Næstkomandi laugardag kl. 16.00 opnar ungur Borgfirðingur sýningu í sal Listasafns í Safnahúsi. Þetta er Bjarni Helgason sem er grafískur hönnuður með meistaragráðu  í „Media Arts“  frá Kent Institute of Art & Design í Bretlandi.

Sigríður Beinteinsdóttir frá Grafardal í Hvalfjarðarstrandarhreppi (nú Hvalfjarðarsveit) lést í vikunni, á 96. aldursári.  Sigríður var fjórða í röð átta systkina sem öll eru nú látin.  Systkinin öll voru skáldmælt og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra. Í bókinni Raddir dalsins má finna kveðskap þeirra allra. 

Ársskýrsla Safnahúss fyrir árið 2007 liggur nú fyrir og hefur verið samþykkt af menningarnefnd Borgarbyggðar, sem jafnframt er stjórn Safnahúss.  Í skýrslunni er kveðið á um helstu verkefni Safnahúss á árinu sem leið.  Sjá má skýrsluna með því að smella hér.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

24. des. aðfangadagur: Lokað

25.des. jóladagur: Lokað

26. des.annar í jólum: Lokað

27.des. opið frá 13-18 (ekki til kl. 20) 31.des. gamlársdagur: Lokað

1.jan. nýársdagur: Lokað

 

Að öðru leyti er opnunartími hefðbundinn.

 

Gleðileg jól og farsæld nýtt ár, með þökk fyrir það liðna.

 

Kveðja, starfsfólk Safnahúss Borgarfjarðar

 

 

 

 

                                                  

Salur listasafns var þéttskipaður á Tröllavöku í Safnahúsi þann 6. desember.  Þá kynntu Bjarni Valtýr Guðjónsson og Steinar Berg nýútkomnar bækur sínar og Birgir Þórisson spilaði á píanó og söng Grýlukvæði við undirleik Jónínu Ernu Arnardóttur.  Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Elín Elísabet Einarsdóttir tók á þessum skemmtilega viðburði.

 

 

 

Fimmtudaginn 6.desember kl.17:00 verður haldin Tröllavaka í Safnahúsi Borgarfjarðar í tilefni af bókaútgáfu tveggja borgfirskra höfunda á bókum fyrir börn á öllum aldri sem fjalla um ævintýraheima.

 

 

 

 

Bjarni Valtýr Guðjónsson les upp úr bók sinni Hólaborg

og Steinar Berg les úr bók sinni Tryggðatröll.

 

Auk þeirra kemur Birgir Þórisson fram. Léttar veitingar í boði og aðgangur ókeypis. 

 

 

 

 

Safnahúsið býður velkomin börn, fullorðna og tröll til að eiga saman góða stund í skammdeginu.

 


Það var líf og fjör í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi s.l. föstudag þegar þangað komu börn og fullorðnir víða að úr sveitarfélaginu vegna ljóðasýningar nemenda fimmtu bekkja grunnskóla Borgarbyggðar. Á veggjum voru frumsamin ljóð nemenda úr Varmalandsskóla, Grunnskóla Borgarfjarðar, Laugagerðisskóla og Grunnskólanum í Borgarnesi. Ljóðin voru myndskreytt og sérstaka athygli vöktu ljóð krakka úr Varmalandsskóla, en kvæðin voru falin á bak við stóra tungu - íslenska tungu. Gestir urðu því að lyfta tungunnu til að geta séð skáldskapinn.

Við þetta tækifæri var farið í  leiki og keppt í spurningakeppni og limbói við góðar undirtektir.

Samhliða ljóðasýningunni var opnuð lítil sýning á verkum Halldóru B. Björnsson rithöfundar frá Grafardal en hún hefði orðið hundrað ára á þessu ári.  Af því tilefni las Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður upp kafla úr bókinni ,,Eitt er það land" eftir Halldóru, en sú bók geymir bernskuminningar hennar. Halldóra var ein átta systkina frá Grafardal. Öll ortu þau ljóð, og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra.  Halldóra skrifaði einnig nýstárlegar smásögur en hvað þekktust er hún kannski fyrir þýðingu sína á Bjólfskviðu sem kom út að henni látinni 1983. Halldóra var því sannarlega fjölbreyttur höfundur.

Báðar sýningarnar fá að standa fram til jóla og eru gestir boðnir hjartanlega velkomnir í Safnahús til að njóta þeirra í kyrrð aðventunnar framundan.

Ljósmyndir með frétt: Elín Elísabet Einarsdóttir


 

Á degi íslenskrar tungu verður ljóðasýning nemenda fimmtu bekkja opnuð klukkan 16:30 í Safnahúsi Borgarfjarðar. Um er að ræða frumsamin ljóð og myndskreytingar nemenda í grunnskólum Borgarbyggðar og þar sem um fámennari skóla er að ræða taka einnig nærliggjandi bekkir þátt.

 

Jafnframt og af sama tilefni verður þennan dag opnuð lítil sýning á verkum Halldóru B. Björnsson rithöfundar frá Grafardal en hún hefði orðið hundrað ára á þessu ári. Halldóra var í hópi átta systkina frá Grafardal sem öll ortu ljóð, og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra.  Halldóra skrifaði einnig nýstárlegar smásögur en hvað þekktust er hún kannski fyrir þýðingu sína á Bjólfskviðu sem kom út að henni látinni 1983. 

 

Sýningarnar verða báðar uppi fram til jóla.

 

 

 

Norræni skjaladagurinn  er að þessu sinni helgaður skjölum sem varpa ljósi á sögu einstaklinga. Af því tilefni verður opið í Safnahúsi frá kl. 14.00-17.00 en þar verður uppi sýning á skjölum og myndum tengdum persónuheimildum. Vefsíða hefur verið opnuð í tilefni dagsins www.skjaladagur.is.

 

Ljósmynd úr Héraðsskjalasafni. Myndin tekin á Hraunsnefi 1928.

Borgfirðingar tóku vel á móti Böðvari Guðmundssyni rithöfundi í Safnahúsi í gærkvöldi þegar hann las upp úr nýrri bók sinni Sögur úr Síðunni. Fullt var út úr dyrum og afar góðar undirtektir áheyrenda. Við sama tækifæri komu fram ungir tónlistarmenn úr Hvítársíðu, heimasveit Böðvars, þær Ásta og Unnur Þorsteinsdætur sem léku á fiðlur, Fanney Guðjónsdóttir sem lék á píanó og Þorgerður Ólafsdóttir, sem söng við undirleik Jónínu Ernu Arnardóttur. Myndir eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli voru á veggjum í salnum og verk eftir Böðvar voru til sýnis í anddyri.

 

Böðvar Guðmundsson fæddist árið 1939 á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Eftir hann liggja ljóðabækur, leikrit og skáldsögur, en auk þess hefur hann þýtt fjölda erlendra verka fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Skáldsögur hans um ferðir Íslendinga til Vesturheims hafa vakið mikla athygli og hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari. Þær voru síðar færðar í sviðsbúning og settar upp í Borgarleikhúsinu leikárið 2004 - 2005. Böðvar hefur einnig samið fjöldann allan af söngtextum. Meðal þýðinga hans má finna verk eftir Heinrich Böll, Roald Dahl, Michael Ende og Astrid Lindgren. Böðvar hefur nú um langt skeið verið búsettur í Danmörku.  Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Elín Elísabet Einarsdóttir tók.