Hinsegin hátíð Vesturlands

Um næstu helgi verður hinsegin hátíð Vesturlands haldin í Borgarnesi. Samnefnt félag stendur fyrir hátíðinni, en það var stofnað í byrjun þessa árs.  Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Þar fá gestir tækifæri til að horfa á heiminn í gegnum sakleysi barna af öllum stigum samfélagsins og ganga út með þá vissu að mannkynið allt skuli vera frjálst eins og fuglinn.  Við óskum aðstandendum hátíðarinnar og samfélaginu öllu til hamingju með framtakið.

Góð aðsókn á sýningar

Góð aðsókn hefur verið á sýningar Safnahússins síðustu mánuði og er fjöldi gesta á fyrri helmingi þessa árs farin að nálgast tímabilið fyrir Covid.  Allnokkuð hefur verið um heimsóknir skólahópa og almennra hópa á grunnsýningarnar tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Einnig eru erlendir ferðamenn farnir að koma í auknum mæli auk innlendu ferðamannanna sem hafa verið duglegir að koma.  Aðsókn á skammtímasýningar hefur líka verið afar góð. Sýning Ingu Stefánsdóttur í Hallsteinssal er nýlokið og fékk hún mikla aðsókn. Núverandi sýning var opnuð s.l. helgi og stendur til 29. júlí. Hún ber heitið Borgarfjarðarblómi og þar má sjá verk Viktors Péturs Hannessonar. Þess má geta að Hallsteinssalur er nú bókaður til ýmiss konar miðlunarverkefna langt fram á árið 2023 sem staðfestir mikið samfélagslegt gildi hans. Ljósmynd: Sjálfboðaliðar frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins komu nýverið til að skoða grunnsýningar safnanna.

Viktor Pétur sýnir í Hallsteinssal

Ný sýning hefur göngu sína í Hallsteinssal laugardaginn 26. júní, en það er fyrsti sýningardagur Viktors Péturs Hannessonar á verkum sem hann vinnur með borgfirskum jurtum og ber sýningin heitið Borgarfjarðarblómi. Opið verður 13 til 17 þennan fyrsta sýningardag. Viktor Pétur hefur unnið að myndlist sinni með hjálp íslenskrar flóru undanfarin 4 ár. Hann ferðast um á ferðavinnustofu sinni, Afleggjaranum, og fylgist grannt með síbreytilegu litaframboði jurtaríkisins, allt frá brons-gulum njólarótum að vori yfir í dimmblá krækiberin að hausti. Oftar en ekki hefur hann átt viðkomu í Borgarfirði og nágrenni á ferðum sínum, og eru verkin á sýningunni unnin í þessum heimsóknum. Viktor Pétur útskrifaðist af myndlistarbraut Listaháskóla Íslands árið 2012, og lýkur námi sínu við Listfræðideild Háskóla Íslands nú í haust.  Sýningin stendur til og með 29. júlí og verður opin kl. 13:00 – 18:00 alla virka daga og 13:00 – 17:00 um helgar. Ekki er um formlega opnun að ræða vegna aðstæðna en stefnt er að því að auglýsa viðveru listamannsins síðar.  Hallsteinssalur er kenndur við Hallstein Sveinsson sem var einn velgjörðarmanna Borgarness, en þangað gaf hann listasafn sitt á sínum tíma. Hann var mikill listvinur og rammaði inn fyrir marga kunnustu listamenn Íslands á 20. öld. Minning hans er…

