Ársskýrsla Safnahúss fyrir árið 2007 liggur nú fyrir og hefur verið samþykkt af menningarnefnd Borgarbyggðar, sem jafnframt er stjórn Safnahúss.  Í skýrslunni er kveðið á um helstu verkefni Safnahúss á árinu sem leið.  Sjá má skýrsluna með því að smella hér.

Á margan hátt má segja að þetta hafi verið viðburðaríkur tími og ýmislegt hefur áunnist. Árið 2007 hófst með slitum á byggðasamlagi um Safnahús og gerð þjónustusamninga við fyrri meðeigendur. Sérstakur vinnuhópur um starfsemina var skipaður í framhaldinu og skilaði hann áliti sínu í mars.  Það álit hefur verið megin leiðarljós starfseminnar á árinu auk menningarstefnu sveitarfélagsins sem menningarnefnd vann og samþykkt var í sveitarstjórn í október (sjá www.borgarbyggd.is). Ása Harðardóttir sagði upp starfi sínu sem forstöðumaður í byrjun árs og eru henni hér með færðar þakkir fyrir gott og óeigingjarnt starf í þágu safnanna. Núverandi forstöðumaður er Guðrún Jónsdóttir menningarfulltrúi.

 

Á árinu lauk Pourquoi-pas? sýningunni sem staðið hafði í rétt ár og var hún höfð opin alla daga sumarsins 2007 með dyggri aðstoð eldri borgara í Borgarfirði sem stóðu vaktina ásamt starfsfólki Safnahúss. Margar uppákomur voru á árinu og tókust vel. Söfnunum voru færðar góðar gjafir og er gott til þess að vita að þau eiga sér hollvini úti í samfélaginu.

 

Starfsfólk Safnahúss sendir nú frá sér þessa skýrslu yfir starfsemina á árinu og þakkar um leið gott og gefandi samstarf við íbúa Borgarfjarðar og aðra þá sem hafa látið sig málefni menningararfsins varða.

 

Guðrún Jónsdóttir

Jóhanna Skúladóttir

Sigrún Elíasdóttir

Sævar Ingi Jónsson

 

 

Ljósmynd með frétt: Á sýningunni um strand rannsóknaskipsins Pourquoi-pas? við Straumfjörð 1936/GJ

Categories:

Tags:

Comments are closed