Það er ekki úr vegi að birta svolítið meira af kveðskap Þorsteins frá Hamri í tilefni af áðurnefndum tímamótum.  Þá má einnig minna á kynninguna ,, Bíðið meðan hann syngur” í Safnahúsinu sem mun standa næstu vikurnar. Ljóðið sem nú verður birt er minningarljóð um annað borgfirskt skáld, Guðmund Böðvarsson frá Kirkjubóli í Hvítársíðu.  Þetta ljóð Þorsteins birtist í ljóðabókinni Fiðrið úr sæng daladrottningar sem út kom 1977 þremur árum eftir andlát Guðmundar, en er hér tekið úr ritsafni Þorsteins sem út kom 1998.

Fylgd

    Í minningu Guðmundar Böðvarssonar

 

Lestin mikla mjakast í sífellu hjá,

„ættstofnsins saga, örlög vor stór og smá“,

allir sem sólin kyssti.

 

Þeir stíga úr söðlum hjá túnhliði, taka sér

í tröðinni dvalir: Höfum bið, það var hér

sem gróðursins drottinn gisti.

 

Og þar er í grasi fagnað til ferðar búnum

fráneygum hörpusveini á gangvara brúnum;

kvöldskin kvikar á vöngum.

 

Hann slæst í hópinn. Okkur til leiðsagnar er

fylgd hans þó vís; fylgd þér og mér.

Fylgd. Hvar sem við göngum.

 

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed