Í morgun kom starfsfólk Bókasafns og Skjalasafns Akraness í heimsókn í Safnahús. Hópurinn kom  til að kynna sér starfsemina og skoðaði m.a. sýningarnar Börn í 100 ár og Kaupmannsheimilið auk þess sem Pálssafn var skoðað. Síðast en ekki síst átti starfsfólk stofnanna góða stund yfir kaffibolla og ræddu ýmis þörf mál. Mikið og gott samstarf hefur verið að ræða á milli safnanna á Skaganum og í Borgarnesi síðastliðin ár. 

Sem dæmi um það er stór skerfur Skjalasafns (Ljósmyndasafns) Akraness í sýningunni Börn í 100 ár og blómlegt samstarf í millisafnalánum sem verið hefur á milli bókasafnanna. Á grundvelli menningarsamnings á milli Akraness og Borgarbyggðar getur fólk fengið bækur lánaðar á öðrum staðnum og skilað á hinum. Nú stendur yfir sýning í Safnahúsi um hernámsárin í Borgarnesi. Þar er einnig um samstarf að ræða því myndirnar voru á sínum tíma lánaðar úr Borgarnesi á Skjalasafn Akraness þar sem þær voru hluti af stórri sýningu um hernámsárin. Nú hafa söfnin í Borgarnesi fengið þennan hluta sýningarinnar að láni og hefur sýningin vakið mikla og góða athygli gesta síðan hún var sett upp.

 

Á myndinni eru talin frá vinstri: Jóhanna Skúladóttir, Halldóra Jónsdóttir, Guðrún Jónsdóttir og Sævar Ingi Jónsson.  Auk þeirra voru eftirtalin í hópnum sem kom af Skaganum: Gerður J. Jóhannsdóttir, Helgi S. Steindal, Erla Dís Sigurjónsdóttir, Ásta Björnsdóttir, Nanna Þóra Áskelsdóttir og Valborg Reisenhus.  

Ljósmyndina tók Þóra H. Þorkelsdóttir, sem starfar um þessar mundir að ýmsum verkefnum fyrir Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

Categories:

Tags:

Comments are closed