Í gær kom mikill heiðursgestur í Safnahús, Dr. Emily Lethbridge. Hún er í pílagrímsferð um Ísland á gömlum Land Rover og hefur undirbúningur ferðarinnar staðið yfir í langan tíma. Hluti þess var að dvelja á bóndabæ á Íslandi árið 2008 til að læra málið, en einnig hefur Emily kynnt sér tæknihlið bílsins vel til að geta sjálf annast viðhald og viðgerðir ef bilun kæmi upp. Tilgangur ferðarinnar er að skoða sögustaði Íslendingasagna og fer hún þar í fótspor Collingwoods sem fór um landið í sömu erindagjörðum árið 1897, en einnig hefur Dr. Emily kynnt sér ferðir annarra sem fóru um landið á 19. öldinni s.s. William Morris, og ber frásagnir þeirra við upplifun sína í sama tilgangi á 21. öldinni.  

Dr. Emily er menntuð í íslenskum miðaldabókmenntum og ætlar að taka eitt ár í að ferðast um landið í framhaldi af doktorsprófi sínu og stunda rannsóknir í ferðinni.  Ekki síst langar hana til að kynna sér hvernig Íslendingasögurnar lifa með íslensku þjóðinni í dag.

 

Bíllinn sem valinn var er rúmlega tuttugu ára gamall sjúkrabíll og er nú innréttaður sem húsbíll. Emily ók honum fyrst frá Englandi til Danmerkur og tók þaðan ferju til Íslands með viðkomu í Færeyjum.  Dr. Emily  hyggst skrifa bók um ferðir sínar um Íslands. Þar hefur hún huga að segja frá náttúrunni, þjóðinni og tengslum hennar við sögurnar og fjalla um hvernig landið hefur þróast frá miðöldum og yfir til nútímans.  Með þessu hyggst hún ekki síst benda almenningi í Bretlandi á að það er miklu meira merkilegt við Ísland en neikvæðar fréttir um fjármálahrun og eldfjallaösku.

 

Emily bloggar um ferðir sínar og má lesa skrifin hér: http://www.sagasteads.blogspot.com/

 

Á myndinni má sjá Dr. Emily við bílinn sinn á bílastæði Safnahúss.

Ljósmynd: Sævar Ingi Jónsson.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed