Byggðasafninu barst merkur gripur á dögunum, gamalt altari frá Hjörsey á Mýrum. Því fylgdi sú saga að það væri ekki úr síðustu kirkju þar heldur enn eldri kirkju. Því má gera því skóna að það sé að minnsta kosti 150 ára gamalt. Kirkja var aflögð í Hjörsey árið 1896. Hún tilheyrði Hítarnesþingum en kirkjur þar voru þá þrjár, á Kolbeinsstöðum, Ökrum og í Hjörsey.  Gefandi altarsins er Magnús Þórarinn Öfjörð, en það var síðast í eigu móður hans, Sigríðar Jónsdóttur miðils.  Á fyrri hluta 20. aldar var það í eigu Auðar Rútsdóttur, en móðir hennar var Sigríður, dóttir Guðjóns Jónssonar sem var bóndi í Hjörsey 1879–1883. Hálfbróðir Sigríðar Guðjónsdóttur var afi gefanda: Jón Guðjónsson.  Altarið ber eilítil merki þess að hafa lent í bruna. Það er málað viðarmynstri í brúnum lit og í því eru tvær hillur.  Með þessari fallegu gjöf fylgdi altarisdúkur sem Sigríður Jónsdóttir hafði saumað þegar hún var nemandi á Varmalandi um 1950.

 

Lokað er í Safnahúsi yfir páskana, dagana 2. apríl til og með 6. apríl. Opnað verður aftur kl. 13.00 þriðjudaginn 7. apríl. 

 

 

The museum is closed from April 2th to April 6th. We open again tuesday 7th of April.

 

 Í dag fagnar Þorsteinn Þorsteinsson lífefnafræðingur frá Húsafelli níræðisafmæli sínu. Þorsteinn er mörgum Borgfirðingum að góðu kunnur og hefur sinnt ýmsum fræðistörfum og ritað fjölmargar sérfræðigreinar í erlend tímarit og innlend.  Eiginkona hans er Edda Emilsdóttir meinatæknir og eru börn þeirra fjögur:  Ingibjörg, Björn, Þorsteinn og Margrét. Þorsteinn hefur verið ötull velgjörðarmaður safnanna, lagt þar inn efni og miðlað af yfirgripsmiklum fróðleik sínum.  Jafnframt hefur hann lagt Sögufélagi Borgarfjarðar lið og skrifað greinar í Borgfirðingabók m.a. um ógleymanlegar persónur í héraði og starfshætti sem brátt eru að gleymast.

 

Starfsfólk Safnahúss Borgarfjarðar óskar Þorsteini innilega til hamingju með tímamótin.

 

Myndatexti: Þorsteinn ásamt Ástríði systur sinni í heimsókn í Safnahúsi í september 2014. Mynd: Guðrún Jónsdóttir.

 

 

Hópur nemenda Menntaskóla Borgarfjarðar sótti Safnahús heim í morgun ásamt kennara sínum Lilju S. Ólafsdóttur. Þau skoðuðu Pálssafn og kynntu sér m.a. fyrstu útgáfur passíusálmanna, en fengu einnig kynningu á nútímalist og skoðuðu sýningu Loga Bjarnasonar, Morphé.  Rætt var m.a. um ólík tjáningarform og samruna listforma svo sem bókmennta, leiklistar, höggmyndalistar og leiklistar.

 

Pálssafn er fallegt einkabókasafn sem gefið var Safnahúsi fyrir þrjátíu árum af höfundi þess og eiganda, Páli Jónssyni frá Örnólfsdal.  Þar má finna marga gimsteina, meðal annars þrjár af fyrstu útgáfum Passíusálmana. Það var Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður sem sagði frá bókakosti Pálssafns og Guðrún Jónsdóttir forstöðumaður Safnahúss fjallaði um nútímalist og sýningu Loga Bjarnasonar.

Um hundrað manns samglöddust Loga Bjarnasyni á opnun sýningar hans í Hallsteinssal s.l. laugardag. Sýningin sem hefur hlotið nafnið Morphé (gríska: form) er nútímalistsýning þar sem hið hefðbundna málverk blandast öðrum listformum. Sýningin verður opin kl. 13.00 - 18.00 og stendur fram til 13. apríl n.k.

