Í Borgarfirði hafa löngum búið afar góðir hagyrðingar og gera enn. Einn þeirra er Dagbjartur Dagbjartsson, sem fæddist 16. sept. 1942 og fagnar því 70 ára afmæli sínu. Af því tilefni og almennt hagyrðingum héraðsins til heiðurs hefur nokkrum vísum hans verið stillt upp í anddyri Safnahúss þar sem þær verða í nokkrar vikur.  Ennfremur fá þeir gestir Safnahúss sem þess óska gefins sérhannað bókamerki hússins með vísu eftir Dagbjart á næstu dögum á meðan birgðir endast.

Foreldrar Dagbjartar voru Dagbjartur Gíslason og Sigríður Árnadóttir. Fjölskylda hans bjó á Refsstöðum í Hálsasveit en fluttist að Stóru Býlu í Innri-Akraneshreppi 1945 og svo á Akranes 1947. Dagbjartur nam búfræði að Hvanneyri og vann að ýmsum störfum, m.a. við tamningar. Hann hóf nám í húsasmíði 1969 og starfaði við þá iðn um skeið. Hann fluttist aftur að Refsstöðum árið 1979 ásamt þáverandi konu sinni Jennýju Franklínsdóttur. Þau eignuðust soninn Sigurð Árna 1978 en skildu árið 1996. Dagbjartur var bóndi á Refsstöðum til ársins 2006 en hefur síðustu ár búið á Hrísum í Flókadal ásamt sambýliskonu sinni Þórdísi Sigurbjörnsdóttur sem einnig setur saman vísur af mikilli snilld.

 

Dagbjartur er einn af bestu hagyrðingum Borgarfjarðar. Hann hefur lengi haldið úti vísnaþáttum, fyrst í Borgfirðingi, síðar Eiðfaxa og vísnaþættir hans í Skessuhorni njóta mikilla vinsælda. Hann hefur hins vegar ekki gert mikið af því að setja fram eigin efni en heimilar Safnahúsi að gera það hér. Dagbjartur hafði einnig umsjón með útgáfu bókarinnar Raddir úr Borgarfirði 2001.

 

Góð vísa þarf að fylgja flóknum bragreglum, búa yfir merkingu og ekki sakar eilítil tvíræðni heldur. Hún þarf líka að liggja vel á tungu.

Í kveðskap Dagbjarts Dagbjartssonar er allt þetta að finna.

 

 

Ljósmynd með frétt: Magnús Magnússon.

Categories:

Tags:

Comments are closed