Ný sýning opnuð 15. febrúar

Fyrsta sýningarverkefni Safnahúss á árinu 2021 verður tengt sögulega hlaðvarpinu Myrka Ísland sem er á vegum Borghreppinganna Sigrúnar Elíasdóttur og Önnu Drafnar Sigurjónsdóttur. Opnunardagurinn verður mánudagurinn 15. febrúar og sýnd verða verk eftir Lúkas Guðnason og Sigurjón Líndal Benediktsson (Jónsa) sem myndskreyta þættina. Verður sýningunni fylgt úr hlaði með rafrænni sögustund sem  hægt verður að nálgast á kvikborg.is og á Facebook síðu Myrka Íslands, sjá einnig hér. Lúkas og Jónsi eru báðir úr Borgarfirðinum og eru fæddir árið 2004. Sýningin er í Hallsteinssal í Safnahúsi og opnunardagur hennar mánudagurinn 15. febrúar en síðasti sýningardagur 19. mars. Ekki verður um formlega opnun að ræða vegna aðstæðna en gestir boðnir hjartanlega velkomnir til að skoða sýninguna á opnunatíma, kl. 13 til 18 alla virka daga.  Farið verði að reglum um sóttvarnir hvers tíma. Næsta verkefni í Hallsteinssal verður sýning á verkum Sigríðar Ásgeirsdóttur í lok mars n.k., nánar síðar. Viðburðaskrá 2021 verður lögð fram í heild sinni um leið og vitað verður meira um takmarkanir á samkomuhaldi á árinu. Menningardagskrá Safnahúss er styrkt af Uppbyggingarsjóði Vesturlands.

Saga safngrips

Einn af fyrstu safngripunum á byggðasafninu eru gleraugu sem bárust safninu á fjórða áratug 20. aldar, tæpum 20 árum áður en safnið er stofnað. Ragnar Ásgeirsson frá Knarrarnesi, bróðir Ásgeirs Ásgeirssonar, hafði ásamt fleiri frumkvöðlum hafið söfnun muna löngu áður en formlegt safn var til staðar.  Gleraugun eru að öllum líkindum 19. aldar smíði, með bandi sem var bundið aftan og undir hnakkann. Skráður gefandi er Elínborg Ingigerður Sigurðardóttir en gleraugun höfðu verið í eigu móður hennar, Sigurbjargar Jónsdóttur (1852-1925). Sigurbjörg var dóttir vinnuhjúa á Hofi í Vatnsdal og ólst upp hjá vandalausum. Hún giftist Sigurði Finnssyni bónda á Hamri í Borgarhreppi (þar sem nú er golfvöllur) í október 1883, þá rúmlega þrítug. Sigurður var 27 árum eldri og hafði misst fyrri konu sína sama ár. Fyrra hjónabandið með Margréti Ásgrímsdóttur (1813-1883) var barnlaust en Sigurbjörg og Sigurður eignuðust þrjú börn. Elst var Elínborg (f. 1885), sem síðar gaf gleraugun til safnsins, þá Gunnlaugur Karl (1888-1913) og yngst var Margrét sem var fædd árið 1890 en lést aðeins nokkurra vikna gömul. Sigurbjörg Jónsdóttir missti mann sinn árið 1906 en hélt áfram búskap á Hamri. Árið 1909 giftist hún aftur, Jóhanni Magnússyni sem var fæddur árið 1874 og var því 22…

Dagur íslenskrar tungu

Ríkisstjórn Íslands ákvað haustið 1995 að 16. nóvember ár hvert yrði dagur íslenskrar tungu. Var dagurinn valinn vegna þess að hann er fæðingardagur Jónasar Hallgrímssonar. Hefur menntamála- og menningarmálaráðuneytið árlega beitt sér fyrir sérstöku átaki í þágu íslensks máls á þessum degi og beinir þar með athygli þjóðarinnar að stöðu tungunnar, gildi hennar fyrir þjóðarvitund og alla menningu. Í Safnahúsi er dagsins að venju minnst með því að birta fallegt kvæði Snorra Hjartarsonar sem vísar til arfleifðar Jónasar og ber heitið Jónas Hallgrímsson. Snorri var fæddur á Hvanneyri og bjó í Borgarfirði fram á unglingsár, á Ytri Skeljabrekku og í Arnarholti. Eitt einkenni ljóða hans eru friðsælar en litríkar myndir íslenskrar náttúru, en hann var mikill unnandi hennar.      Jónas Hallgrímsson Döggfall á vorgrænum víðumveglausum heiðum,sólroð í svölum og góðumsuðrænum blæ. Stjarnan við bergtindinn bliknar,brosir og slokknar,óttuljós víðáttan vaknarvonfrjó og ný. Sól rís úr steinrunnum straumum,stráum og blómumhjörðum og söngþrastasveimumsamfögnuð býr. Ein gengur léttfær að leita:lauffalin gjótageymir nú gimbilinn hvíta,gulan á brár. Hrynja í húmdimmum skútahljóðlát og glitrandi tár. Kvæði (1944)

