur undirtitilinn- Flosi Ólafsson flutti í Reykholtsdal.

 

Norðan frá heimskauti yfir oss dimmuna dregur

veturinn kaldur og argur og ófrýnilegur.

---

Skýbólstrar þéttast og þröngva  sér niður með Oki

landgolan blíða er orðin að andskotans roki.

---

Blóm eru fölnuð og fokin sem hvert annað glingur,

beljurnar leika ekki lengur við hvurn sinn fingur.

---

Oss finnst þó bændunum sumum að bættur sé skaðinn,

lóan er farin, en Flosi er kominn í staðinn.

 

(Borgfirðingaljóð bls: 178)

 

 Hér verður ferill Flosa rakinn í stuttu máli.

Fimmtudaginn þann 22. okt. næstkomandi kl. 20.00 verður sagnakvöld í Safnahúsi þar sem lesið verður upp úr fjórum bókum er allar tengjast Borgarfirðinum. Eftirtaldir lesa upp úr verkum sínum: Bragi Þórðarson, Óskar Guðmundsson, Bjarni Guðmundsson, Böðvar Guðmundsson.  

 

Í lok dagskrár fer Bjarni Guðmundsson með kvæðið Sumar eftir Guðmund skáld Böðvarsson og stutta hugleiðingu um það.

 

Sagnakvöldið verður í sýningarsalnum (Börn í 100 ár) á neðri hæð Safnahúss. Ókeypis aðgangur - allir velkomnir.

 Nýtt og glæsilegt bóka- og safnahús var tekið í notkun að Dalbraut 1 á Akranesi s.l. miðvikudag og er fyllsta ástæða til að óska Skagamönnum til hamingju með hversu vel hefur til tekist. Bókasafnið, sem áður var á þremur hæðum að Heiðarbraut 40, er þar með allt komið á eina hæð. Í safnahúsinu er einnig aðstaða fyrir ljósmyndasafn og skjalasafn og góðar geymslur.