Vegna óviðráðanlegra orsaka verður sýningin Börn í 100 ár ekki opin sunnudaginn 25.maí eins og auglýst var. Sýningin er enn í vinnslu og opnar fyrir almenning laugardaginn 7.júní.

 

Biðjumst velvirðingar ef þetta veldur einhverjum ónæði.

Þessar ungu stúlkur voru í hópi barna úr Lindaskóla í Kópavogi  sem var á ferð um Borgarfjörð og heimsóttu m.a. Safnahúsið.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Nokkrir nemendur í myndmennt úr Grunnskólanum í Borgarnesi komu ásamt kennara sínum til að skoða málverkasýningu Guðmundar Sigurðssonar fyrrverandi skólastjóra. Sýningunni, sem ber nafnið „Finndu mig í fjöru“ lýkur 4. júní.

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Guðmundur Sigurðsson opnar sína 13.einkasýningu í Safnahúsi Borgarfjarðar þann 17.maí kl. 14:00. Allir velkomnir

Sýningin verður opin alla virka daga frá 13:00-18:00 og þriðjudaga og fimmtudaga til 20:00.  Sýningin stendur  yfir til 4. júní. 

 

Michail Sikorski Konsúll við hlið bókagjafarinnar.
Það er óhætt að segja að Héraðsbókasafn Borgarfjarðar hafi fengið óvænta og gleðilega heimsókn síðdegis í dag. Á ferðinni var Michal Sikorski ræðismaður Póllands á Íslandi.  Færði hann bókasafninu að gjöf bækur, hljóðbækur, tímarit og Dvd-diska, ýmist á pólsku eða með efni tengdu landinu.  Með gjöfinni vill pólska ræðismannsskrifstofan leggja sitt að mörkum til þess að pólskir íbúar byggðarlagsins og aðrir áhugasamir finni efni við sitt hæfi á heimaslóð. Fyrr í dag kom Michal við í Grunnskólanum í Borgarnesi og færði skólanum orðabækur á pólsku að gjöf og átti einnig fund með löndum sínum. 

Birt með góðfúslegu leyfi höfundar.

 

 

Ástarljóð

 

Mig langar að semja ástarljóð eitt

sem að eilífu lifir í hjarta

og ekki freistar mín annað neitt

en að yrkja til landsins míns bjarta.

 

Það lýsir með regnboga leiðan dag

svo ljómi af himinsins boga.

Aldrei mun hverfa hið eilífa lag

sem Íslandsins tendraði loga.

 

Þú, Ísafold, skapaðir eld minn og sál

og allt sem ég dái og er.

Þú veittir mér ljóð og þú veittir mér mál

og visku sem aldregi þver.

 

Ó, Frón, þú ert allt sem fallegast er,

um fjöll þín mig ávallt mun dreyma. 

Minn anda og dug ég eftirlæt þér.

Ég ann þér, því hér á ég heima. 

 

 

 

Vorkyrrð

 

hvítur himinn kyrrðar

hvíslar haf

fjallsins tvífari

fyllir hug

rofin aðeins ró

rjómahvítum fjarska

líf í báru blá

bærir ljós

 

 

 

 

Elín Elísabet með verðlaun sín.

Elín Elísabet Einarsdóttir nemandi í 10.bekk í Grunnskólanum í Borgarnesi bar sigur úr býtum í flokki 13-16 ára í Ljóðasamkeppninni Ljóð unga fólksins sem haldin er á landsvísu annað hvert ár. Það er Þöll, samstarfshópur um barnamenningu á bókasöfnum, sem stendur að keppninni sem nú var haldin í sjötta sinn, að þessu sinni í umsjá nokkurra bókasafna á Norðurlandi.  Sigur Elínar, sem skilaði sínum ljóðum á Héraðsbókasafn Borgarfjarðar, er einkar glæsilegur; en tvö ljóða hennar þóttu það jöfn að gæðum að dómnefnd sá sér ekki fært að velja á milli þeirra. 

Sumardagurinn fyrsti er hátíðisdagur í hugum flestra og ekki síst barnanna. Safnahús Borgarfjarðar helgar börnum næstu sýningu sína sem opnar í maí. Hún nefnist „Börn í hundrað ár“ og verður þar fjallað um börn og umhverfi þeirra á myndrænan og nýstálegan hátt. Viljum við hvetja sem flesta að koma og upplifa sýninguna sem verður opin frá kl. 13-18 alla daga í sumar.

Ljósmyndasafn Akraness og Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar hafa gert með sér samstarfssamning um gagnkvæm afnot af ljósmyndum vegna verkefna vorið 2008. Um er að ræða um gagnkvæm gjaldfrjáls afnot safnanna af ljósmyndum vegna sýninganna  „Hernámið“ sem verður á Akranesi  og „Börn í 100 ár“ sem verður í Borgarnesi.

 

Það er ekki úr vegi að birta svolítið meira af kveðskap Þorsteins frá Hamri í tilefni af áðurnefndum tímamótum.  Þá má einnig minna á kynninguna ,, Bíðið meðan hann syngur" í Safnahúsinu sem mun standa næstu vikurnar. Ljóðið sem nú verður birt er minningarljóð um annað borgfirskt skáld, Guðmund Böðvarsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu.  Þetta ljóð Þorsteins birtist í ljóðabókinni Fiðrið úr sæng daladrottningar sem út kom 1977 þremur árum eftir andlát Guðmundar, en er hér tekið úr ritsafni Þorsteins sem út kom 1998.

Í tilefni af sjötugsafmæli Þorsteins frá Hamri birtist hér eitt af hans fallegustu ljóðum, ljóðið Kveðja.  Það er að finna í fyrstu ljóðabók hans Í svörtum kufli en er hér tekið úr ritsafni Þorsteins útgefnu árið 1998.

 

Kveðja

 

Haustkul af norðri brottu ber

blómkrónu dána. Lát það hvísla

örlagaspám í eyru þér.

Er skarður máni í skýjum fer

er skjól okkar þessi hrísla.

 

Ég er á leið til ljóðvakans

ljósu stranda. Mér dísir sungu:

Á vetrarkvöldi þú kemst til lands;

langsótt er hafið, en leikur hans

er lífsgjafi þinnar tungu.

 

Barrkrónan skelfur særð og sjúk

er svalinn slær hana fastar og tíðar.

Stormurinn ber þér frost og fjúk.

En mjöllin sem kemur köld og mjúk

ber kvæði mitt til þín síðar.