PallJonsson

Páll Jónsson bókavörður

Bókasafn Páls Jónssonar

Í rúmgóðu herbergi inn af handbókasal er Pálssafn staðsett, en það er bókasafn hins kunna bókasafnara og bókavarðar Páls Jónssonar frá Örnólfsdal í Þverárhlíð.

Páll Jónsson var fæddur árið 1909 að Lundum í Stafholtstungum en ólst upp lengst af í Örnólfsdal í Þverárhlíð. Átján ára fluttist Páll til Reykjavíkur þar sem hann lagði stund á verslunarstörf og blaðamennsku þangað til hann hóf störf hjá Borgarbókasafni Reykjavíkur árið 1953 sem bókavörður. Því starfi sinnti Páll þangað til hann lét af störfum árið 1980 fyrir aldurssakir. Auk áhuga síns á bókum og bókasöfnun hafði Páll mikinn áhuga á ljósmyndun, en myndir hans hafa birst víða í bókum og tímaritum. Tengt ljósmyndaáhuga Páls, var áhugi hans á ferðalögum og útivist. Páll var virkur félagsmaður í Ferðafélagi Íslands og sat í stjórn þess frá 1947 til 1978 er hann baðst undan endurkosningu.
Páll var ritstjóri Árbókar Ferðafélagsins frá 1968- 1982 er hann lét af starfi að eigin ósk. Fyrir ritstjórnartíð sína kom Páll að Árbókinni og lagði meðal annars fram myndefni í bókina.
Árið 1980 var Páll gerður að heiðursfélaga Ferðafélags Íslands.

Í Pálssafni eru á að giska um 5-7000 bindi frá ýmsum tímum, margar afar fágætar bækur. Elst bóka í Pálssafni er eitt af ritum Marteins Lúters, prentað í Wittenberg árið 1521. Í safninu er meðal annars Biblia laicorum eða Leikmannabiblía eftir Johann Auman, sem prentuð var 1599 í þýðingu Guðbrands biskups.
Páll lagði á það mikla áherslu að safna íslenskum bókum frá fyrri öldum og varð vel ágengt. Til að mynda eru 29 íslenskar bækur frá 17.öld, þar á meðal Þorláksbiblía gefin út á Hólum 1644.
Áritaðar bækur eru þó nokkrar í Pálssafni: elst er erlend latínubók úr eigu Brynjólfs biskups Sveinssonar. Af öðrum árituðum bókum frá fyrri tíð má nefna bækur Skúla Magnússonar Landfógeta, sr. Þorsteins Helgassonar í Reykholti og ljóðabækur skáldanna Gríms Thomsens, Þorsteins Erlingssonar og Einars Benediktssonar. Áritaðar bækur frá seinni tíð eru nær óteljandi.

Þess skal einnig getið að margar af sínum bókum batt Páll inn sjálfur, enda þótti hann meðal bestu bókbindara landsins. Ekki sótti hann þó iðnnám í þeirri grein heldur lærði af þýskum listbókbindara er hér dvaldist um nokkurra ára skeið eftir stríðslok.

Heimildir:
Ólafur Pálmason. 1991. Páll Jónsson og bókasafn hans. Erindi flutt í Héraðsbókasafni Borgarfjarðar 18.júní 1989. Sérprent úr Árbók Landsbókasafns 1991. Reykjavík.
Steindór Steindórsson frá Hlöðum. 20.júní 1989. Páll Jónsson frá Örnólfsdal. Örn og Örlygur Reykjavík.
Auk ofanritaða heimilda má benda á ritið Land og Stund; afmæliskveðja til Páls Jónssonar á 75 ára afmæli hans 20.júní 1984.

leikmannabiblia

Leikmannabiblía frá 1599

23. maí 1984 tilkynnti Páll að bókasafn sitt gæfi hann Héraðsbókasafni Borgarfjarðar. Samkvæmt skilyrðum þeim sem Páll setti fyrir gjöfinni eru bækurnar varðveittar sem sérstakt safn í Héraðsbókasafninu og eru ekki til útláns heldur til skoðunar á staðnum. Einnig lagði Páll til að yfir safninu færi þriggja manna stjórn, skipuð einum aðila úr hópi ættingja hans, einum sérfróðum um bækur og bókasöfn og sá þriðji skyldi vera safnvörður Héraðsbókasafns Borgarfjarðar.

Frá því að safninu var komið á legg höfðu Ása Ólafsdóttir fyrir hönd ættingja og Ólafur Pálmason fyrrum forstöðumaður þjóðdeildar Landsbókasafns og síðar forstöðumaður safna Seðlabanka Íslands setið í stjórn Pálssafns og svo forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar hverju sinni. Nú eiga þau Sigrún Guðmundsdóttir og Sverrir Kristinsson þar sæti ásamt Guðrúnu Jónsdóttur forstöðumanni.

Páll lést í Reykjavík 27. maí 1985, eða aðeins rétt rúmu ári eftir að hann ánafnaði Héraðsbókasafni Borgarfjarðar bókasafn sitt.

Bókasafn Páls var opnað með viðhöfn þann 18.júní 1989. Þann 22.júní 1989 var sagt frá opnuninni Í héraðsfréttablaðinu Borgfirðingi (3.árg. 10 tbl bls 7).
Pálssafn er opið á sama tíma og Héraðsbókasafn Borgarfjarðar. Gestir gefa sig fram við bókavörð eða annað starfsfólk Safnahúss sem þá fylgir gestum um safnið.

Í upphafi árs 2008 hófst vinna við að skrá safnið í bókasafnskerfið Gegni, en við móttöku gjafarinnar var gerð skrá í pappírsformi yfir safnkostinn.

Þess má geta að ljósmyndasafn Páls er varðveitt í ljósmyndasafni Héraðsskjalasafns Skagafjarðar.

Bókmerki Páls teiknað af Gunnari Hjaltasyni gullsmið

Bókmerki Páls teiknað af Gunnari Hjaltasyni gullsmiði

Ritstörf Páls og ljósmyndir, er meðal annars að finna í eftirfarandi ritum:

Á hálfgleymdum slóðum, grein í Ferðaþáttum, Árbók Ferðafélagsins 1943 (bls 46-57).
Bókmerki síra Þorsteins Helgasonar, grein í Helgakveri; Afmæliskveðju til Helga Tryggvasonar 1.3 1976. Páll var jafnframt í útgáfunefnd ritsins.
Heiman ég fór, vasalesbók. 1946. Gísli Gestsson, Páll Jónsson og Snorri Hjartarson völdu efnið. Víkingsútgáfan.
Steindór Steindórsson. 1968. Landið þitt Ísland: saga og sérkenni 700 staða og svæða í óbyggðum Íslands 2. Myndir eftir Pál Jónsson og Þorstein Jósepsson.
Páll Jónsson og Þorsteinn Jósepsson. 1941. Souveniers from Iceland. Að meginhluta myndir. Reykjavík.
Látinn félagi. Eftirmæli um Kristínu Bjarnadóttur 1907-1975. Í : Bókasafnið 3 (1).

Samantekt: Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður.