Fimmtudagskvöldið 28. október n.k. stendur Safnahús Borgarfjarðar fyrir sagnakvöldi í sýningarrými sýningarinnar Börn í 100 ár á neðri hæð. Þar verður nýtt borgfirskt efni kynnt, annars vegar bók Braga Þórðarsonar um Sæmund Sigmundsson og hins vegar geisladiskur Þorvaldar Jónssonar í Brekkukoti.  

 

Bragi Þórðarson fjallar um og les upp úr bókinni Sæmundarsaga rútubílstjóra sem er eins og nafnið gefur til kynna ævisaga eins

þekktasta rútubílstjóra Íslands, Sæmundar Sigmundssonar í Borgarnesi. Þess má geta að á bókarkápu kemur fram að talnaglöggir menn hafi reiknað það út að hann hafi ekið vegi landsins sem svarar 17 ferðum til tunglsins.

 

Þorvaldur Jónsson (Valdi í Brekkukoti) tekur lagið og kynnir nýjan geisladisk sinn Tínt upp úr skúffum sem geymir ellefu lög hans frá ýmsum tímum.  Valdi hefur dundað sér við að setja saman lög í nokkra áratugi.  Sum laganna hafa verið spiluð í Dægurlagakeppni Ungmennafélags Reykdæla, en flest þeirra hafa ekki hljómað fyrr opinberlega eins og fram kemur í nýlegri frétt í Skessuhorni. Upptökustjórn var í höndum Sigurðar Rúnar Jónssonar (Didda fiðlu) í stúdíói Stemmu í Reykholti en kórupptökur voru gerðar í Reykholtskirkju.