Nú líður að lokum sýningar Michelle Bird og hefur aðsókn að henni verið einstaklega góð.  Næsta listverkefni Safnahúss er sýningin Morphé sem opnuð verður laugardaginn 28. febrúar kl. 13.00. Þetta er listsýning Loga Bjarnasonar, ungs myndlistarmanns frá Borgarnesi.  Logi stundaði nám við Myndlistarskólann í Reykjavík, tók þar á eftir B.A próf við Listaháskóla Íslands og lauk síðan M.A prófi frá Städelschule í Frankfurt  Þýskalandi. Hann hefur tekið þátt í mörgum sýningum bæði hérlendis og erlendis. Logi hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, t.d styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur, listamannalaun 2015 og hefur nýverið verið með vinnustofur bæði í París og Berlín. Nú heimsækir hann sína heimabyggð sem listamaður með fjölþætta menntun og reynslu.  Hann sýnir nýstárleg verk, leikur sér að hlutbundnu og óhlutbundnu þar sem mörkin á milli málverka og skúlptúra eru óljós. Hann kristallar áhuga sinn á málverkinu með því að rannsaka mörkin á milli listmiðla sem liggja oft þvert yfir hvorn annan. Hann sækir efnistök í minningar sem oftar en ekki liggja á milli svefns og vöku. 

Starfsemi Safnahúss var lífleg á árinu sem leið og má sjá nokkrar myndir frá því með því að smella hér.

Um leið vekjum við athygli á nokkrum þegar dagsettum viðburðum hjá okkur árið 2015.

 

  • Laugardaginn 28. febrúar kl. 13.00 verður listsýning Loga Bjarnasonar opnuð.
  • Á sumardaginn fyrsta (23. apríl) kl. 15.00 verða tónleikar nemenda Tónlistarskóla Borgarfjarðar þar sem flutt verða lög við ljóð kvenna frá Ásbjarnarstöðum í Stafholtstungum.  Við sama tækifæri verður sýningin Gleym þeim ei opnuð, en þar er saga 15 borgfirskra kvenna sögð í tilefni af 100 ára kjörgengisafmæli kvenna á Íslandi.
  • Laugardaginn 7. nóvember kl. 13.00 verður opnuð sýning á teikningum Bjarna Guðmundssonar.

 

Þess má geta að málverkasýningu Michelle Bird  lýkur 25. febrúar. Listasmiðja hennar hefur verið á föstudögum en fellur niður 13. febrúar. Næsta og síðasta smiðja verður því föstudaginn 20. febrúar 14.00 – 16.00.

Mánudaginn 9. febrúar verður lokað í Safnahúsi vegna jarðarfarar Egils Ólafssonar blaðamanns. Egill hóf störf við ritun á sögu Borgarness fyrir réttu ári síðan og var með starfsaðstöðu í Safnahúsi. Þar er hans nú minnst með hlýhug sem góðs félaga og vandaðs manns sem vann verk sitt af stakri samviskusemi og alúð. Starfsfólk Safnahúss sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur.

Á föstudögum kl. 14.00 – 16.00 verður Michelle Bird með opna listasmiðju á sýningu sinni í Safnahúsi. Fólki á öllum aldri er boðið að koma og teikna og mála undir leiðsögn. Listasmiðjan verður í fyrsta sinn 16. janúar.  Krakkar eru sérstaklega hvattir til að koma, þeir eru alltaf áhugasamir um að teikna! Hægt er að mæta eins marga föstudaga og maður vill fram að því að sýningarlokum 25. febrúar; gjaldfrjálst.

Fyrsta verkefni Safnahúss á nýbyrjuðu ári verður opnun sýningar á verkum Michelle Bird þann 10. janúar n.k. kl. 13.00.  Michelle er listamaður sem hefur nýlega sest að í Borgarnesi með heimili sitt og vinnustofu. Á sýningunni verða listaverk sem mótuð eru undir hughrifum af fallegum nýjum búsetustað, nágrenni hans og mannlífi.  Allir eru velkomnir á opnunina og Michelle verður á staðnum til kl. 16.00 þann dag. Sýningin verður í framhaldinu opin virka daga frá kl. 13.00 – 18.00 og stendur til 25. febrúar.