Hennar voru spor – Arfur frá fortíð til framtíðar

20.4. – 19.8.2022

Sumarsýning Safnahúss Borgarfjarðar úr safnkosti Byggðasafns Borgarfjarðar, Listasafni Borgarness og Héraðsskjalasafni Borgarfjarðar.

Sýningarstjóri er Katrín Jóhannesdóttir. 

Safnkostur Byggðasafns Borgarfjarðar er hér í forgrunni ásamt nokkrum verkum úr listasafni Borgarness. Á sýningunni gefur að líta 58 númeraða textílmuni í eigu Byggðasafns Borgarfjarðar, þar af heilt safn útsaumsmuna, með minnst 25 hlutum inni á sýningunni.

Sýningin er í Hallsteinssal, á efri hæð Safnahússins.

Opið er alla virka daga kl. 13.00 – 18.00 og á laugardögum 11.00 – 15.00.

Katrín Jóhannesdóttir er fædd og uppalin í Borgarnesi. Eftir stúdentspróf frá FVA lá leiðin í Hússtjórnarskólann á Hallormsstað og síðan Skals Håndarbejdsskole í Danmörku árin 2004-2005. Hún lauk BA prófi frá Textilseminariet í Viborg árið 2008.
Katrín var handavinnukennari við Hússtjórnarskólann á Hallormsstað árin 2009-2013 og hefur kennt útsaum og fatasaum við Hússtjórnarskólann í Reykjavík frá árinu 2013. Einnig er vert að nefna 7 sumur sem Katrín starfaði á dvalarheimilinu Brákarhlíð í Borgarnesi.

Um sýninguna segir Katrín:

Varðandi uppsetningu sýningarinnar þykir mér mikill heiður að fá að standa að henni. Það er mér sem einlægri hannyrðakonu svo mikilvægt að sýna verkum horfinna kynslóða virðingu og um leið að kveikja áhuga okkar sem eftir stöndum á handverkinu. Því að ef handavinna er áhugamálið þitt þarf þér aldrei aftur að leiðast!

Hugsunin með sýningunni er því að setja fram í dagsljósið fallega muni, vandaða og oft með áhrifaríka sögu að baki – í fögru umhverfi sem gestir sýningarinnar taka á einhvern hátt þátt í og ekki síður að þetta sé sýning sem gestir finni þörf hjá sér fyrir að skoða aftur og sjái þá jafnvel eitthvað nýtt í hvert skipti.  

Eitt af því sem staðið hefur upp úr meðan á grúski í safnkostinum stóð, er að kynnast handverkskonunum (og körlunum þremur). Þó ekki í persónu, en að tengja marga þessa muni fólki í héraðinu. Í mörgum tilfellum voru það tengsl mín við Brákarhlíð sem gerðu vinnuna enn áhugaverðari og dýpri. Í samvinnu við Jóhönnu Skúladóttur á héraðsskjalasafninu var því skemmtilegt að grafast betur fyrir um fólkið á bak við gripina.

Í mörgum tilfellum er það sagan á bak við muninn sem gerir hann svo einstakan og er mikilvægt að hafa það á bakvið eyrað.