Á morgun, fimmtudaginn 16. des. kl. 17.00 verður opnuð ljósmyndasýning í anddyri bókasafns í Safnahúsi. Um er að ræða myndir úr Borgarfirði, verk Írisar Stefánsdóttur ljósmyndara. Heiti sýningarinnar er úr kvæðinu Fylgd eftir Guðmund Böðvarsson skáld frá Kirkjubóli, en Íris dvaldi oft í Hvítársíðu í sumarhúsi fjölskyldu sinnar og á þaðan góðar minningar.  

 

Íris er faglærður ljósmyndari með 3ja ára nám í ljósmyndun frá Istituto Europeo di Design í Mílanó, Ítalíu. Hún útskrifaðist með hæstu einkunn í júlí 2009. Íris býr í Ancona á Ítalíu og rekur eigið ljósmyndaver sem sérhæfir sig í auglýsingaljósmyndun. Hún lagði áherslu á fréttaljósmyndun í námi sínu og hefur sýnt ljósmyndir á sýningum á Íslandi, Ítalíu og víðar.

 

Allir velkomnir - boðið verður upp á veitingar.

Í gær var fyrsti dagur sýningar á verkum Birgis Björnssonar og var opnunin ágætlega sótt. Meðal þeirra sem komu var Jón Marinó sonur Birgis, sem býr ásamt fjölskyldu sinni í Mosfellsbæ. Kom hann með nokkrar myndir sem hann lánaði til viðbótar á sýninguna. Meðfylgjandi mynd var tekin af fjölskyldunni við opnunina ásamt fulltrúum körfuboltadeildar Skallagríms, en deildin fær allan ágóða af þeim verkum sem seljast.

Næstkomandi þriðjudag kl. 17.00 verður opnuð í Safnahúsi sýning á málverkum eftir Borgnesinginn Birgi Björnsson. Um er að ræða sölusýningu í samstarfi Safnahúss og körfuboltadeildar Skallagríms, sem á verkin og rennur allur söluhagnaður af þeim til starfsemi hennar. Myndirnar á sýningunni eru gjöf til deildarinnar frá fjölskyldu Birgis, en hann lést í árslok 2009. Sýningin mun standa til 14. desember n.k.

Tæplega sjötíu manns komu á opnun ljóðasýningar barna í Safnahúsi í gær og er þar um metaðsókn að ræða. Á sýningunni eru sýnd ljóð krakka í 5. bekkjum grunnskólanna í héraðinu og að þessu sinni tóku eftirtaldir þátt:  Grunnskóli Borgarfjarðar á Kleppjárnsreykjum og í Varmalandi og Grunnskólinn í Borgarnesi. Ljóðin eru alls 55 og eftir jafn marga krakka.  Dæmi um eitt þeirra má sjá hér á eftir, en það er ljóð eftir Guðjón Snæ sem er nemandi á Kleppjárnsreykjum:

Miðvikudaginn 17.nóv. kl. 16:30 verður opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar árleg ljóðasýning nemenda fimmtu bekkja í grunnskólunum í nágrenninu. Sýningin er sett upp á vegum héraðsbókasafnsins í tilefni af Degi íslenskrar tungu þann 16.nóv og er Hildur M. Jónsdóttir frá Brúðuheimum sérstakur gestur við opnunina.  Að venju verður vakin athygli á borgfirsku skáldi við þetta tækifæri og að þessu sinni er það Elín Eiríksdóttir frá Ökrum, en í ár eru 110 ár frá fæðingu hennar.  Sagt verður frá Elínu og sungið lag og ljóð eftir hana við undirleik tveggja ungra gítarleikara úr Borgarnesi. Sjá má nánar um Elínu með því að smella hér.

Félag héraðsskjalavarða á Íslandi, verður með opið hús í Borgarskjalasafni Reykjavíkur, Grófarhúsi, Tryggvagötu 15, Reykjavík laugardaginn 13. nóvember 2010 kl. 13.00 til 17.00 í tilefni af Norrænum skjaladegi. Opna húsið í Borgarskjalasafni er undir kjörorðinu: Eins og vindurinn blæs...

