Unga fólkið og Þorsteinn frá Hamri

Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar hafa á undanförnum árum unnið saman að því að hvetja ungt fólk til að semja tónlist við borgfirsk ljóð. Verkefnið ber vinnuheitið Að vera skáld og skapa og fer þannig fram að nemendur velja sér texta úr völdu ljóðasafni og semja lög við. Venjulegast flytja þeir svo tónsmíðar sínar á tónleikum, en í ár var sá háttur á að afraksturinn var tekinn upp og settur á Youtube. Skáld ársins 2021 er Þorsteinn frá Hamri. Hér á eftir má sjá nöfn lagahöfundanna og flutninginn á lögunum. Alls eru þetta átta lög og öll nema það síðasta hafa börnin sjálf samið og flytja ýmist ein eða með kennaranum sínum. Fleiri lög voru samin en þessi voru unnin alla leið í upptökur. Eru þetta lög eftir nemendur eftirtalinna kennara:  Birnu Þorsteinsdóttur, Daða Georgsson, Dóru Ernu Ásbjörnsdóttur, Ólaf Flosason, Reyni Hauksson og Sigríði Ástu Olgeirsdóttur.  Hér má sjá tengla á lögin sem hér um ræðir og eru nemendum, skólastjóra og kennurum færðar hamingjuóskir með árangurinn.  Birnu nemandi:Sumir dagar – Birgitta Sólveig Birnu nemandi:Glugginn – Bryndís Hulda Sigríðar Ástu nemandi:Sumir dagar – Hekla Isabel Sigríðar Ástu nemandi:Skógarbörnin – Anna Diljá Daða nemandi:Þessi orð og þú – Sólveig Birna Dóru Ernu…

Landið mitt – Inga Stefánsdóttir

Laugardagurinn 15. maí er fyrsti opnunardagur nýrrar sýningar í Safnahúsi.  Hún ber heitið Landið mitt og er fyrsta sýning Ingu Stefánsdóttur sem þar sýnir olíuverk. Inga er búsett í Lundarreykjadal. Hún er sálfræðingur að mennt og starfi en hefur málað samhliða því um nokkurt skeið. Náttúran er hennar viðfangsefni en verkin byggir hún á ljósmyndum. „Náttúran er síbreytileg og sami staður getur gefið innblástur þegar ljós og litir skarta sínu fegursta. Málun hefur alltaf höfðað til mín og er mín leið til að róa hugann og byggja upp innri frið“ Fyrsti opnunardagur sýningarinnar er laugardagurinn 15. maí og síðasti dagur 17. júní. Um sölusýningu er að ræða. Opnunartími: virka daga 13 til 18 og um helgar 13 til 17.  Stefnt er að viðveru listamannsins á sýningunni allar helgar á opnunartíma. 

Sumaropnun sýninga

Frá og með 1. maí tekur sumaropnun gildi í Safnahúsi og sýningar verða opnar alla daga vikunnar kl. 13.00 til 17.00. Grunnsýningar hússins eru Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, báðar hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni og sérhannaðar fyrir börn og fjölskyldur. Í Hallsteinssal sýnir listakonan Sigríður Ásgeirsdóttir fram til 7. maí og skömmu síðar tekur við sýning á verkum Ingu Stefánsdóttur. Fjölbreyttar sýningar eru framundan í Hallsteinssal og má sjá nánar um verkefni hússins með því að smella hér. Ljósmynd (GJ): Nemendur Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri skoða fugla í Safnahúsi fyrir nokkru.

Viðvera listamanns

Sýning Sigríðar Ásgeirsdóttur (Systu) stendur til 7. maí n.k. Listakonan hefur verið ötul í viðveru á sýningunni og verður þar t.d. eftir hádegið í dag föstudaginn 23. apríl og n.k. mánudag 26. apríl.  Verk Systu eru litsterk og björt og falla vel að vorinu, þegar dimma skammdegisins er að baki.  Sýningin er opin kl. 13 til 18 virka daga og frá 1. maí einnig um helgar 13-17. 

Hlúð að safnkosti

Árið 2020 fékk Safnahús öndvegisstyrk hjá Safnaráði Íslands.  Styrkurinn nemur fjórum milljónum króna og skiptist á tveggja ára tímabil. Þetta og aðrir styrkir sem komið hafa frá Safnaráði  á þessum erfiðu tímum skiptir starfsemina afar miklu máli. Söfn Safnahúss búa yfir gríðarmiklum safnkosti. Sem dæmi um verkefni sem öndvegisstyrkur hefur verið nýttur til má nefna forvörslu, bættan aðbúnað í geymslum, áætlanagerð, innkaup á búnaði og aðgerðir í öryggismálum. Vegna aðstæðna í samfélaginu hafa ýmsar framkvæmdir dregist en unnið er staðfastlega áfram að úrbótum í samráði við Safnaráð. Styrkir ráðsins eru ætlaðir munasöfnum sem hlotið hafa viðurkenningu ráðsins og falla lista- náttúrugripa- og byggðasöfn undir þá skilgreiningu enda uppfyllir starfsemin skilmála varðandi húsnæði, öryggismál, aðgengi, skráningarkerfi og faglegt starf. Auk öndvegisstyrksins vegna safnkostsins nýtur Safnahús minni styrkja frá ráðinu til annarra þátta starfseminnar á árinu s.s. kynningarmála og sýningarstarfsemi.