Aldan með búð í Safnahúsi

Nýlega opnaði Aldan litla verslun í Safnahúsi og hefur það vakið mikla lukku. Verslunin er opin á mánudögum og föstudögum kl. 13:00 til 15:00 og þar eru m.a. seld kerti, pokar, tuskur og skart. Um ÖldunaAldan býður upp á verndaða vinnu, hæfingu og virkniþjálfun fyrir fólk með fötlun. Starfssemin kemur til móts við þarfir einstaklinga fyrir atvinnu og hæfingartengda þjónustu sem stuðlar að aukinni hæfni til starfa og þátttöku í daglegu lífi til jafns við aðra. Aldan rekur dósamóttöku, saumastofu, kertagerð ofl. og hefur tekið að sér pökkun og límmerkingar á alls kyns varningi ásamt öðrum tilfallandi verkefnum.  Sjá má verðskrá Öldunnar með því að smella hér. Aldan fer í sumarfrí 7. júlí – 3. ágúst og mun búðin loka á þeim tíma, en viðtökur hafa verið góðar og er stefnt að því að opna búðina aftur að loknu sumarfríi. Ljósmynd (Sjöfn Hilmarsdóttir): Helga Björg Hannesdóttir frá Öldunni stendur vaktina í versluninni. Í baksýn eru málverk Ingu Stefánsdóttur.

Sumarlesturinn að hefjast

Héraðsbókasafnið efnir að venju til lestrarátaks fyrir börn í sumar á tímabilinu 10. júní – 10. ágúst.  Öll börn á aldrinum 6-12 ára geta skráð sig í sumarlesturinn og tekið bækur að eigin vali til lestrar sér að kostnaðarlausu.  Sérstakir happamiðar fara í pott fyrir hverja lesna bók en auk þess fá allir þátttakendur viðurkenningu  í lok sumars og verðlaunað verður líka fyrir ákveðinn fjölda lesinna bóka. Markmið verkefnisins er sem fyrr að viðhalda lestrarfærninni sem börnin öðlast um veturinn en um leið er lögð áhersla á að börnin lesi það sem þau sjálf langar til, hvort sem um er að ræða bók á sérstöku áhugasviði eða góða sögubók.   Öll börn geta gerst lánþegar.  Æskilegt er að þau yngstu komi í fylgd fullorðinna fyrstu skiptin. Opið verður á bókasafninu alla virka daga í sumar frá 13 -18. Sumarið er góður tími fyrir bóklestur, sama hvernig viðrar!   Ljósmynd: Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður kynnir sumarlesturinn fyrir nemendum í Grunnskólanum í Borgarnesi. Honum til aðstoðar er Sandri Shabansson bókavörður og Sæbjörg Kristmannsdóttir kennari fylgist með.

Samstarf um aðgang að sýningum

Í sumar ætla þrír aðilar á vettvangi safnastarfs og sýninga í Borgarfirði að bjóða upp á sameiginlegan aðgangseyri. Þetta eru Safnahús Borgarfjarðar,  Landbúnaðarsafn Íslands á Hvanneyri og Snorrastofa í Reykholti.  Verður gestum boðið upp á að borga hóflega upphæð fyrir kort sem veitir aðgang að öllum þremur stöðunum með einu korti sem mun gilda í mánuð frá fyrstu heimsókn. Mun kortið kosta 2.000 kr., sem er umtalsverður afsláttur. Með þessu er markmiðið meðal annars að vekja áhuga almennings á þeirri fjölbreyttu menningarflóru sem er að finna í héraðinu og auðvelda fólki aðgang að þeirri miðlun sem þessar menningarstofnanir hafa upp á að bjóða.  Frekari upplýsingar eins og um verð og opnunartíma er að finna inn á heimasíðum samstarfsaðilanna. Vert er að taka fram að frítt er inn á sýningarnar fyrir börn yngri en 14 ára á Landbúnaðarsafninu og þeirra sem eru undir 18 ára hjá Safnahúsinu og Snorrastofu.  Þess skal getið að fleiri söfn/setur/sýningar prýða Borgarfjarðarsvæðið og má þar nefna Byggðasafnið í Görðum,  Háafell Geitfjársetur, Hernámssetur Íslands, Landnámssetur Íslands, Samgöngusafnið og Latabæjarsafnið. Nánari upplýsingar um framboð ferðaþjónustu á Vesturlandi má sjá með því að smella hér. Ljósmynd: aðgangskortið. Hönnun þess var í höndum Rósu Sveinsdóttur og er Borgarbyggð þakkað fyrir stuðning…

