Árið 1941 dvaldist breskur hermaður að nafni Albert Blackmann (1910-2007) í Borgarnesi. Herdeildin hans bar nafnið Ísbjarnarherdeildin, en hann hafði reyndar ekki beinum herskyldum að gegna heldur annaðist rekstur pósthúss fyrir deildina.  Vegna þessa hafði hann mikið samband við þáverandi stöðvarstjóra pósts og síma í Borgarnesi, Þorkel Teitsson og konu hans Júlíönu Sigurðardóttur. Dóttir Alberts, Sandra Hill að nafni, er nú stödd hér á landi til að heimsækja þær slóðir sem faðir hennar dvaldi á í stríðinu. Hún komst í samband við Oddnýju Kristínu dóttur Þorkels og börn hennar með því að senda bréf til Íslands stílað samkvæmt eftirskrift á umslagi sem hún fann í fórum föður síns: Oddný Þorkelsdóttir, Borgarnesi.

Þorsteinn Þorsteinsson fræðimaður frá Húsafelli kom í Safnahús í gær ásamt konu sinni Eddu Emilsdóttur.  Þau hjónin skoðuðu m.a. sýninguna um sr. Magnús Andrésson sem var ömmubróðir Þorsteins. Einnig færðu þau Byggðasafninu góðar gjafir, fjögur merk úr frá fyrri hluta 20. aldar. Hér má sjá tvær myndir, á annarri eru þau Edda, Þorsteinn og Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður að skoða gögn, en á hinni má sjá úrin fjögur í öskju.

Um hundrað afkomendur og tengdafólk séra Magnúsar Andréssonar á Gilsbakka voru meðal þeirra sem mættu þegar opnuð var heimildasýning um hann í Safnahúsi s.l. föstudag. Sýningin er sett upp í tilefni af 50 ára afmæli Héraðsskjalsafns Borgarfjarðar og er framlag Borgarbyggðar til dagskrár afmælisárs Jóns Sigurðssonar. Sýningin hefur hlotið heitið Séra Magnús og má sjá nánar um hana með því að smella hér. Sýningin mun standa í um það bil eitt ár og verður opin alla virka daga frá 13-18.  Við opnunina flutti Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður ávarp þar sem m.a. kom fram að við undirbúning sýningarinnar hafa ýmsar nýjar heimildir fundist og dýrgripir komið fram eins og teiknuð mynd af Jesú Kristi, eftir Sigríði Magnúsdóttur frá Gilsbakka. Á sýningunni eru munir úr gamla bænum á Gilsbakka og stór plaköt, en einnig ítarefni fyrir þá sem vilja sjá meiri fróðleik.

Þessar vikurnar er margt um að vera á héraðsbókasafninu, því það standa yfir kynningar á sumarlestrinum sem verður í ár frá 10. júní til 10. ágúst. Kennarar í Grunnskólanum í Borgarnesi eru duglegir að koma með nemendur sína í kynningu á verkefninu hjá Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði og eru nemendurnir þaðan alls um hundrað talsins. Í gærmorgun komu um 30 krakkar úr 1. bekk ásamt kennurum sínum og aðstoðarfólki  og þá var þessi mynd tekin. Þess má geta að dreifbýlisskólarnir í héraðinu fengu einnig boð um kynningu á sumarlestrinum og nýta sér það eftir föngum.

Þann 13. maí n.k. verður opnuð ný sýning í Safnahúsi í tilefni af 50 ára afmæli Héraðsskjalasafnsins. Sýningin hefur hlotið heitið Séra Magnús og er um ævi Magnúsar Andréssonar (1845-1922) sem bjó á Gilsbakka í Hvítársíðu frá árinu 1881, ásamt sinni mætu konu Sigríði Pétursdóttur.  Séra Magnús var m.a. alþingismaður Mýramanna um margra ára skeið og kom þar að mótun sjálfstæðisbaráttu Íslendinga um og eftir 1900. Af þessu tilefni er sýningin helguð minningu Jóns Sigurðssonar á merku afmælisári hans.

