Hér má sjá ljósmyndir og helstu upplýsingar um Hallsteinssal, sýningarsalinn á efri hæð Safnahúss sem nefndur er eftir listvininum Hallsteini Sveinssyni. Sjá má myndasafn hér ofar, helstu mál á salnum sjálfum með því að smella hér og mál á anddyri Héraðsbókasafns með því að smella hér. Listamenn nýta sér anddyrið oft til sýninga og einnig er möguleiki á minna svæði undir örsýningar.

Í salnum eru bæði byggða- og listsýningar. Hvað það síðarnefnda varðar er unnið í anda Hallsteins um mikilvægi listarinnar og að hún eigi að vera sem mest meðal fólks.

Menningarstefna Borgarbyggðar lögð til grundvallar í starfsemi Listasafns Borgarness. Þar er kveðið á um að sveitarfélagið styðji eins og kostur er við myndlistariðkun og miðlun, m.a. með því að leggja til húsnæði til sýninga. Einnig eigi að leitast við að opna leiðir fyrir íbúa til að njóta sín í listsköpun og að hvetja ungt myndlistarfólk til að kynna list sína.

Á sýningum er lagt er upp úr því að sýnd séu verk sem ekki hafa verið sýnd áður og að fyrir hendi sé tenging við starfssvæði Safnahúss, en það nær allt frá Haffjarðará í vestri til Hvalfjarðar í suðri.

Sýnandi greiðir ekki leigu af salnum en annast alfarið uppsetningu sýningar sinnar. Mælt er með neglingum í veggi frekar en að nota lausar festingar. Sýnandi sér um allt annað er viðkemur sýningunni sjálfri s.s. merkingar. Ef um sölusýningu er að ræða annast sýnandi þau mál. Sýnandi skilur við salinn eins og hann tók við honum og fjarlægir nagla eða skrúfur úr veggjum, en spörslun og málun á götum eftir slíkar festingar fer fram á vegum Safnahúss.

Ekki er greidd leiga fyrir sýningarsalinn. Ef aðstæður leyfa leggur Safnahús til hátíðardrykk og konfekt við opnun sýningar nema viðkomandi listamaður kjósi annað fyrirkomulag. Ef svo er annast hann veitingaþáttinn bæði er varðar aðföng, ílát og umsjón. Gestabók Safnahúss stendur til boða ef sýnandi notar ekki sína eigin gestabók.

Veggspjald til kynningar á sýningunni er unnið í Safnahúsi í samvinnu við viðkomandi listamann. Einnig er útbúin auglýsing fyrir héraðsmiðla og tengslanet Safnahúss nýtt til kynningar, svo og samfélagsmiðlar. Sé frekari kynningar óskað annast sýningaraðili það sjálfur í samráði við safnstjóra. Farið skal ávallt að gildandi sóttvarnarreglum.

Hentugast er að sýning sé sett upp sem næst opnunardegi og farið er fram á að öllum undirbúningi sé lokið í síðasta lagi kl. 18 síðasta virka dag fyrir opnun. Aðilum sem sýna í salnum eru kynntar ofangreindar upplýsingar og undirgangast þar með þau skilyrði sem þar eru sett.