Næstkomandi föstudag verður Byggðasafninu fært líkan af Hafborginni sem gerð var út frá Borgarnesi um miðbik síðustu aldar. Þeir Gunnar Ólafsson fyrrv. skipstjóri og Sigvaldi Arason í Borgarnesi hafa með aðstoð góðs fólks á undanförnum tveimur árum gengist fyrir því að skipslíkön tengd útgerðarsögu Borgnesinga fari í eigu Byggðasafnsins.

Í ágúst 2008 gáfu þeir fyrsta líkanið sem var af Eldborginni, sem var gerð út frá Borgarnesi í meira en tvo áratugi og á sér því mikilvægan sess í atvinnusögu héraðsins. Í maí í fyrra komu þeir svo færandi hendi með líkan af Hvítánni. Nú er það Hafborgin sem verður afhent í ráðhúsi Borgarbyggðar næstkomandi föstudag kl. 15.00 og eru allir velkomnir.

 

Útgerðarfélagið Grímur í Borgarnesi lét smíða Hafborgina í skipasmíðastöð KEA á Akureyri árið 1944 og það var Stefanía Þorbjarnardóttir, kona Friðriks Þórðarsonar framkvæmdastjóra félagsins, sem gaf skipinu nafnið Hafborg  með því að brjóta kampavínsflösku á stefni þess.

 

Lengd Hafborgarinnar var 24,9 m, breidd 5,84 m, og dýpt 2,54 m. Hún var 92 lestir, 78 undir þilfari og 38 lestir nettó og hafði kallmerkið TFQM. Aðalvél Hafborgar var fjögra strokka Blackstone-Lister dísilvél, 240 hestöfl, og einnig var í henni 8 hestafla hjálparvél af sömu gerð til ljósa.

 

Hafborgin fór í sína fyrstu ferð síðast í febrúar eða í byrjun mars 1944 og sigldi þá til Raufarhafnar og Þórshafnar til að ferma ísvarinn fisk til sölu í Fleetwood á Englandi. Hún kom við í Borgarnesi og stansaði þar í tvo til þrjá tíma og hélt síðan til Reykjavíkur til að fá siglingaleyfi. Skipið hélt svo til síldveiða sumarið 1944.

 

Árið 1950, eftir mikla rekstrarörðugleika sem stöfuðu m.a. af tregri síldveiði sumar eftir sumar, voru dagar útgerðarfélagsins Gríms taldir og Hafborgin seld vestur til Bolungarvíkur þar sem Einar Guðfinnsson eignaðist hana. Síðar var hún seld Jóni Magnússyni á Patreksfirði. Reyndist Hafborgin þessum eigendum sínum hið besta fiskiskip, en endaði að lokum sína daga á áttunda áratugnum Keflavík.

 

Framtak Gunnars og Sigvalda til verndar útgerðarsögunni er afar þakklætisvert og líkönin eru verðmætur þáttur í varðveislu byggðasögu Borgarfjarðar.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed