Hallsteinn Sveinsson (1903-1995) gaf listaverkasafn sitt til Borgnesinga árið 1971 og bætti all nokkru við þá gjöf síðar. Var það stofninn að Listasafni Borgarness sem í dag á hundruð verka. Safnið starfar í minningu Hallsteins og samkvæmt hugsjónum hans um veigamikið hlutverk listarinnar í þágu samfélagsins.  Reglulega er sýnt úr safnkostinum, annars vegar með sýningum í Safnahúsi og hins vegar með því að leigja verk gegn vægu gjaldi til opinberra stofnana og fyrirtækja þar sem almenningur nær að sjá þau. Um leigu á verkum gilda eftirfarandi reglur:

1.gr

Listasafni Borgarness er heimilt að lána listaverk til opinberra stofnana og fyrirtækja og taka fyrir það gjald. Skal gerður um það samningur til árs í senn og framlengist hann sjálfkrafa nema annar aðilinn fari fram á annað, skal það gert með a.m.k. mánaðar fyrirvara. Leigutaki skal vátryggja leigð verk samkvæmt tryggingaverðmæti þeirra samkvæmt mati forstöðumanns Listasafnsins.

2.gr.

Leigutaki ber ábyrgð á þeim listaverkum sem eru í láni frá því þau fara frá Safnahúsi og þar til þau koma þangað aftur. Leigutaki skal bera fullan kostnað af láninu; flutning milli staða, uppsetningu og verðmati sérfræðinga, sé þess óskað.

3.gr

Listasafn Borgarness áskilur sér rétt til að innkalla útleigð listaverk án fyrirvara til sýninga ef þörf krefur. Við það fellur gjald þess verks niður.

4.gr.

Listaverkin skulu merkt sem eign Listasafns Borgarness. Safnið óskar þess að verkin séu ekki höfð uppi þar sem mikils sólarljóss gætir, né þar sem hita og rakastig er óstöðugt, auk þess sem almenns öryggis sé gætt. Ef um vanrækslu af hálfu lántaka er að ræða um meðferð verka, skal þeim strax skilað ef fulltrúi Listasafnsins óskar þess.

5.gr.

Gengið skal frá skriflegu samkomulagi Listasafns Borgarness og hlutaðeigandi stofnunar eða fyrirtækis, þar sem tilgreind eru öll listaverkin sem í láni eru, ásamt skilmálum.

 

Þannig samþykkt á starfsmannafundi í Safnahúsi 12. des. 2018 og framlagt í byggðaráði 3. janúar 2019.

 

Ljósmynd á síðu: Verk úr Listasafni Borgarness og rammi smíðaður af Hallsteini Sveinssyni. Myndataka: Guðrún Jónsdóttir.