Árið 1941 dvaldist breskur hermaður að nafni Albert Blackmann (1910-2007) í Borgarnesi. Herdeildin hans bar nafnið Ísbjarnarherdeildin, en hann hafði reyndar ekki beinum herskyldum að gegna heldur annaðist rekstur pósthúss fyrir deildina.  Vegna þessa hafði hann mikið samband við þáverandi stöðvarstjóra pósts og síma í Borgarnesi, Þorkel Teitsson og konu hans Júlíönu Sigurðardóttur. Dóttir Alberts, Sandra Hill að nafni, er nú stödd hér á landi til að heimsækja þær slóðir sem faðir hennar dvaldi á í stríðinu. Hún komst í samband við Oddnýju Kristínu dóttur Þorkels og börn hennar með því að senda bréf til Íslands stílað samkvæmt eftirskrift á umslagi sem hún fann í fórum föður síns: Oddný Þorkelsdóttir, Borgarnesi.