Út er kominn 12.árgangur Borgfriðingabókar sem er ársrit Sögufélags Borgarfjarðar en bókin hefur komið út samfellt síðan 2004 en á árunum 1981-1984 komu út 4. árgangar í þremur bindum. Í Ritnefnd bókarinnar sátu Snorri Þorsteinsson formaður, Ásdís Helga Bjarnadóttir og Sævar Ingi Jónsson. Bókin í ár er sú stærsta í blaðsíðum talið sem út hefur komið alls 286 bls. enda efniviðurinn nægur í héraði. Forsíðumyndina tók Sigurjón Einarsson en hann á fleiri fuglamyndir í bókinni en sú hefð hefur skapast síðustu ár að einn ljósmyndari úr héraði kynnir sig og myndir sínar. Bókin verður meðal annars til sölu á Héraðsbókasafninu og kostar 4000 kr. Er það liður í góðum samstarfsvilja starfsfólks Safnahúss og Sögufélags.
Oft er komið í Safnahús til að leita heimilda um eitthvað er tengist sögu héraðsins. Þessi mynd var tekin í dag þegar Sveinn Hálfdánarson og Sigvaldi Arason voru á ferðinni til að skoða gögn um Eldborgina sem gerð var út frá Borgarnesi í eina tíð. Þeir félagar hafa á undanförnum mánuðum unnið að gagnasöfnun vegna skráningar útgerðarsögu Borgarness, en það Ari Sigvaldason sem skrifar hana.
Hópur nemenda úr Menntaskóla Borgarfjarðar kom í Safnahús í morgun til að kynna sér bókasafnið og heimildaleit auk þess sem þau skoðuðu sýningar á efri hæð hússins. Nemendurnir komu í fylgd Ívars Arnar Reynissonar kennara, sem einnig mun kynna nemendum starfsemi skjalasafnins í næstu viku. Þess má geta að á næstunni verður Safnahús með stuttan fyrirlestur um sýninguna Séra Magnús í Menntaskólanum og verður það í sögutíma hjá nemendum sem eru að læra um upphaf 20. aldar í íslenskri sögu.
Oft koma góðir gestir á sýningar í Safnahúsi eins og stundum hefur verið sagt frá hér á síðunni. Í gær kom frænka Sigríðar Pétursdóttur á Gilsbakka (1860-1916) að skoða sýninguna Séra Magnús. Þetta var Þórdís Gústavsdóttir, en móðir hennar var Steinunn Sívertsen dóttir Sigurðar, yngri bróðir Sigríðar.
Sigurður (1868-1938) var sonur Péturs Fjeldsted Sívertsen (1824-1879) sem var bóndi í Höfn í Melasveit og seinni konu hans, Steinunnar Þorgrímsdóttur (1828-1919). Sigurður var því hálfbróðir Sigríðar á Gilsbakka, en móðir hennar var fyrri kona Péturs, Sigríður Þorsteinsdóttir (1835-1860) Helgasonar prests í Reykholti.
Þórdís og eiginmaður hennar Jóhann Níelsson létu vel af sýningunni og tóku sér einnig góðan tíma til að skoða sýninguna Börn í 100 ár, á neðri hæð Safnahúss.
Á myndinni má sjá Þórdísi (t.h.) ásamt Jóhönnu Skúladóttur héraðsskjalaverði. Þær standa við skjalaskáp þar sem sjá má m.a. ljósmynd af Sigurði afa Þórdísar, með börn sín þrjú, Steinunni, Helga og Þórhildi, öll fædd í upphafi síðustu aldar.
Hér má sjá nokkra af um 50 þátttakendum í sumarlestrarverkefni Héraðsbókasafnsins fagna góðum árangri á uppskeruhátíð sumarlestrar í síðustu viku.
Héraðsbókasafnið er eitt fimm safna í Safnahúsi Borgarfjarðar og á síðasta ári komu þangað um átta þúsund gestir, bæði íbúar í héraðin en einnig ferðafólk og fólk sem á sumarbústaði á svæðinu. Þetta er í 4. sinn sem safnið stendur fyrir sumarlestri og er verkefninu stýrt af Sævari inga Jónssyni héraðsbókaverði. Í þetta sinn var metþátttaka og voru tæplega sex hundruð bækur lesnar í sumar. Kynjahlutfallið var nokkuð jafnt og sá árgangur sem las mest var 9 ára börn með 216 lesnar bækur. Ekki er annað hægt að segja en að þetta sé glæsilegur árangur.
Geysimikil þátttaka var í sumarlestri Héraðsbókasafnsins í sumar, en þetta er í fjórða sinn sem safnið stendur fyrir slíku hvatningarátaki. Alls tóku 47 börn þátt og lásu þau 595 bækur. Kynjahlutfallið var nokkuð jafnt í hópnum, 24 strákar og 23 stelpur. Sá árgangur sem las mest var 9 ára börn með 216 lesnar bækur.
Haldið verður upp á þennan góða árangur með uppskeruhátíð fimmtudaginn 18. ágúst, klukkan 11.00 í Safnahúsinu.
Sýningin um sr. Magnús Andrésson á Gilsbakka hefur verið vel sótt af gestum og gangandi í sumar. Er það starfsfólki Safnahúss mikið ánægjuefni, enda saga sr. Magnúsar mjög merk og svo sannarlega þessi virði að henni sé komið á framfæri. Gestir hafa verið af öllum aldri og þjóðernum og má sem dæmi nefna að nokkrir Vestur-íslendingar hafa skoðað sýninguna og fundist hún mjög áhugaverð, enda fjallar hún einmitt um það tímabil þegar vesturferðirnar áttu sér stað. Annar hópur skal einnig nefndur og eru það ýmist fólk tengt Gilsbakka, svo sem ættingjar sr. Magnúsar og Sigríðar sem hafa verið duglegir að koma.
Það er nokkuð algengt að fólk af Vestur-íslenskum ættum komi í Safnahús og leiti upplýsinga um borgfirskar ættir sínar. Í dag komu tvær ungar stúlkur í slíkum erindagjörðum, þær Laurie Kristín Bertram og Caitlin Guðrún Johnson Brown. Laurie á ættir að rekja til Norðurlands, en Caitlin átti forfeður sem komu frá Neðrihreppi í Skorradal. Formóðir hennar var Kristjana Magnúsdóttir (f. 1852) sem fór til Vesturheims ásamt Jóni Jónssyni manni sínum (frá Flekkuvík) árið 1886. Kristjana var dóttir hjónanna Magnúsar Gíslasonar (1810-1871) og Sigríðar Grímsdóttur (1817-1895) sem bjuggu í Neðrihreppi 1839-1871.
Það er gaman að vita til þess að ungt fólk eins og Laurie og Caitlin sýni íslenskri ættarsögu sinni svo mikla ræktarsemi sem raun ber vitni þótt 125 ár séu síðan fólkið þeirra fór til Vesturheims.
Meðal þess sem fyrirfinnst í Safnahúsi er hluti af bókasafni Dr. Selmu Jónsdóttur (1917-1987) forstöðumanns Listasafns Íslands. Í safninu, sem er í umsjá Héraðsbókasafns Borgarfjarðar, er m.a. talsvert af efni um myndlist og skyldar greinar. Talsvert er af árituðum bókum sem merkir Íslendingar hafa gefið Selmu. Má hér nefna eintak af leikriti Pablo Picasso, enska fyrstu útgáfu ársetta 1948 í New York.