Byggðasafninu barst merkur gripur á dögunum, gamalt altari frá Hjörsey á Mýrum. Því fylgdi sú saga að það væri ekki úr síðustu kirkju þar heldur enn eldri kirkju. Því má gera því skóna að það sé að minnsta kosti 150 ára gamalt. Kirkja var aflögð í Hjörsey árið 1896. Hún tilheyrði Hítarnesþingum en kirkjur þar voru þá þrjár, á Kolbeinsstöðum, Ökrum og í Hjörsey.  Gefandi altarsins er Magnús Þórarinn Öfjörð, en það var síðast í eigu móður hans, Sigríðar Jónsdóttur miðils.  Á fyrri hluta 20. aldar var það í eigu Auðar Rútsdóttur, en móðir hennar var Sigríður, dóttir Guðjóns Jónssonar sem var bóndi í Hjörsey 1879–1883. Hálfbróðir Sigríðar Guðjónsdóttur var afi gefanda: Jón Guðjónsson.  Altarið ber eilítil merki þess að hafa lent í bruna. Það er málað viðarmynstri í brúnum lit og í því eru tvær hillur.  Með þessari fallegu gjöf fylgdi altarisdúkur sem Sigríður Jónsdóttir hafði saumað þegar hún var nemandi á Varmalandi um 1950.