Í dag fagnar stórleikarinn, söngvarinn og hestamaðurinn Jón Sigurbjörnsson níræðisafmæli sínu. Jón fæddist þann 1.nóvember 1922, yngri sonur hjónanna Sigurbjörns Halldórssonar og Ingunnar Einarsdóttur. Fjölskyldan bjó um tíma á Ölvaldsstöðum og á Beigalda í Borgarhreppi en flutti í Borgarnes árið 1926. Jón vann við ýmis störf sem ungur maður í Borgarnesi m.a. við bifreiðaakstur en lagði seinna stund á leiklistarnám í Reykjavík og síðar í Bandaríkjunum. Þá stundaði hann einnig söngnám á Ítalíu um tíma. Skemmst er frá því að segja að Jón hefur verið einn ástsælasti leikari þjóðarinnar en ferill hans sem atvinnuleikara í leikhúsum spannar heil 43 ár. Mörg síðustu ár hefur Jón búið í Biskupstungum og stundað þar hestamennsku af miklum myndarskap.