Þorsteinn Þorsteinsson fræðimaður frá Húsafelli kom í Safnahús í gær ásamt konu sinni Eddu Emilsdóttur.  Þau hjónin skoðuðu m.a. sýninguna um sr. Magnús Andrésson sem var ömmubróðir Þorsteins. Einnig færðu þau Byggðasafninu góðar gjafir, fjögur merk úr frá fyrri hluta 20. aldar. Hér má sjá tvær myndir, á annarri eru þau Edda, Þorsteinn og Jóhanna Skúladóttir héraðsskjalavörður að skoða gögn, en á hinni má sjá úrin fjögur í öskju.

 Lengst til vinstri er fermingarúr Þórðar Kristleifssonar (1893-1997), kennara, tónlistamanns og fræðimanns, en hann var móðurbróðir Þorsteins.  Þórður fermdist árið 1907, en úrið er ekki síst merkilegt fyrir þær sakir að það týndist eitt sinn þegar hann var í smalmennsku en fannst aftur og þá í miðri Reykjadalsánni. Næst er armbandsúr sem Þórður fékk frá nemendum og kennurum á Laugarvatni árið 1943 en þar átti hann langan og giftusaman starfsferil.. Því næst koma tvö úr úr eigu Þorsteins Þorsteinssonar, fyrst fermingarúr frá 1925 og svo fyrsta armbandsúrið hans, sem var keypt í Svíþjóð árið 1951 eða 1952. Nokkuð öflugur ísótóp var notaður til að láta tölurnar á úrinu sjást í myrkri. úrið var því geislavirkt og mjög hættulegt, sem hefur þó til allrar lukku ekki náð að skaða eiganda þess.

 

Ljósmyndir: Guðrún Jónsdóttir

Categories:

Tags:

Comments are closed