Mynd: www.leikskald.is

 

Í dag eru 80 ár liðinn frá fæðingu hins ástsæla leikara Flosa Ólafssonar en hann lést sem kunnugt er í lok síðustu viku. 

Flosi ólst upp í Reykjavík og bjó þar þangað til hann flutti ásamt konu sinni, Lilju Margeirsdóttur, í Reykholtsdal í Borgarfirði fyrir hartnær 20 árum. 

Til gamans má geta þess að í ljóðabókinni Borgfirðingaljóð, sem geymir safn ljóða eftir borgfirska höfunda og var útgefin af Hörpuútgáfunni árið 1991, birtist ljóð eftir hinn þekkta rithöfund Jónas Árnason sem bjó einnig í Reykholtsdalnum, um búferlaflutning Flosa, ljóðið heitir Haust og hefur undirtitilinn- Flosi Ólafsson flutti í Reykholtsdal.

 

Norðan frá heimskauti yfir oss dimmuna dregur

veturinn kaldur og argur og ófrýnilegur.

Skýbólstrar þéttast og þröngva  sér niður með Oki

landgolan blíða er orðin að andskotans roki.

Blóm eru fölnuð og fokin sem hvert annað glingur,

beljurnar leika ekki lengur við hvurn sinn fingur.

Oss finnst þó bændunum sumum að bættur sé skaðinn,

lóan er farin, en Flosi er kominn í staðinn.

 

(Borgfirðingaljóð bls: 178)

 

 Hér verður ferill Flosa rakinn í stuttu máli.

Ferill Flosa á listabrautinni er afar farsæll og fjölbreyttur. Hann tók stúdentspróf frá Menntaskólanum á Akureyri 1953 og lokapróf frá Leiklistarskóla Þjóðleikhússins árið 1958. Þá stundaði Flosi nám í leikstjórn og gerð sjónvarps- og útvarpsþátta hjá BBC í London 1960-62. 

 

Flosi var leikari og leikstjóri við Þjóðleikhúsið frá 1958, að undanskildum námsárunum í London.  Hann frumsamdi og þýddi fjölmörg leikrit, meðal frumsaminna leikrita má nefna barnaleikritið Bakkabræður, sakamálaleikritið Prívatauga og gamanóperettuna Ringulreið.  Þá frumsamdi Flosi og stjórnaði fjölmörgum þáttum í revíuformi fyrir útvarp og sjónvarp, þar á meðal fimm áramótaskaupum Sjónvarpsins. 

 

Hlutverk Flosa á sviði voru eins og nær má geta á löngum ferli fjölmörg en hann lék síðast í sumar í leikritinu Kurteist fólk.  Þá túlkaði hann margar eftirminnilegar persónur í kvikmyndum t.d má nefna hinn ógleymanlega húsvörð Sigurjón digra í Stuðmannamyndinni Með allt á hreinu frá 1982 en meðal annarra mynda eru myndir Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafninn Flýgur og Í skugga Hrafnsins og Löggulíf Þráins Bertelssonar þar sem Flosi lék hinn harðskeytta Varða varðstjóra.

 

 

Mynd Árna Elfars af Flosa úr bókinni Hneggjað á bókfell

Frumsamdar bækur Flosa eru sjö og flestar ef ekki allar í nokkuð  gamansömum anda eins og höfundarins var von og vísa.  Fyrsta bókin leit dagsins ljós árið 1973 og bar heitið Slett úr klaufunum en myndirnar í bókinni voru eftir Árna Elfar. Þeir félagar voru aftur á ferðinni ári síðar með bókina Hneggjað á bókfell og árið 1975 kom þriðja bókin Leikið lausum hala en allar geyma bækurnar ýmis gamanmál skreytt kveðskap ýmsum og frábærum myndum Árna.   

 

Nú liðu 6 ár í bókaútgáfu Flosa en bókin Í kvosinni kom út árið 1982 en hún ber titillinn Æskuminningar og bersöglismál en þar segir Flosi m.a frá uppvaxtarárum sínum í Reykjavík.  Bókin var jafnframt gefin út í hljóðbók nokkrum árum síðar í óborganlegum flutningi höfundarins sjálfs.  Í kvosinni hefur verið ófáanleg í mörg ár og því var brugðið á þá ráð að gefa hana út aftur nú í tilefni stórafmælisins.  Það er bókaforlagið Skrudda sem gefur bókina út einsog síðustu þrjár bækur Flosa. 

 

Fimmta bók Flosa lítur ekki dagsins ljós fyrr en rúmum tuttugu árum eftir útkomu Í kvosinni og þá hafði Flosi komið sér vel fyrir í sveitasælunni í Borgarfirðinum.  Nú voru sambúðarár þeirra Lilju í brennidepli og bar bókin heitið Ósköpin öll– sannleikskorn úr sambúð.  Á bókarkápu stendur:

 
,,Í bókinni eru glefsur úr hálfrar aldar sambúðarsögu heiðurshjónanna Flosa og Lilju á ofanverðri 20.öld, eins og Flosi man best. Textarnir í ritinu eru byggðir á fjölda heimilda um þetta athyglisverða lífshlaup frá því sambúðin hófst og framá þennan dag. Þetta eru dagbókarbrot, sneplar, uppköst, minnismiðar og jafnvel slitur úr prentuðu máli og allt skrifað í hálfkæringi einsog höfundar er von og vísa.”

 

Nú líður aðeins ár á milli bóka; Heilagur sannleikur kemur út árið 2003 og innihéldur sem fyrr gamansamar sögur og hugleiðingar. 

Síðasta bók Flosa Gamlar syndir birtist árið 2006 og er hún einsog fyrstu bækur Flosa myndskreytt af Árna Elfari. Formála að bókinni skrifar Kjartan Ólafsson gamall skólabróðir Flosa og vinur og fyrrverandi ritstjóri Þjóðviljans en Flosi skrifaði vikulega pisla í Þjóðviljann um langt árabil.  Síðar skrifaði hann pistla í fleiri blöð m.a. í dagblöðin DV og Pressuna og vikublaðið Skessuhorn. Þá hafa pistlar Flosa einnig birst á netinu og í útvarpi og sjónvarpi. 

  

 

Flosi hefur einnig fengist við þýðingar;

Meðal þýðinga Flosa á leikverkum og óperum eru: Prinsessan á bauninni, Gæjar og píur, Chicaco , Oliver Twist, Káta ekkjan og Söngvaseiður. Hann þýddi m.a bókina Bjargvætturinn í grasinu eftir J.D Salinger og hefur einnig þýtt fjölmarga söngtexta en þess má geta að Freyjukórinn í Borgarfirði flutti þrjá þeirra á plötu sinni Birting sem út kom árið 2006.  Flosi þýddi sjálfur textana og söng hin þekktu dægurlög Það er svo geggjað að geta hneggjað” og  Ó ljúfa líf með aðstoð hljómsveitarinnar Pops.

 

Starfsfólk Safnahúss Borgarfjarðar vottar ástvinum Flosa Ólafssonar innilega samúð vegna fráfalls hans.

 

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed