Nú líður að lokum sýningar Michelle Bird og hefur aðsókn að henni verið einstaklega góð.  Næsta listverkefni Safnahúss er sýningin Morphé sem opnuð verður laugardaginn 28. febrúar kl. 13.00. Þetta er listsýning Loga Bjarnasonar, ungs myndlistarmanns frá Borgarnesi.  Logi stundaði nám við Myndlistarskólann í Reykjavík, tók þar á eftir B.A próf við Listaháskóla Íslands og lauk síðan M.A prófi frá Städelschule í Frankfurt  Þýskalandi. Hann hefur tekið þátt í mörgum sýningum bæði hérlendis og erlendis. Logi hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir list sína, t.d styrk úr sjóði Guðmundu Andrésdóttur, listamannalaun 2015 og hefur nýverið verið með vinnustofur bæði í París og Berlín. Nú heimsækir hann sína heimabyggð sem listamaður með fjölþætta menntun og reynslu.  Hann sýnir nýstárleg verk, leikur sér að hlutbundnu og óhlutbundnu þar sem mörkin á milli málverka og skúlptúra eru óljós. Hann kristallar áhuga sinn á málverkinu með því að rannsaka mörkin á milli listmiðla sem liggja oft þvert yfir hvorn annan. Hann sækir efnistök í minningar sem oftar en ekki liggja á milli svefns og vöku.