Út er kominn 12.árgangur Borgfriðingabókar sem er ársrit Sögufélags Borgarfjarðar en bókin hefur komið út samfellt síðan 2004 en á árunum 1981-1984 komu út 4. árgangar í þremur bindum.  Í Ritnefnd bókarinnar sátu Snorri Þorsteinsson formaður, Ásdís Helga Bjarnadóttir og Sævar Ingi Jónsson.  Bókin í ár er sú stærsta í blaðsíðum talið sem út hefur komið alls 286 bls. enda efniviðurinn nægur í héraði.  Forsíðumyndina tók Sigurjón Einarsson en hann á fleiri fuglamyndir í bókinni en sú hefð hefur skapast síðustu ár að einn ljósmyndari úr héraði kynnir sig og myndir sínar.  Bókin verður meðal annars til sölu á Héraðsbókasafninu og kostar 4000 kr.  Er það liður í góðum samstarfsvilja starfsfólks Safnahúss og Sögufélags. 

Efni bókarinnar í ár er venju samkvæmt afar fjölbreytt. Má þar til dæmis nefna afar fróðlega grein Þorsteins Þorsteinssonar frá Húsafelli um hina merku konu Guðrúnu Jónsdóttir sem lengi var vinnukona á Húsafelli en í ár eru liðin 150 ár frá fæðingu hennar.  Þá má einnig nefna minningaþætti Þórðar Ólafssonar frá Brekku í Norðurárdal, grein Huldu Guðmundsdóttur á Fitjum um Síldarmannagötur og grein Jenna Ólafssonar um Kveldúlfskórinn í Borgarnesi.  Þá heldur Borgfriðingabók áfram að birta skrif Ara Guðmundssonar fyrrum vegavinnustjóra um Hvítá í Borgarfirði og jafnframt er birtur lokakafli bernskuminninga Halldórs J. Jónssonar frá Laxfossi. Sagt frá starfsemi ýmissa stofnanna og samtaka og birtur ýmiskonar kveðskapur að venju svo fátt eins sé uppatalið af efni bókarinnar.

Categories:

Tags:

Comments are closed