Fimmtudaginn þann 22. okt. næstkomandi kl. 20.00 verður sagnakvöld í Safnahúsi þar sem lesið verður upp úr fjórum bókum er allar tengjast Borgarfirðinum. Eftirtaldir lesa upp úr verkum sínum: Bragi Þórðarson, Óskar Guðmundsson, Bjarni Guðmundsson, Böðvar Guðmundsson.  

 

Í lok dagskrár fer Bjarni Guðmundsson með kvæðið Sumar eftir Guðmund skáld Böðvarsson og stutta hugleiðingu um það.

 

Sagnakvöldið verður í sýningarsalnum (Börn í 100 ár) á neðri hæð Safnahúss. Ókeypis aðgangur – allir velkomnir.

Sporaslóð – Bækur Braga Þórðarsonar um íslenskt þjóðlíf á fyrri tíð hafa notið mikilla vinsælda.  Sporaslóð hefur að geyma safn frásagna af atburðum og fólki sem setti mark á þjóðlífið fyrrum.  Hér má m.a. finna söguna af auðuga kettinum á Hraunsnefi.

 

Snorri – ævisaga Snorra Sturlusonar eftir Óskar Guðmundsson. Snorri Sturluson hefur sett meira mark á Íslandssöguna og menningarsögu í Vestur-Evrópu en flestir aðrir einstaklingar. Ævisaga hans sætir því tíðindum. Hér er sögð saga mikilhæfs manns sem þurfti að kljást við konunga í útlöndum, höfðingja heima fyrir, börnin sín og breyskleika sína. En þessi maður sem barðist fyrir heiminn fyrir átta öldum sigraði hann líka með bókmenntum.

 

 …og svo kom Ferguson  

Þeim sem fræðast vilja um íslenska þjóðhætti á fyrsta skeiði vélaaldarinnar berst hér kærkomin viðbót í þá heildarmynd. Bjarni Guðmundsson á Hvanneyri er hafsjór af fróðleik um þessa umbrotatíma og hefur hér unnið einstakt verk við skráningu þeirra  með Ferguson í brennipunkti.

 

Enn er morgunn

Söguleg skáldsaga eftir Böðvar Guðmundsson. Hún gerist á fyrri hluta 20. aldar og rekur mikla örlagasögu þýsks gyðings sem hrekst til Íslands. Sterk bók sem á erindi við samtímann.

Ennfremur verður greint frá öðrum nýjum bókum tengdum Borgarfirðinum.

 

Bækurnar eru gefnar út af Uppheimum og JPV forlagi

 

Categories:

Tags:

Comments are closed