Unga fólkið og Þorsteinn frá Hamri

Tónlistarskóli Borgarfjarðar og Safnahús Borgarfjarðar hafa á undanförnum árum unnið saman að því að hvetja ungt fólk til að semja tónlist við borgfirsk ljóð. Verkefnið ber vinnuheitið Að vera skáld og skapa og fer þannig fram að nemendur velja sér texta úr völdu ljóðasafni og semja lög við. Venjulegast flytja þeir svo tónsmíðar sínar á tónleikum, en í ár var sá háttur á að afraksturinn var tekinn upp og settur á Youtube. Skáld ársins 2021 er Þorsteinn frá Hamri. Hér á eftir má sjá nöfn lagahöfundanna og flutninginn á lögunum. Alls eru þetta átta lög og öll nema það síðasta hafa börnin sjálf samið og flytja ýmist ein eða með kennaranum sínum. Fleiri lög voru samin en þessi voru unnin alla leið í upptökur. Eru þetta lög eftir nemendur eftirtalinna kennara:  Birnu Þorsteinsdóttur, Daða Georgsson, Dóru Ernu Ásbjörnsdóttur, Ólaf Flosason, Reyni Hauksson og Sigríði Ástu Olgeirsdóttur.  Hér má sjá tengla á lögin sem hér um ræðir og eru nemendum, skólastjóra og kennurum færðar hamingjuóskir með árangurinn.  Birnu nemandi:Sumir dagar – Birgitta Sólveig Birnu nemandi:Glugginn – Bryndís Hulda Sigríðar Ástu nemandi:Sumir dagar – Hekla Isabel Sigríðar Ástu nemandi:Skógarbörnin – Anna Diljá Daða nemandi:Þessi orð og þú – Sólveig Birna Dóru Ernu…

Landið mitt – Inga Stefánsdóttir

Laugardagurinn 15. maí er fyrsti opnunardagur nýrrar sýningar í Safnahúsi.  Hún ber heitið Landið mitt og er fyrsta sýning Ingu Stefánsdóttur sem þar sýnir olíuverk. Inga er búsett í Lundarreykjadal. Hún er sálfræðingur að mennt og starfi en hefur málað samhliða því um nokkurt skeið. Náttúran er hennar viðfangsefni en verkin byggir hún á ljósmyndum. „Náttúran er síbreytileg og sami staður getur gefið innblástur þegar ljós og litir skarta sínu fegursta. Málun hefur alltaf höfðað til mín og er mín leið til að róa hugann og byggja upp innri frið“ Fyrsti opnunardagur sýningarinnar er laugardagurinn 15. maí og síðasti dagur 17. júní. Um sölusýningu er að ræða. Opnunartími: virka daga 13 til 18 og um helgar 13 til 17.  Stefnt er að viðveru listamannsins á sýningunni allar helgar á opnunartíma. 

Sumaropnun sýninga

Frá og með 1. maí tekur sumaropnun gildi í Safnahúsi og sýningar verða opnar alla daga vikunnar kl. 13.00 til 17.00. Grunnsýningar hússins eru Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna, báðar hannaðar af Snorra Frey Hilmarssyni og sérhannaðar fyrir börn og fjölskyldur. Í Hallsteinssal sýnir listakonan Sigríður Ásgeirsdóttir fram til 7. maí og skömmu síðar tekur við sýning á verkum Ingu Stefánsdóttur. Fjölbreyttar sýningar eru framundan í Hallsteinssal og má sjá nánar um verkefni hússins með því að smella hér. Ljósmynd (GJ): Nemendur Grunnskóla Borgarfjarðar á Hvanneyri skoða fugla í Safnahúsi fyrir nokkru.

Viðvera listamanns

Sýning Sigríðar Ásgeirsdóttur (Systu) stendur til 7. maí n.k. Listakonan hefur verið ötul í viðveru á sýningunni og verður þar t.d. eftir hádegið í dag föstudaginn 23. apríl og n.k. mánudag 26. apríl.  Verk Systu eru litsterk og björt og falla vel að vorinu, þegar dimma skammdegisins er að baki.  Sýningin er opin kl. 13 til 18 virka daga og frá 1. maí einnig um helgar 13-17.