Sextán héraðsskjalasöfn, og þar á meðal Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar, taka þátt í opna húsinu með einum eða öðrum hætti. Boðið verður upp á áhugaverða fyrirlestra, sýningu á skjölum, ljósmyndasýningar frá héraðsskjalasöfnunum, kórtónleika, sögufélög kynna rit og mynddiska, barnakrókur þar sem börnin fá blöðru og litabók, kynnt verður starfsemi héraðsskjalasafnanna og fleira. Aðgangur er ókeypis og öllum heimill.  

Í síðustu viku kom hópur eldri borgara frá Akranesi í sérstökum erindagjörðum í Safnahús. Um var að ræða bókmenntaklúbb, sem hafði beðið um kynningu á þremur borgfirskum skáldum, þeim Guðmundi Böðvarssyni, Þorsteini frá Hamri og Böðvari Guðmundssyni.  Af þessu tilefni var sett upp sérstök dagskrá fyrir hópinn þar sem flutt voru erindi, lesnir upp textar og hlustað á tóndæmi. Að því loknu var flutt stutt kynning á Pálssafni og safnið skoðað í framhaldinu.  Því næst var sýningin Börn í 100 ár skoðuð og fengin leiðsögn um hana.

Húsfyllir var á sagnakvöldi  Safnahúss s.l. fimmtudag, en þar voru flutt  lög af nýjum geisladiski Þorvaldar Jónssonar og lesið upp úr bók Braga Þórðarsonar um Sæmund Sigmundsson.  Alls mættu um 140 manns á dagskrána þetta kvöld og er það aðsóknarmet.

Dagana 25. - 28. október verður hægt að sjá heimildamynd Óskars Þórs Óskarssonar um Sæmund Sigmundsson í Safnahúsi Borgarfjarðar. Einnig verður hægt að hlusta á lög af nýjum hljómdiski Þorvaldar Jónssonar (Valda) í Brekkukoti. Þetta er gert af því tilefni að næstkomandi fimmtudag, 28. október, verður sagnakvöld í Safnahúsi helgað Sæmundi og Valda. Þá verður lesið upp úr nýrri bók Braga Þórðarsonar um Sæmund og Valdi flytur nokkur lög af diskinum sínum.

Fimmtudagskvöldið 28. október n.k. stendur Safnahús Borgarfjarðar fyrir sagnakvöldi í sýningarrými sýningarinnar Börn í 100 ár á neðri hæð. Þar verður nýtt borgfirskt efni kynnt, annars vegar bók Braga Þórðarsonar um Sæmund Sigmundsson og hins vegar geisladiskur Þorvaldar Jónssonar í Brekkukoti.  

 

Bragi Þórðarson fjallar um og les upp úr bókinni Sæmundarsaga rútubílstjóra sem er eins og nafnið gefur til kynna ævisaga eins

þekktasta rútubílstjóra Íslands, Sæmundar Sigmundssonar í Borgarnesi. Þess má geta að á bókarkápu kemur fram að talnaglöggir menn hafi reiknað það út að hann hafi ekið vegi landsins sem svarar 17 ferðum til tunglsins.

 

Þorvaldur Jónsson (Valdi í Brekkukoti) tekur lagið og kynnir nýjan geisladisk sinn Tínt upp úr skúffum sem geymir ellefu lög hans frá ýmsum tímum.  Valdi hefur dundað sér við að setja saman lög í nokkra áratugi.  Sum laganna hafa verið spiluð í Dægurlagakeppni Ungmennafélags Reykdæla, en flest þeirra hafa ekki hljómað fyrr opinberlega eins og fram kemur í nýlegri frétt í Skessuhorni. Upptökustjórn var í höndum Sigurðar Rúnar Jónssonar (Didda fiðlu) í stúdíói Stemmu í Reykholti en kórupptökur voru gerðar í Reykholtskirkju.