Daníel Jónsson (f. 1901) og kona hans Jórunn Þorsteinsdóttir (f. 1905) bjuggu í Borgarnesi fram til ársins 1952. Í gær hittist fjölskylda þeirra á ættarmóti í Borgarnesi, rúmlega þrjátíu talsins. Þau skoðuð m.a. sýninguna Börn í 100 ár og fóru á gamlar slóðir á Sæunnargötu þar sem Daníel og Jórunn bjuggu. Meðal barna hjónanna er Jón Daníelsson, fyrrv. skipstjóri, sem m.a. var á Laxfossi á sínum tíma og er m.a. sagt frá í Útgerðarsögu Borgarness (Víst þeir sóttu sjóinn) sem kom út á síðasta ári.
Uppskeruhátíð sumarlestrar Safnahúss fór fram s.l. föstudag. Í þetta sinn voru lesnar nær 500 bækur í sumar og voru bæði krakkarnir og foreldrarnir mjög ánægðir með árangurinn. Á hátíðinni var farið í leiki, viðurkenningar afhentar og boðið upp á ýmsa gripi og veitingar. Eftirtaldir styrktu þetta framtak með góðum gjöfum: Arion banki og Tryggingamiðstöðin.
Safnahús er orðinn formlegur aðili að vísnavef Árnastofnunar. Vefurinn heitir Bragi – óðfræðivefur. Það eru þau Jóhanna Skúladóttir og Sævar Ingi Jónsson sem annast ritstjórn borgfirska hlutans. Ásamt efni frá Árnastofnun og kvæðasafni úr Borgarfirði verður þarna vísnasafn úr Skagafirði, Vestmannaeyjum og Kópavogi og von er á meira efni með haustinu. Sjá nánar með því að smella á vísnavef hér á vinstri stiku. Borgfirska vefinn má sjá með því að smella hér.
Sýningin um sr. Magnús Andrésson (1845-1922) á Gilsbakka hefur nú staðið í rúmt ár en nú fer að líða að sýningarlokum sem verða síðla hausts. Fjölmargir hafa skoðað þessa viðamiklu heimildasýningu, sem er í senn fjölskyldu- og héraðssaga. Fólk hefur komið víða að, t.d. úr Skagafirði þar sem Sigmundur bróðir sr. Magnúsar bjó á sínum tíma og á afkomendur. Í gær kom langömmubarn Katrínar systur sr. Magnúsar, Guðmundur I. Guðmundsson með fjölskyldu sinni og skoðaði sýninguna og var þessi mynd þá tekin.
Ein myndanna sem enski aðalsmaðurinn W. G. Collingwood málaði á Íslandi sumarið 1897 hefur verið afhent Safnahúsi Borgarfjarðar til eignar og varðveislu. Um er að ræða mynd sem Collingwood málaði á Gilsbakka í Hvítársíðu þegar hann dvaldi þar á ferðum sínum um íslenska sögustaði. Alls málaði Collingwood þrjár myndir á Gilsbakka þetta sumar, eina af bænum sjálfum og aðra af gilinu við bæinn auk myndarinnar sem hér um ræðir, sem er af litlu stúlkubarni. Fyrirmyndin var Guðrún Magnúsdóttir fædd 1896, dóttir þáverandi húsaráðenda á Gilsbakka, séra Magnúsar Andréssonar og Sigríðar Pétursdóttur.
Uppskeruhátíð sumarlestursins 2012 fer fram í Safnahúsi föstudaginn 17. ágúst kl. 11. Góð þátttaka var í sumarlestri Héraðsbókasafns Borgarfjarðar í sumar, sem fór nú fram í fimmta sinn. Alls tóku 30 börn á aldrinum 6-12 ára þátt, þar af voru 18 stelpur og voru þær því ívið fleiri en strákarnir, sem voru 12.
Nýlega bárust á Héraðsskjalasafnið tvær myndir, af hjónunum Elínu Jónsdóttur (1866-1952) og Þorsteini Hjálmssyni (1860-1915). Myndirnar eru dæmi um muni sem berast á söfnin, í þetta sinn til Héraðsskjalasafnsins þar sem um ljósmyndir er að ræða. Myndirnar eru í viðarrömmum, vel farnar og skýrar. Elín og Þorsteinn bjuggu sín búskaparár í Örnólfsdal í Þverárhlíð og á Hofsstöðum í Stafholtstungum og eignuðust þrjú börn sem upp komust, Árna, Hjálm og Jón.
Eins og áður hefur verið frá sagt er Safnahús í samvinnu við Tónlistarskóla Borgarfjarðar um sérverkefni þar sem nemendur vinna með þuluformið í tónlistarsköpun. Til grundvallar liggja ljóð eftir Guðrúnu Jóhannsdóttur frá Sveinatungu (kenndi sig við Brautarholt á Kjalarnesi) en hún vann mikið með þuluformið. Verkefninu lýkur með tónleikum í nóvember næstkomandi, þar sem nemendur sýna afrakstur vinnu sinnar. Í gær fékk Safnahús góða heimsókn þar sem var Ingibjörg Bergsveinsdóttir dóttir Guðrúnar ásamt dóttur sinni, tengdasyni og barnabörnum. Var m.a. rætt um þuluverkefnið og hyggst Ingibjörg sækja tónleika Tónlistarskólans þegar þar að kemur.