Viðburðum frestað

Viðburðum sem vera áttu í nóvembermánuði í Safnahúsi hefur verið frestað.  Það er myndamorgunn Héraðsskjalasafnsins sem vera átti 12. nóvember og opnun sýningar Viktors Péturs Hannessonar sem vera átti 28. nóvember. Vel er fylgst áfram með þróun mála og við látum vita með desembermánuð um leið og aðstæður leyfa.  Í húsinu er hið sívinsæla bókasafn auk fimm sýninga og fólk hefur verið mjög duglegt að sækja okkur heim. Á næsta ári vonumst við til að ástandið verði mun betra og verðum með marga skemmtilega viðburði á dagskrá. Þess má geta að Uppbyggingarsjóður Vesturlands hefur styrkt menningardagskrána okkar nokkur síðustu ár sem hefur verið stofnuninni afar verðmætt.

Opið í Safnahúsi

Á því tímabili sem sóttvarnarlæknir og heilbrigðisráðherra hafa nú skilgreint er að óbreyttu opið í Safnahúsi og allra sóttvarna gætt. Ekki er grímuskylda nema fjarlægðarmörk krefjist þess en við biðjum fólk um að gæta þess með okkur að ekki séu fleiri en tíu í sama rými (sjá nánar um aldursmörk o.fl. hér. Sjá má nánar um ráðstafanir í stofnunum Borgarbyggðar með því að smella hér. Í Safnahúsi er unnið eftir viðbragaðsáætlun í samráði við viðbragðsteymi Borgarbyggðar. Þessa dagana hefur fólk verið duglegt að koma á bókasafnið, sýning Guðmundar Sigurðssonar hefur verið framlengd um óákveðinn tíma og sýningar á neðri hæð eru opnar gestum. Minnt er á að hægt er að skila bókum í bókalúgu við vestari inngang hússins. og hér má sjá nánar um opnunartíma safnanna.

Sýningahald á næstunni

Sýning Guðmundar Sigurðssonar sem ljúka átti 26. október hefur verið framlengd fram í miðjan nóvember. Sýningin hefur verið vel sótt og fær afar góða umsögn gesta. Sýningu Jóhönnu Jónsdóttur sem opna átti 31. október hefur verið frestað til næsta árs og verður næsta myndlistarverkefni hússins að óbreyttu sýning Viktors Péturs Hannessonar sem opnuð verður í Hallsteinssal lok nóvember. Minni áhersla er á viðburðahald í Safnahúsi nú en venjulega og skapast það af ytri aðstæðum í samfélaginu. Í húsinu er þó nægt rými fyrir gesti til að njóta þess sem þar er og fyllstu sóttvarna er gætt. Héraðsbókasafnið er opið virka daga kl. 13-18 og sýningar hússins á efri hæð eru opnar á þeim tíma. Grunnsýningar hússins, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna eru opnar virka daga kl. 13-16. Héraðsskjalasafn tekur á móti gestum skv. samkomulagi og er skjalavörður að öllu jöfnu með viðveru kl. 8-16.

Guðmundur Sigurðsson

Síðasta sýningin er heiti listsýningar Guðmundar Sigurðssonar sem opnuð var 28. september s.l. í Hallsteinssal. Þar má sjá fjölbreytt verk eftir Guðmund sem margir þekkja sem fjölhæfan myndlistarmann en jafnframt fyrrverandi skólastjóra Grunnskólans í Borgarnesi. Guðmundur er á 85. aldursári og segir þetta verða sína síðustu sýningu í Borgarnesi þar sem hann bjó í rúm fjörutíu ár.  Um list sína segir hann svo: „Myndsköpun hefur verið mín helsta afþreying allt mitt æviskeið. Kveikjan að myndlistaráhuganum varð í barnæsku þegar ég bjó í sama húsi og hinn mæti myndlistarmaður Höskuldur Björnsson. Í dag er ég félagi í Grósku, myndlistarfélagi Garðabæjar og er það hvatning til að sinna listinni reglulega.“ Að óbreyttu stendur sýningin til 27. október en við biðjum fólk að fylgjast með hér á vefnum eða á Facebook síðu okkar (Safnahús Borgarfjarðar) ef um breytingar kynnu að verða vegna aðstæðna í samfélaginu.