Sýningin um sr. Magnús Andrésson á Gilsbakka hefur verið vel sótt af gestum og gangandi í sumar. Er það starfsfólki Safnahúss mikið ánægjuefni, enda saga sr. Magnúsar mjög merk og svo sannarlega þessi virði að henni sé komið á framfæri.  Gestir hafa verið af öllum aldri og þjóðernum og má sem dæmi nefna að nokkrir Vestur-íslendingar hafa skoðað sýninguna og  fundist hún mjög áhugaverð, enda fjallar hún einmitt um það tímabil þegar vesturferðirnar áttu sér stað.  Annar hópur skal einnig nefndur og eru það ýmist fólk tengt Gilsbakka, svo sem ættingjar sr. Magnúsar og Sigríðar sem hafa verið duglegir að koma.

Var meðfylgjandi mynd tekin við eitt slíkt tækifæri í gær, þegar afkomendur og tengdafólk Sigmundar bróður sr. Magnúsar komu í Safnahús.  Á myndinni eru frá vinstri:  Hildur Eiríksdóttir, Ragnheiður Magnúsdóttir, Sigurlaug Magnúsdóttir og Magnús Pétursson.

 

Sigmundur Andrésson (1854-1926) var yngri bróðir  sr. Magnúsar Andréssonar. Hann var um tíma bústjóri fyrir bróður sinn á Gilsbakka, en gerðist árið 1902 bóndi á Vindheimum í Skagafirði ásamt konu sinni Moniku Indriðadóttur (1862-1939).  Þau áttu tvö börn, Elínu (1890-1975) og Magnús (1891-1952). Magnús tók við búi á Vindheimum eftir föður sinn. Kona hans var Anna Sigríður Jóhannesdóttir (1900-1985) og Ragnheiður og Sigurlaug eru dætur þeirra hjóna.

 

Sigmundur var sagður hafa verið vel gefinn höfðingsmaður, hygginn og hagsýnn bóndi og fjáraflamaður mikill. Auk þess var hann hómópati eins og Magnús bróðir hans og stundaði lækningar um 30 ára skeið. Meðöl frá honum þóttu oft gefast vel. í því efni mun hann hafa notið aðstoðar bróður síns á Gilsbakka, sem útvegaði honum meðul og lækningabækur.

Sýningin um sr. Magnús mun að óbreyttu standa til vorsins 2012. Hún er í senn sterk heimild um héraðssöguna  og sögu landsins alls um aldamótin 1900.

 

Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed