Nýtt og glæsilegt bóka- og safnahús var tekið í notkun að Dalbraut 1 á Akranesi s.l. miðvikudag og er fyllsta ástæða til að óska Skagamönnum til hamingju með hversu vel hefur til tekist. Bókasafnið, sem áður var á þremur hæðum að Heiðarbraut 40, er þar með allt komið á eina hæð. Í safnahúsinu er einnig aðstaða fyrir ljósmyndasafn og skjalasafn og góðar geymslur.

Útlánasalur bókasafnsins nær yfir helming húsrýmis, en þar er einnig aðstaða til sýninga úr hinum söfnunum. Í máli Gísla S. Einarssonar bæjarstjóra við opnun bókasafnsins kom fram að heildarkostnaður við safnahúsið er um 365 milljónir. Þar af eru tæp 13% vegna kaupa á sérbúnaði. Vertaki tók gamla bókasafnshúsið upp í greiðslu og var það metið á 60 milljónir króna. 

 

Halldóra Jónsdóttir bæjarbókavörður rakti aðdragann að flutningi safnanna frá Heiðarbrautinni, en það húsnæði þurfti orðið á verulegum viðgerðum að halda, auk þess sem þar voru engin öryggiskerfi, en slíkt er ekki boðlegt í dag þar sem verðmæt skjalasöfn eru í geymslu.

 

Sagði Halldóra að þetta hafi verið farið að há starfsemi safnsins auk óhagkvæmni húsnæðis.

 

Arkitekt að útliti bókasafnshússins er Elín G. Gunnlaugsdóttir sem starfar hjá Skapa og Skerpa. Virkjun ehf. hafði yfirumsjón með byggingunni og öllum frágangi í húsinu. Fjölmargir undirverktakar komu einnig að verkinu, flestir frá Akranesi.

 

Heimild: Skessuhorn.is – ljósmyndir: Stafsfólk safnsins og nýja aðstaðan, Halldóra Jónsdóttir lengst til hægri.

Guðrún Jónsdóttir

 

 

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed