Ljósmyndasafn Akraness og Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar hafa gert með sér samstarfssamning um gagnkvæm afnot af ljósmyndum vegna verkefna vorið 2008. Um er að ræða um gagnkvæm gjaldfrjáls afnot safnanna af ljósmyndum vegna sýninganna  „Hernámið“ sem verður á Akranesi  og „Börn í 100 ár“ sem verður í Borgarnesi.

 

Það er ekki úr vegi að birta svolítið meira af kveðskap Þorsteins frá Hamri í tilefni af áðurnefndum tímamótum.  Þá má einnig minna á kynninguna ,, Bíðið meðan hann syngur" í Safnahúsinu sem mun standa næstu vikurnar. Ljóðið sem nú verður birt er minningarljóð um annað borgfirskt skáld, Guðmund Böðvarsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu.  Þetta ljóð Þorsteins birtist í ljóðabókinni Fiðrið úr sæng daladrottningar sem út kom 1977 þremur árum eftir andlát Guðmundar, en er hér tekið úr ritsafni Þorsteins sem út kom 1998.

Í tilefni af sjötugsafmæli Þorsteins frá Hamri birtist hér eitt af hans fallegustu ljóðum, ljóðið Kveðja.  Það er að finna í fyrstu ljóðabók hans Í svörtum kufli en er hér tekið úr ritsafni Þorsteins útgefnu árið 1998.

 

Kveðja

 

Haustkul af norðri brottu ber

blómkrónu dána. Lát það hvísla

örlagaspám í eyru þér.

Er skarður máni í skýjum fer

er skjól okkar þessi hrísla.

 

Ég er á leið til ljóðvakans

ljósu stranda. Mér dísir sungu:

Á vetrarkvöldi þú kemst til lands;

langsótt er hafið, en leikur hans

er lífsgjafi þinnar tungu.

 

Barrkrónan skelfur særð og sjúk

er svalinn slær hana fastar og tíðar.

Stormurinn ber þér frost og fjúk.

En mjöllin sem kemur köld og mjúk

ber kvæði mitt til þín síðar.

 

                          

,,Bíðið meðan hann syngur er yfirskrift á kynningu á verkum rithöfundarins farsæla Þorsteins frá Hamri en næstkomandi laugardag fagnar hann sjötíu ára afmæli sínu.  Þá eru einnig í ár 50 ár liðin frá því fyrsta ljóðabók hans Í svörtum kufli kom út.  Ferill Þorsteins er blómlegur og hefur hann hlotið margskonar viðurkenningar og fjölmargar tilnefningar, m.a var hann sæmdur riddarakrossi hinnar Íslensku Fálkaorðu árið 1996 fyrir ritstörf sín. 

Ljóðaúrval keppninnar 2006
Nú stendur yfir á flestum bókasöfnum landsins ljóðasamkeppni fyrir ungt fólk á aldrinum 9-16 ára.  Það er Þöll, samstarfshópur um barnamenningu á bókasöfnum, sem stendur að keppninni. Keppnin er nú haldin í sjötta sinn.  Skila má ljóðum hingað á Héraðsbókasafnið en skilafrestur er til 28.mars.

Af gefnu tilefni er rétt að minna á opnunartíma safnanna í Safnahúsi Borgarfjarðar.  Opið er alla virka daga frá 13-18, sérstök kvöldopnun er á þriðjud. og fimmtud. en þá er opið frá 13-20. 

Undantekning frá þessum opnunartíma er opnunartími Héraðsskjalasafns, en héraðsskjalavörður er við frá 9-16 alla virka daga.  

 

Þar sem Safnahúsið verður framvegis læst fram að opnunartíma kl. 13 eru gestir skjalasafns sem og aðrir sem brýnt erindi eiga að morgni dags beðnir um að hringja í 430 7206 (skjalasafn) eða aðalnúmer Safnahúss 430 7200.

Í Listaháskóla Íslands var opnuð sýning s.l. föstudag með verkum Hjörleifs Sigurðssonar. Á sýningunni er verk frá Listasafni Borgarness í láni, enda á safnið 7 verk eftir Hjörleif. Nánar er hægt að lesa um sýninguna á síðu Listaháskólans www.lhi.is

Um helgina kom hópur afkomenda Halldóru B. Björnsson skáldkonu í Safnahús til að skoða sýningu um verk hennar, sem sett var upp í desember s.l. Halldóra átti eina dóttur, Þóru Elfu Björnsson og kom hún ásamt manni sínum, Gísla Guðmundssyni og  nokkrum afkomendum þeirra.  

Þann 1. janúar 2008 tók ný verðskrá gildi fyrir Héraðsbókasafn Borgarfjarðar en verðskráin var samþykkt á starfsmannafundi í desembermánuði.  Ekki er um miklar breytingar að ræða, þær helstar að lánþegaskírteini kostar nú 1200 kr., og einnig hafa myndbönd og DVD-diskar hækkað lítillega, en að sama skapi hefur útlánatími þeirra verið aukin til að mæta kröfum íbúa í dreifbýli.  Verðskrána í heild má sjá með því að smella á tengil héraðsbókasafns hér til vinstri, eða smella hér.

Það var gestkvæmt í Safnahúsinu á öskudaginn. Meðal gesta voru þessir herramenn sem eru hér á myndinni. Fengu allir þeir sem tóku lagið fyrir starfsfólk mandarínur og bókamerki að launum.