Þann 6. september næstkomandi hefði Egill Pálsson, verkamaður og bóndi í Borgarnesi, orðið 100 ára. Af því tilefni verður sett upp veggspjaldasýning í Safnahúsi um hann og fjölskyldu hans. Sýningin verður  opnuð á afmælisdaginn sjálfan.

Egill Pálsson var fæddur á Snæfellsnesi en flutti í Borgarnes barn að aldri. Foreldrar hans voru Páll Pétursson og Guðveig Guðmundsdóttir. Hann átti sín uppvaxtarár í Borgarnesi, en var einnig í nokkur ár í Sólheimatungu þar sem hann gekk í öll venjuleg sveitastörf þótt ungur væri að árum. Í Sólheimatungu kynntist hann verðandi eiginkonu sinni, Jóhönnu Lind frá Svíney í Færeyjum. Þau giftu sig og fóru að búa í Borgarnesi árið 1939 og bjuggu nær allan sinn búskap að Gunnlaugsgötu 10. Þau eignuðust saman 15 börn og þar af komust 13 upp og búa 10 þeirra í Borgarfjarðarhéraði í dag, flest í Borgarnesi.

Egill bjó í Borgarnesi mestallt sitt líf og vann lengst af hjá Kaupfélagi Borgfirðinga eða í um 40 ár. Saga hans og fjölskyldu hans er að mörgu leyti samofin mótunarsögu Borgarness.

Sýningin um Egil Pálsson er unnin í samvinnu við fjölskyldu Egils. Hún verður opnuð með hátíðardagskrá á neðri hæð Safnahúss kl. 17.30 fimmtudaginn 6. september og mun standa fram í nóvember.

Categories:

Tags:

Comments are closed