Sýningahald – dagskrá

Hallsteinssalur er fjölnota salur sem svo er nefndur eftir listvininum Hallsteini Sveinsssyni.  Þar eru haldnar sýningar af ýmsu tagi, listsýningar  sem og sýningar á sviði menningararfs.  Hér á eftir má sjá helstu fyrirliggjandi verkefni í salnum.     15. febrúar– 19. mars 2021: sýning á verkum Lúkasar og Jónsa – Myrka Ísland 29. mars -7. maí  – Ný verk – sýning Sigríðar Ásgeirsdóttur 14. maí til 18. júní – Sýning á verkum Ingu Stefánsdóttur 24. júní til 29. júlí – Sýning á verkum eftir Viktor Pétur Hannesson 5. til 20. ágúst – Sýning á vegum Plan B listahátíðar 26. ágúst til 30. sept. –  Sýning á verkum Ásu Ólafsdóttur 7. okt. til 4. nóv. Sýning á verkum Jóhönnu Jónsdóttur 15. nóv. til 1. ágúst 2022 –  Sýning á textílhandverki úr fórum byggðasafnsins 6. ágúst til 20. ágúst 2022 –  Plan B listahátíð Þess má geta að tvær fastasýningar eru í Safnahúsi, Ævintýri fuglanna og Börn í 100 ár.  Hafa þær vakið mikla athygli og eru opnar alla daga í maí, júní, júlí og ágúst en þess utan frá 13 til 16 virka daga.  Sjá má upplýsingar um opnunartíma safnanna með því að smella hér. Ofangreint er birt með fyrirvara um…

Páskar 2021

Síðasti opnunardagur fyrir páska er föstudagurinn 30. mars og opið verður aftur þriðjudaginn 6. apríl kl. 13 til 18.  Við minnum á afar áhugaverða og fallega sýningu Sigríðar Ásgeirsdóttur sem stendur frá 29. mars til 7. maí og óskum öllum safngestum gleðilegra páska.

Ný verk – sýning Systu

Ný verk er yfirskrift sýningar myndlistarkonunnar Sigríðar Ásgeirsdóttur (Systu) sem verður opin í Hallsteinssal frá mánudeginum 29. mars. Sigríður ólst upp í Borgarnesi og á ættir að rekja til Gilsbakka í Hvítársíðu, dóttir hjónanna Sigrúnar Hannesdóttur og Ásgeirs Péturssonar.  Sigríður er þekktust fyrir steind glerverk en sýnir nú verk unnin með akrýl og vatnslit á pappír.  Sigríður segir náttúru Íslands hafa veitt henni innblástur alla tíð.  Birta hefur ávallt verið mikilvæg í myndlist hennar og í verkunum sem hún sýnir nú leitast hún við að vinna með birtuna á sama hátt og hún gerir í glerverkum sínum.  Sigríður vinnur ávallt drög að glerverkum sínum á pappír en í verkunum á sýningunni er líkt og hún yfirfæri áhrif og upplifun af steindu gleri yfir í áferð og birtu málverkanna. Þó Sigríður hafi mest unnið í steint gler, og lágmyndir á veggi, („svörtu verkin”), þá hefur hún einnig notað margvísleg önnur efni til listsköpunar.  Hún hefur unnið málverk, vatnslitamyndir, teikningar með títuprjónum, blýteikningar (grafít), bókverk, bókakápur, myndskreytingar í bækur og skúlptúra. Sigríður hefur starfað við glerlist í áratugi og verk eftir hana er að finna víða bæði hér heima og erlendis. Hún lagði stund á myndlistarnám í Myndlistaskólanum í Reykjavik á árunum…

Ný sýning opnuð 15. febrúar

Fyrsta sýningarverkefni Safnahúss á árinu 2021 verður tengt sögulega hlaðvarpinu Myrka Ísland sem er á vegum Borghreppinganna Sigrúnar Elíasdóttur og Önnu Drafnar Sigurjónsdóttur. Opnunardagurinn verður mánudagurinn 15. febrúar og sýnd verða verk eftir Lúkas Guðnason og Sigurjón Líndal Benediktsson (Jónsa) sem myndskreyta þættina. Verður sýningunni fylgt úr hlaði með rafrænni sögustund sem  hægt verður að nálgast á kvikborg.is og á Facebook síðu Myrka Íslands, sjá einnig hér. Lúkas og Jónsi eru báðir úr Borgarfirðinum og eru fæddir árið 2004. Sýningin er í Hallsteinssal í Safnahúsi og opnunardagur hennar mánudagurinn 15. febrúar en síðasti sýningardagur 19. mars. Ekki verður um formlega opnun að ræða vegna aðstæðna en gestir boðnir hjartanlega velkomnir til að skoða sýninguna á opnunatíma, kl. 13 til 18 alla virka daga.  Farið verði að reglum um sóttvarnir hvers tíma. Næsta verkefni í Hallsteinssal verður sýning á verkum Sigríðar Ásgeirsdóttur í lok mars n.k., nánar síðar. Viðburðaskrá 2021 verður lögð fram í heild sinni um leið og vitað verður meira um takmarkanir á samkomuhaldi á árinu. Menningardagskrá Safnahúss er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.