Það er nokkuð algengt að fólk af Vestur-íslenskum ættum komi í Safnahús og leiti upplýsinga um borgfirskar ættir sínar. Í dag komu tvær ungar stúlkur í slíkum erindagjörðum, þær Laurie Kristín Bertram og Caitlin Guðrún Johnson Brown. Laurie á ættir að rekja til Norðurlands, en Caitlin átti forfeður sem komu frá Neðrihreppi í Skorradal. Formóðir hennar var Kristjana Magnúsdóttir (f. 1852) sem fór til Vesturheims ásamt Jóni Jónssyni manni sínum (frá Flekkuvík) árið 1886. Kristjana var dóttir hjónanna Magnúsar Gíslasonar (1810-1871) og Sigríðar Grímsdóttur (1817-1895) sem bjuggu í Neðrihreppi 1839-1871.

 

Það er gaman að vita til þess að ungt fólk eins og Laurie og Caitlin sýni íslenskri ættarsögu sinni svo mikla ræktarsemi sem raun ber vitni þótt 125 ár séu síðan fólkið þeirra fór til Vesturheims.