Á morgun þann 14.apríl heldur Upplýsing, félag bókasafns- og upplýsingafræða, í samstarfi við bókasöfn á Íslandi Bókasafnsdag.

Tilgangur dagsins er að vekja athygli á mikilvægi bókasafna fyrir þjóðfélagið. Héraðsbókasafn Borgarfjarðar tekur að sjálfsögðu þátt í þessu sameiginlega átaki og af því tilefni útbjó starfsfólk Safnahúss glærusýningu þar sem sýnt er lítið brot af því fjölbreytilega og merkilega efni sem finna má á safninu, en aðsóknin hefur raunar verið mjög góð síðustu ár.  Fartölvu hefur verið komið fyrir við afgreiðsluborðið þar sem glærusýningin mun ganga þennan dag og jafnvel lengur.

 

Pálssafn í Safnahúsi er eins og kunnugt er einkabókasafn Páls Jónssonar bókavarðar (1909-1985). Ásamt því að vera fagmaður á sviði bókasöfnunar hafði Páll mikinn áhuga á ljósmyndun og ferðalögum. Hann tók t.d. mikið af ljósmyndum sem notaðar voru í Árbækur Ferðafélags Íslands. Í dag kom Ása Ólafsdóttir systurdóttir Páls færandi hendi í Safnhús með þrjár litaðar ljósmyndir í ramma, og hefur Páll tekið þær myndir á ferðalagi árið 1933. Myndinar eru úr búi Guðleifar Jónsdóttur systur hans, sem síðast bjó á Egilsgötu 6 í Borgarnesi. Ása segir myndirnar vera í upprunalegum römmum. Sú stærsta þeirra er frá Karlsdrætti við Hvítárvatn, en það var mikill uppáhaldsstaður Páls.

 

Myndirnar fá góðan sess inni í Pálssafni.

 

Ljósmynd: Guðrún Jónsdóttir 

Í Safnahúsi er bók mánaðarins á borði í anddyri bókasafns og þar geta gestir sest niður og blaðað í vönduðum handbókum. Bókin sem nú liggur frammi er bók Einars Fals Ingólfssonar  Sögustaðir með undirtitlinum Í fótspor W.G.Collingwoods. Þar má sjá ljósmyndir sem Einar Falur tók á sömu stöðum og enski aðalsmaðurinn Collingwood málaði myndir sínar á Íslandi á sumarið 1897. Bókin er mjög vönduð og þar er merkilegt að sjá hvernig tveir listamenn kallast á með aldarmillibili. 

Í gær kom mikill heiðursgestur í Safnahús, Dr. Emily Lethbridge. Hún er í pílagrímsferð um Ísland á gömlum Land Rover og hefur undirbúningur ferðarinnar staðið yfir í langan tíma. Hluti þess var að dvelja á bóndabæ á Íslandi árið 2008 til að læra málið, en einnig hefur Emily kynnt sér tæknihlið bílsins vel til að geta sjálf annast viðhald og viðgerðir ef bilun kæmi upp. Tilgangur ferðarinnar er að skoða sögustaði Íslendingasagna og fer hún þar í fótspor Collingwoods sem fór um landið í sömu erindagjörðum árið 1897, en einnig hefur Dr. Emily kynnt sér ferðir annarra sem fóru um landið á 19. öldinni s.s. William Morris, og ber frásagnir þeirra við upplifun sína í sama tilgangi á 21. öldinni.  

Í morgun kom starfsfólk Bókasafns og Skjalasafns Akraness í heimsókn í Safnahús. Hópurinn kom  til að kynna sér starfsemina og skoðaði m.a. sýningarnar Börn í 100 ár og Kaupmannsheimilið auk þess sem Pálssafn var skoðað. Síðast en ekki síst átti starfsfólk stofnanna góða stund yfir kaffibolla og ræddu ýmis þörf mál. Mikið og gott samstarf hefur verið að ræða á milli safnanna á Skaganum og í Borgarnesi síðastliðin ár.