Á degi íslenskrar tungu verður ljóðasýning nemenda fimmtu bekkja opnuð klukkan 16:30 í Safnahúsi Borgarfjarðar. Um er að ræða frumsamin ljóð og myndskreytingar nemenda í grunnskólum Borgarbyggðar og þar sem um fámennari skóla er að ræða taka einnig nærliggjandi bekkir þátt.

 

Jafnframt og af sama tilefni verður þennan dag opnuð lítil sýning á verkum Halldóru B. Björnsson rithöfundar frá Grafardal en hún hefði orðið hundrað ára á þessu ári. Halldóra var í hópi átta systkina frá Grafardal sem öll ortu ljóð, og út hafa komið ljóðabækur eftir sex þeirra.  Halldóra skrifaði einnig nýstárlegar smásögur en hvað þekktust er hún kannski fyrir þýðingu sína á Bjólfskviðu sem kom út að henni látinni 1983. 

 

Sýningarnar verða báðar uppi fram til jóla.

 

 

 

Norræni skjaladagurinn  er að þessu sinni helgaður skjölum sem varpa ljósi á sögu einstaklinga. Af því tilefni verður opið í Safnahúsi frá kl. 14.00-17.00 en þar verður uppi sýning á skjölum og myndum tengdum persónuheimildum. Vefsíða hefur verið opnuð í tilefni dagsins www.skjaladagur.is.

 

Ljósmynd úr Héraðsskjalasafni. Myndin tekin á Hraunsnefi 1928.

Borgfirðingar tóku vel á móti Böðvari Guðmundssyni rithöfundi í Safnahúsi í gærkvöldi þegar hann las upp úr nýrri bók sinni Sögur úr Síðunni. Fullt var út úr dyrum og afar góðar undirtektir áheyrenda. Við sama tækifæri komu fram ungir tónlistarmenn úr Hvítársíðu, heimasveit Böðvars, þær Ásta og Unnur Þorsteinsdætur sem léku á fiðlur, Fanney Guðjónsdóttir sem lék á píanó og Þorgerður Ólafsdóttir, sem söng við undirleik Jónínu Ernu Arnardóttur. Myndir eftir Pál Guðmundsson frá Húsafelli voru á veggjum í salnum og verk eftir Böðvar voru til sýnis í anddyri.

 

Böðvar Guðmundsson fæddist árið 1939 á Kirkjubóli í Hvítársíðu. Eftir hann liggja ljóðabækur, leikrit og skáldsögur, en auk þess hefur hann þýtt fjölda erlendra verka fyrir börn og fullorðna. Fyrsta bók hans, ljóðabókin Austan Elivoga, kom út árið 1964. Skáldsögur hans um ferðir Íslendinga til Vesturheims hafa vakið mikla athygli og hlaut Böðvar Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir þá síðari. Þær voru síðar færðar í sviðsbúning og settar upp í Borgarleikhúsinu leikárið 2004 - 2005. Böðvar hefur einnig samið fjöldann allan af söngtextum. Meðal þýðinga hans má finna verk eftir Heinrich Böll, Roald Dahl, Michael Ende og Astrid Lindgren. Böðvar hefur nú um langt skeið verið búsettur í Danmörku.  Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir sem Elín Elísabet Einarsdóttir tók.

 

 

 

 

Í tilefni af útkomu bókarinnar Sögur úr Síðunni eftir hinn landsfræga rithöfund Böðvar Guðmundsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu efnir Safnahús Borgarfjarðar til Kvöldvöku þann 4. nóvember kl. 20:30.  Þar mun Böðvar lesa upp úr bókinni og spjalla við gesti.  Jafnframt mun ungt fólk úr Hvítársíðu flytja fjölbreytt tónlistaratriði.  Aðgangur er ókeypis.  Eru Borgfirðingar hvattir til að fjölmenna á þennan menningarviðburð.

 

Undir tenglinum ,,Bókin" hér til hægri má fræðast meira um nýju bókina og rithöfundarferil Böðvars.

                                                  Byggðasafni Borgarfjarðar bárust í dag nokkrir lögreglubúningar frá fyrrverandi yfirlögregluþjóni í Borgarnesi. Búningarnir eru mis gamlir, á myndinni hér sjást tveir í eldra lagi. Sá til vinstri er vetrarfrakki sem með fylgir loðhúfa. Glæsileg gjöf sem á vel heima á safninu.

 Undir tengli bókasafnsins hér til vinstri á síðunni má nú finna upplýsingasíðu um Pálssafn, sem er bókasafn Páls Jónssonar frá Örnólfsdal í Þverárhlíð.  Bókasafn sitt alls um 6000 bækur, margar afar fágætar,  gaf Páll Héraðsbókasafni Borgarfjarðar og var safnið opnað með viðhöfn í júní 1989.  Kíkið endilega við og fræðist um þetta merkilega safn.  Til stendur að bæta efni við síðar.  Smellið hér til að komast beint inn á síðuna.

Byggðasafni Borgarfjarðar voru í vikunni afhent áhöld til innbindinga á bókum. Þau höfðu verið í eigu Arinbjarnar Magnússonar málarameistara og bókbindara. Börn hans gáfu munina.

                                                  10 nemendur Grunnskólans í Borgarnesi komu í heimsókn í Safnahúsið síðastliðinn fimmtudag, ásamt kennara sínum Guðmundu Ólöfu Jónasdóttur. Þessar heimsóknir verða fastir liðir í kennslu Guðmundu í vetur og kemur nýr hópur í heimsókn í hverjum mánuði. Þau skoðuðu litla sýningu á steinum og dýrum Náttúrugripasafnsins og leystu verkefni með. Við þökkum fyrir heimsóknina og hlökkum til að fá næsta hóp.

 Laugardaginn 25. ágúst var opnuð listasýning í sal Listasafns Borgarness. Sýnd eru leirverk eftir mæðgurnar Ólöfu Erlu Bjarnadóttur og Kristínu Erlu Sigurðardóttur. Sýningin er styrkt af Menningarsjóði Vesturlands og er fyrsta samsýning þeirra mæðgna og tókst vel til, um 50 manns komu að líta á verkin þennan dag.

Byggðasafni Borgarfjarðar barst góð gjöf í júlí sl. þegar Gunnar Bernburg gaf orgel úr sinni eigu sem að öllum líkindum er upprunalega orgelið frá Borg á Mýrum. Kirkjan á Borg var byggð árið 1881 og strax árið 1887 var þetta stóra harmonium orgel keypt. Eitthvað hafa menn misreiknað stærð kirkjunnar eða orgelsins því það komst ekki fyrir á loftinu og þurfti að breyta loftinu. Orgelið var svo selt, sennilega stærðarinnar vegna, og endaði hjá forfeðrum Gunnars.