Næstkomandi laugardag kl. 13.00 verður opnuð myndlistarsýning í Safnahúsi, þar sem sýndar verða myndir eftir mæðgurnar Björk Jóhannsdóttur og Jóhönnu Stefánsdóttur. Björk sýnir ljóðamyndir, vatnslitamyndir og akrýlmyndir, en Jóhanna klippimyndir byggðar á gyðjufræðum hinna ýmsu trúarbragða.

 

 

 

Sagnakvöld Safnahúss var haldið í gærkvöldi og voru þrjú atriði á dagskrá. Lesið var upp úr tveimur bókum, Töfrahöllinni eftir Böðvar Guðmundsson og Urðarmána eftir Ólaf Steinþórsson. Því næst var vísnaspjall á dagskrá í umsjón Dagbjarts Dagbjartssonar, en honum til fulltingis voru þau Helgi Björnsson og Þórdís Sigurbjörnsdóttir. Tókst kvöldið í alla staði vel og um 100 manns mættu til að njóta bókmenntanna í skammdeginu. Að lokinni dagskrá var boðið upp á kaffi og kleinur auk þess sem höfundarnir tveir árituðu bækur sínar. 

Sagnakvöld Safnahúss verður haldið þriðjudaginn 20. nóvember, þar verður lesið upp úr tveimur nýjum bókum og spjallað um vísur.

 

Tveir höfundar lesa þar úr bókum sínum, þeir Ólafur Steinþórsson sem les upp úr bók sinni Urðarmána og Böðvar Guðmundsson sem les úr Töfrahöllinni, nýrri skáldsögu sinni. Einnig verða bækurnar tvær til sölu á sérstöku útgáfutilboði á staðnum og höfundar tilbúnir til að árita. Á dagskránni er einnig óformlegt vísnaspjall þar sem þrír af þekktustu hagyrðingum Borgarfjarðar koma við sögu. 

Ríflega 100 manns mættu á tónleika og opnun ljóðasýningar barna í Safnahúsi í gær, en hátíðin var haldin sameiginlega af Tónlistarskóla Borgarfjarðar og Safnahúsi. Nemendur Tónlistarskólans fluttu frumsamið efni byggt á gömlum þulum eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur og opnuð var sýning á ljóðum nemenda úr grunnskólum á svæðinu.  Stóðu allir krakkarnir sig með mikilli prýði og tónlistarflutningurinn var vel af hendi leystur og vakti mikla lukku. Sama er að segja um ljóðin, en eftirtaldir grunnskólar tóku þátt í ljóðasýningunni í ár og er þar að finna ljóð 10-11 ára krakka sem hafa samið þau undir handleiðslu kennara sinna:

Þriðjudaginn þann 13. nóvember n.k. verða haldnir nokkuð sérstæðir tónleikar í Safnahúsi. Um er að ræða samstarf við Tónlistarskóla Borgarfjarðar, en stofnanirnar tvær hafa tekið saman höndum í að vekja athygli á gamla þuluforminu og hvetja til sköpunar á grundvelli þess. Um leið er skáldkonunnar Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Sveinatungu (sem skáldkona kenndi Guðrún sig við Brautarholt) minnst, en á þessu ári eru 120 ár frá fæðingardegi hennar. Við sama tækifæri verður opnuð sýning á ljóðum barna í 5. bekkjum grunnskólanna á svæðinu og er það í áttunda sinn sem það er gert.

Í dag fagnar stórleikarinn, söngvarinn og hestamaðurinn Jón Sigurbjörnsson níræðisafmæli sínu. Jón fæddist þann 1.nóvember 1922, yngri sonur hjónanna Sigurbjörns Halldórssonar og Ingunnar Einarsdóttur. Fjölskyldan bjó um tíma á Ölvaldsstöðum og á Beigalda í Borgarhreppi en flutti í Borgarnes árið 1926. Jón vann við ýmis störf sem ungur maður í Borgarnesi m.a. við bifreiðaakstur en lagði seinna stund á leiklistarnám í Reykjavík og síðar í Bandaríkjunum. Þá stundaði hann einnig söngnám á Ítalíu um tíma. Skemmst er frá því að segja að Jón hefur verið einn ástsælasti leikari þjóðarinnar en ferill hans sem atvinnuleikara í leikhúsum spannar heil 43 ár. Mörg síðustu ár hefur Jón búið í Biskupstungum og stundað þar hestamennsku af miklum myndarskap.

Collingwoodmyndin okkar góða af Guðrúnu litlu á Gilsbakka, máluð 1897, er nú í New York. Hún var lánuð þangað með góðfúslegu samþykki gefenda á sýningu Þjóðminjasafns Íslands og Einars Fals Ingólfssonar í Scandinavia House sem standa mun fram í janúar. Í sýningunni mynda ljósmyndir Einar Fals skemmtilega sjónræna upplifun úr nútímanum þar sem þeim er stillt upp sem staðarlegri hliðstæðu við vatnslitamyndir meistarans frá lokum 19. aldar. Við hlið myndarinnar af Guðrúnu er ljósmynd af Steinunni Ólafsdóttur langömmubarni hennar á Gilsbakka. Sýningin hefur vakið athygli og fengið jákvæða umfjöllun. Sjá með því að smella hér. 

 

 

Í Borgarfirði hafa löngum búið afar góðir hagyrðingar og gera enn. Einn þeirra er Dagbjartur Dagbjartsson, sem fæddist 16. sept. 1942 og fagnar því 70 ára afmæli sínu. Af því tilefni og almennt hagyrðingum héraðsins til heiðurs hefur nokkrum vísum hans verið stillt upp í anddyri Safnahúss þar sem þær verða í nokkrar vikur.  Ennfremur fá þeir gestir Safnahúss sem þess óska gefins sérhannað bókamerki hússins með vísu eftir Dagbjart á næstu dögum á meðan birgðir endast.

Ríflega 100 manns mættu í Safnahús í gær þar sem Egils Pálssonar og Jóhönnu konu hans var minnst. Meðal þeirra sem mættu voru ellefu af börnum þeirra hjóna og hér má sjá þau á mynd. Frá vinstri:  Eygló, Ólafur, Sigrún, Hilmar, Rannveig, Kristinn, Jenný, Guðmundur, Páll, Hans og Sólrún.  Þrjú systkini komust ekki, það voru þau Sóley, Þorbergur og Sonja.

 

Meðal gesta voru fjölskyldur þeirra systkina og margt fólk úr héraði sem þekkti Egil. Á sýningu um hann sem opnuð var í gær má sjá mikið af ljósmyndum en einnig muni og fróðleik um líf Egils og umhverfi það sem hann bjó í mestalla ævi.  Þess má geta að Kaupfélag Borgfirðinga styrkti uppsetningu sýningarinnar, en þar átti Egill mestalla sína starfsævi.

 

Safnahús hefur það hlutverk að varðveita og miðla sögu Borgarfjarðarhéraðs. Þessi mikla og góða mæting í gær er verðmætur stuðningur við það verkefni.

Eins og fram hefur komið hér á síðunni verður hátíðardagskrá í Safnahúsi á morgun, fimmtudag, kl. 17.30. Tilefnið er að 100 ár eru frá fæðingu Egils Pálssonar (1912-1992) verkamanns og bónda sem bjó megnið af sinni ævi í Borgarnesi og átti öll sín búskaparár þar á mótunarárum bæjarins.