Húsfyllir var á sagnakvöldi  Safnahúss s.l. fimmtudag, en þar voru flutt  lög af nýjum geisladiski Þorvaldar Jónssonar og lesið upp úr bók Braga Þórðarsonar um Sæmund Sigmundsson.  Alls mættu um 140 manns á dagskrána þetta kvöld og er það aðsóknarmet.

Dagskráin hófst með ávarpi Guðrúnar Jónsdóttur forstöðumanns, en síðan kom Þorvaldur Jónsson fram og söng lög af diskinum sínum. Þar næst las Bragi Þórðarson upp úr bókinni um Sæmund og loks söng Þorvaldur fleiri lög.

 

Meðal þess sem fram kom í ávarpi forstöðumanns var að æskilegt væri að komið yrði á fót safni um fornbíla Sæmundar Sigmundssonar í Borgarnesi og væri það löngu orðið tímabært.

 

Að lokinni dagskrá var mynd Óskars Þórs Óskarssonar um Sæmund sýnd og boðið upp á heitt súkkulaði og kleinur. Einnig voru þá áritaðar bækur og geisladiskar.  

 

Myndin er tekin í upphafi dagskrár og sést að innst í salnum þurfti fólk að standa, en ekki voru til fleiri stólar í húsinu – ljósm. Guðrún Jónsdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed