Það er spurningin hvað varð um Hólmfríði Lofthænu og Lárus Pálsson þegar þau lögðust í ferðalag og týndust? Þeir sem vilja kynna sér þetta nánar geta lagt leið sína í Safnahús á næstunni til að skoða frábæra sýningu á verkefnum sem nemendur 1. - 7. bekkjar Varmalandsskóla hafa unnið í vetur.

 

Það var margt að skoða í Ásgarði

Jón Blöndal við bækurnar

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Á dögunum kom beiðni frá aðstandendum bókasafns Kjósarhrepps þess efnis að Sævar Ingi héraðsbókavörður kæmi einn góðan dag í Ásgarð í Kjós að meta gamlar bækur með varðveislu sjónarmið í huga.  Sér til fulltingis fékk Sævar hinn margfróða bókamann Jón Blöndal sem oft hefur lagt starfsfólki lið í hinum ýmsu málum, ekki hvað síst á bóka- og skjalasafni. 

Þann 22. marsl fengu þeir félagar sér rúnt í Kjósina og litu á bækurnar.  Fannst þeim báðum gaman að koma í Ásgarð og glíma við verkefnið.

 

Síðustu dagar fuglasýningar náttúrugripasafnsins verða þriðjudagur og miðvikudagur eftir páska og verður hún tekin niður fimmtudaginn 8. apríl. Hefur verið afar góð aðsókn og ekki síst hafa skólahópar komið og skoðað þetta merka safn uppstoppaðra fugla. 

 

Á dögunum fór munavörður í sína aðra heimsókn í Menntaskólann í Hamrahlíð. Tilgangurinn er að sýna læknatól í eigu safnsins í valáfanga sem kenndur er í skólanum og kallast Saga læknisfræði frá fornöld til nútímans. Ekki er um eiginlegt safn sem sýnir slíka gripi í nágrenni Reykjavíkur og erfitt hefur verið að komast yfir gömu lækningatól. Kennarinn, Rúna Guðmundsdóttir, og nemendur þökkuðu vel fyrir sig og vöktu mörg áhöldin miklar umræður og oft á tíðum hlátur. 

Safnahús Borgarfjarðar auglýsir eftir starfsmanni í sumarafleysingar. Um er að ræða störf á bókasafni og við sýningarvörslu, þrif og fleira. Viðkomandi þarf að vera samviskusamur og  hafa góða og vandaða framkomu ásamt ríkri þjónustulund. Mikilvægt er einnig að eiga auðvelt með samskipti og geta veitt sýningaleiðsögn bæði á ensku og íslensku.  Önnur tungumál og almennur áhugi á bókmenntum og sögu er kostur.

Opnuð hefur verið sýning á uppstoppuðum fuglum í Hallsteinssal. Um er að ræða uppstillingu vegna flokkunarvinnu við Náttúrugripasafnið og verður sýningin opin fram að páskum alla virka daga frá kl. 13.00 - 16.00 eða á öðrum tímum samkvæmt samkomulagi.

 

Á staðnum eru fræðibækur um fugla svo hægt er að spreyta sig á að greina tegundirnar.

 

Það var skemmtileg stund hjá nokkrum fyrrverandi skipverjum á Eldborginni, Hafborginni og Hvítánni, sem hittust s.l. föstudag þegar Byggðasafninu fært líkan af Hafborginni, sem gerð var út frá Borgarnesi um miðbik síðustu aldar.

Í morgun komu þrjátíu fjórðu bekkingar í heimsókn ásamt kennurum sínum og leiðbeinendum. Þetta voru krakkar úr Grunnskólanum i Borgarnesi ásamt Björk Jóhannsdóttur, Guðrúnu Rebekku Kristjánsdóttur og Maríu Þórarinsdóttur. Krakkarnir skoðuðu ýmis verkfæri og muni sem notaðir voru til framleiðsu matvæla úr mjólk á fyrri tímum. Svo litu þau inn í baðstofuna þar sem þau fræddust af kennurum sínum um lifnaðarhætti fyrri tíma.

Næstkomandi föstudag verður Byggðasafninu fært líkan af Hafborginni sem gerð var út frá Borgarnesi um miðbik síðustu aldar. Þeir Gunnar Ólafsson fyrrv. skipstjóri og Sigvaldi Arason í Borgarnesi hafa með aðstoð góðs fólks á undanförnum tveimur árum gengist fyrir því að skipslíkön tengd útgerðarsögu Borgnesinga fari í eigu Byggðasafnsins.

Nokkrir krakkar frá leikskólanum Uglukletti komu í Safnahús í morgun til að skoða bækur og fleira. Þau kíktu við þetta tækifæri á fuglasafn náttúrugripasafnsins. Fuglarnir vöktu óskipta athygli ungu gestanna og safnverðir gerðu sitt besta við að svara óteljandi spurningum um viðfangsefnið.