í sumar hefur Safnahús Borgarfjarðar bryddað upp á þeirri nýjung í starfi sínu að bjóða börnum á aldrinum 6-12 uppá verkefnið Sumarlestur sem er lestrarhvetjandi verkefni og ætlað að þjálfa færni barnanna í lestri. Nú er komið að Uppskeruhátíð sumarlesturs 2008 en hún verður haldin miðvikudaginn 20. ágúst kl.11. Boðið verður uppá veitingar, farið verður í leiki og tilkynnt hverjir hljóta vinning í happadrætti sumarlesturs. Ráðgert er að hátíðin standi yfir í klukkustund. Allir eru að sjálfsögðu velkomnir
Um 400 manns komu á ljósmyndasýningu Birtu Ránar Björgvinsdóttur, sem staðið hefur yfir í Safnahúsi undanfarnar vikur. Þetta er sérstaklega góð aðsókn og er mikil hvatning fyrir þennan unga listamann, en Birta er 16 ára gömul.
Starfsfólki í Safnahúsi er heiður af því að hafa fengið Birtu til að sýna myndirnar sínar í sumar og óskar henni til hamingju með þennan góða árangur.
Yfir 200 manns sóttu sýninguna "Börn í 100 ár" á sunnudaginn síðast liðinn þegar ókeypis var á safnið í tilefni af Safnadeginum. Boðið var upp á kaffi, rúsínur og kandís að gömlum sið. Þá sóttu hátt í 100 manns ljósmyndasýningu Birtu Ránar á efri hæðinni og var listamaðurinn sjálf á svæðinu og leiðsagði gestum. Það er gleðilegt að Íslendingar nýti sér þennan dag til að skoða það sem söfn landsins hafa upp á að bjóða.
Á íslenska safnadaginn, sunnudaginn 13. júlí, verður ókeypis aðgangur að sýningunni Börn í 100 ár og leiðsögn um sýninguna á heila tímanum.
Afar góð aðsókn hefur verið að þessari óvenjulegu sýningu, en hún er opin alla daga frá 13-18. Sjá kort af Borgarnesi hér.
Nánari upplýsingar fást í Safnahúsi: 430 7200 eða 430 7207 (sími á sýningarvakt).