Það var góð mæting á opnuninni
Síðastliðinn fimmtudag, þann 12. nóvember var opnuð Ljóðasýning 5.bekkja í grunnskólunum í nágrenninu, í tilefni af Degi íslenskrar tungu sem er raunar í dag, á fæðingardegi Jónasar Hallgrímssonar. Þetta er fimmta árið í röð sem Safnahús Borgarfjarðar efnir til ljóðasýningar af þessu tagi, í góðu samstarfi við kennara fimmtu bekkja, og í fjórða sinn sem haldin er sérstök opnunarhátíð. 

Heimsókn Hildar M. Jónsdóttur vakti mikla athygli
Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður setti samkomuna en sú hefð hefur skapast síðustu ár að eitt borgfirskt skáld er kynnt við sama tilefni.  Að þessu sinni kynnti Sævar skáldskap Þuríðar Guðmundsdóttur frá Sámsstöðum í Hvítársíðu en í ár eru liðin 40 ár frá útkomu fyrstu ljóðabókar hennar en alls hefur Þuríður sent frá sér sjö ljóðabækur sem hafa fengið góðar viðtökur lesenda. 

Sérstakur gestur opnunarhátíðarinnar var Hildur M. Jónsdóttir frá Brúðuheimum hér í Borgarnesi.  Hún kynnti starfssemi Brúðuheima og sýndi börnunum nokkrar brúður og brot úr kvikmynd þar sem brúður eiginmanns hennar Bernd Ogrodnik brúðuleikara koma mikið við sögu.  Að loknu skemmtilegu erindi Hildar var boðið uppá veitingar og gestum jafnframt boðið á sýninguna Börn í 100 ár á neðri hæð Safnahúss.

 

 Safnahús Borgarfjarðar færir öllum þeim sem komu að ljóðasýningunni bestur þakkir fyrir ánægjulegt samstarf.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed