Í tilefni af útkomu bókarinnar Sögur úr Síðunni eftir hinn landsfræga rithöfund Böðvar Guðmundsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu efnir Safnahús Borgarfjarðar til Kvöldvöku þann 4. nóvember kl. 20:30. Þar mun Böðvar lesa upp úr bókinni og spjalla við gesti. Jafnframt mun ungt fólk úr Hvítársíðu flytja fjölbreytt tónlistaratriði. Aðgangur er ókeypis. Eru Borgfirðingar hvattir til að fjölmenna á þennan menningarviðburð.
Undir tenglinum ,,Bókin" hér til hægri má fræðast meira um nýju bókina og rithöfundarferil Böðvars.
Byggðasafni Borgarfjarðar bárust í dag nokkrir lögreglubúningar frá fyrrverandi yfirlögregluþjóni í Borgarnesi. Búningarnir eru mis gamlir, á myndinni hér sjást tveir í eldra lagi. Sá til vinstri er vetrarfrakki sem með fylgir loðhúfa. Glæsileg gjöf sem á vel heima á safninu.
Undir tengli bókasafnsins hér til vinstri á síðunni má nú finna upplýsingasíðu um Pálssafn, sem er bókasafn Páls Jónssonar frá Örnólfsdal í Þverárhlíð. Bókasafn sitt alls um 6000 bækur, margar afar fágætar, gaf Páll Héraðsbókasafni Borgarfjarðar og var safnið opnað með viðhöfn í júní 1989. Kíkið endilega við og fræðist um þetta merkilega safn. Til stendur að bæta efni við síðar. Smellið hér til að komast beint inn á síðuna.
Byggðasafni Borgarfjarðar voru í vikunni afhent áhöld til innbindinga á bókum. Þau höfðu verið í eigu Arinbjarnar Magnússonar málarameistara og bókbindara. Börn hans gáfu munina.
10 nemendur Grunnskólans í Borgarnesi komu í heimsókn í Safnahúsið síðastliðinn fimmtudag, ásamt kennara sínum Guðmundu Ólöfu Jónasdóttur. Þessar heimsóknir verða fastir liðir í kennslu Guðmundu í vetur og kemur nýr hópur í heimsókn í hverjum mánuði. Þau skoðuðu litla sýningu á steinum og dýrum Náttúrugripasafnsins og leystu verkefni með. Við þökkum fyrir heimsóknina og hlökkum til að fá næsta hóp.
Laugardaginn 25. ágúst var opnuð listasýning í sal Listasafns Borgarness. Sýnd eru leirverk eftir mæðgurnar Ólöfu Erlu Bjarnadóttur og Kristínu Erlu Sigurðardóttur. Sýningin er styrkt af Menningarsjóði Vesturlands og er fyrsta samsýning þeirra mæðgna og tókst vel til, um 50 manns komu að líta á verkin þennan dag.
Byggðasafni Borgarfjarðar barst góð gjöf í júlí sl. þegar Gunnar Bernburg gaf orgel úr sinni eigu sem að öllum líkindum er upprunalega orgelið frá Borg á Mýrum. Kirkjan á Borg var byggð árið 1881 og strax árið 1887 var þetta stóra harmonium orgel keypt. Eitthvað hafa menn misreiknað stærð kirkjunnar eða orgelsins því það komst ekki fyrir á loftinu og þurfti að breyta loftinu. Orgelið var svo selt, sennilega stærðarinnar vegna, og endaði hjá forfeðrum Gunnars.
Á morgun, miðvikudaginn 25. júlí kl. 14:00 verður svakamálaleikritið Mæja Spæja eftir Herdísi Egilsdóttur frumflutt víða í bókasöfnum landsins í samvinnu Útvarpsleikhússins og bókasafnanna. Leikritið er ætlað börnum og unglingum. Um er að ræða fyrstu tvo þætti verksins en leikritið sem er í níu þáttum verður flutt í heild sinni á Rás eitt í byrjun ágúst alla virka daga nema föstudaga. Af þessu tilefni verður einnig efnt til litasamkeppni og Mæju spæju blöðrur verða á staðnum. Krakkar, mætum öll á morgun og höldum gleðilegan Mæju spæju dag á bókasafninu!
Sigrún Elíasdóttir hefur verið ráðin í starf munavarðar við Safnahús Borgarfjarðar og hefur hún störf 1. ágúst. Sigrún er sagnfræðingur að mennt og stundar meistaranám í sagnfræði við Háskóla Íslands. Hún hefur áður unnið að ýmsum verkefnum fyrir Safnahús.
Í tengslum við Borgfirðingahátíð verður haldin Örlistahátíð í Safnahúsinu næstkomandi föstudag kl:17:00. Dagskráin er svohljóðandi:
Opnun ljósmyndarsýningar Ragheiðar Stefánsdóttur á efri hæð Safnahúss. Sýningin stendur til júlíloka.
Bakkabandið leikur og syngur nokkur lög.
Vinningshafar í smásagnakeppni
Kaffi og konfekt að dagskrá lokinni.