Geysimikil þátttaka var í sumarlestri Héraðsbókasafnsins í sumar, en þetta er í fjórða sinn sem safnið stendur fyrir slíku hvatningarátaki.  Alls tóku 47 börn þátt og lásu þau 595 bækur.  Kynjahlutfallið var nokkuð jafnt í hópnum, 24 strákar og 23 stelpur.  Sá árgangur sem las mest var 9 ára börn með 216 lesnar bækur.

 

Haldið verður upp á þennan góða árangur með uppskeruhátíð fimmtudaginn 18. ágúst, klukkan 11.00 í Safnahúsinu.

Sýningin um sr. Magnús Andrésson á Gilsbakka hefur verið vel sótt af gestum og gangandi í sumar. Er það starfsfólki Safnahúss mikið ánægjuefni, enda saga sr. Magnúsar mjög merk og svo sannarlega þessi virði að henni sé komið á framfæri.  Gestir hafa verið af öllum aldri og þjóðernum og má sem dæmi nefna að nokkrir Vestur-íslendingar hafa skoðað sýninguna og  fundist hún mjög áhugaverð, enda fjallar hún einmitt um það tímabil þegar vesturferðirnar áttu sér stað.  Annar hópur skal einnig nefndur og eru það ýmist fólk tengt Gilsbakka, svo sem ættingjar sr. Magnúsar og Sigríðar sem hafa verið duglegir að koma.