Sumarvertíðin er nú komin á fullt í Safnahúsi og sumarfólk komið til starfa, þau Anna Þórhildur Gunnarsdóttir, Bjarki Þór Grönfeldt Gunnarsson og Halldór Óli Gunnarsson. Anna verður mest við sýningavörslu, Bjarki mest á bókasafni og Halldór vinnur að sérverkefni tengdu listasafni. Þau eru öll boðin hjartanlega velkomin til starfa í sumar.  Auk þeirra starfa eftirtalin í Safnahúsi:  Guðrún Jónsdóttir, Helga Jóhannsdóttir, Jenny Johansen, Jóhanna Skúladóttir og Sævar Ingi Jónsson.  Annasamt hefur verið á söfnunum síðustu vikur og mánuði við að taka á móti hópum, sérlega hafa skólahópar verið duglegir að skoða sýningar og fá fróðleik um fólk og málefni.

Við opnunina á sýningunni um Guðmund skáld á Kirkjubóli flutti Böðvar sonur hans vandað og gott erindi um föður sinn. Erindið nefndi hann: „Hvernig leit veröldin út fyrir 110 árum?“ Þar fjallaði hann m.a. um tíðaranda aldamótanna 1900 og fyrstu áratuga 20. aldarinnar sem setti svip á ljóðagerð föður hans alla ævi. 

 

Sjá má erindi Böðvars með því að smella hér.

 

Sýningin um Guðmund Böðvarsson heitir Landið sem þér er gefið. Þar má annars vegar sjá útskurðarmuni eftir hann og ljóð sem valin hafa verið með heiti sýningarinnar að leiðarljósi. 

Á morgun (1. maí) hefst sumaropnun í Safnahúsi en í því felst að sýningar eru opnar alla daga kl. 13.00 - 17.00.

Opið á öðrum tímum skv. samkomulagi.

 

Sumaropnun gildir til 1. september.

 

Sýningar hússins í sumar eru þrjár, Börn í 100 ár, Ævintýri fuglanna og Landið sem þér er gefið, sýning um Guðmund Böðvarsson skáld á Kirkjubóli.

 

Bókasafnið er eftir sem áður opið alla virka daga 13.00 – 18.00 árið um kring.

 

Héraðsskjalasafnið er opið 13.00 – 16.00 alla virka daga og einnig 08.00 - 12.00 skv. samkomulagi

Við opnun sýningarinnar um Guðmund Böðvarsson fluttu nemendur og kennarar Tónlistarskólans lög við ljóð Guðmundar, flest frumsamin.  Yngsti nemendinn sem flutti eigin tónsmíð var Sara Sól Guðmundsdóttir sem flutti lag við ljóðið vorið góða með dyggri aðstoð kennara síns Jónínu Ernu Arnardóttur.  Mikið fjölmenni var viðstatt opnunina og Fornbílafélag Borgarfjarðar stillti fornbílum upp í heiðursvörð við inngang sýningarinnar á meðan á henni stóð.

Á sumardaginn fyrsta þann 24. apríl n.k. kl. 13.00 verður opnuð ný sýning í Safnahúsi.  Um er að ræða minningarsýningu um Guðmund Böðvarsson skáld (1904-1974) og er hún unnin með mikilli þátttöku ungs fólks. Verkefnið er unnið í samstarfi Safnahúss og Tónlistarskóla Borgarfjarðar með þátttöku grunnskólanna í héraðinu.   Sýningarhönnun er í höndum tveggja ungra hönnuða, Magnúsar Hreggviðssonar og Sigursteins Sigurðssonar.  Sýningin mun standa fram í september. 

Ársskýrsla Safnahúss fyrir árið 2013 er komin út, sjá hér til hliðar. Skýrslan er 25 síður og gefur góða mynd af starfsemi safnanna á árinu.  Höfundar eru þrír:  Guðrún Jónsdóttir, Jóhanna Skúladóttir og Sævar Ingi Jónsson.

Ný sýning hefur verið opnuð í Safnahúsi, um listasmiðinn Þórð Jónsson (1874-1962) frá Mófellsstöðum í Skorradal. Þórður var stórmerkur maður og afrek hans kraftaverki líkust.

 

Ljós hans í myrkrinu var að geta smíðað vandaða og nytsama gripi þrátt fyrir algert sjónleysi frá unga aldri.

 

Sýningin er í anddyri bókasafns.  Þar má sjá smíðisgripi Þórðar, muni úr eigu hans, ljósmyndir og fróðleik. 

 

Í dag fagnar Bjarni Valtýr Guðjónsson frá Svarfhóli í Hraunhreppi 85 ára afmæli sínu.  Hannhefur meðfram öðrum störfum, komið víða við á listabrautinni, verið kirkjuorganisti til 70 ára og samið og útsett fjölda sönglaga sem flutt hafa verið við margvísleg tilefni og sum hver verið gefin út.  Á allra síðustu árum hafa fjórar frumortar ljóðabækur litið dagsins ljós frá hans hendi, ennfremur ein ævintýrasaga, ein unglingabók og ein þýdd skáldsaga. Bjarni Valtýr skrifaði einnig sögu Ungmennafélagsins Bjarnar Hídælakappa, Með vorblænum, sem út kom árið 1974.  Hann var ritstjóri Kaupfélagsritsins í 17 ár og Borgfirðings í eitt ár.  Þá eru ótalin ýmis ritstörf önnur. 

Laugardaginn 8. febrúar kl. 14.00 verður opnuð ný sýning í Hallsteinssal, málverkasýning frístundamálarans Jóhönnu L. Jónsdóttur. Jóhanna var forstöðukona Listasetursins Kirkjuhvols á Akranesi í mörg ár og átti mikinn þátt í uppbyggingu þess. Hún er fædd á Akranesi 1951 og ólst þar upp. Hún tók meistarapróf í hárgreiðslu eftir hefðbundna skólagöngu og vann við það lengi en snéri sér síðan að gluggaútstillingum, með öðrum störfum, ásamt því að myndskreyta veggflísar fyrir flísaverslanir. Hún nam flísamálun hjá Tessera Designs í London á árunum 1986-1995 og stundaði nám við Myndlistaskóla Mosfellsbæjar árið 2010. 

Guðrún Brynjúlfsdóttir skáldkona fæddist á Kvígsstöðum í Andakíl 28.janúar 1904, þriðja í röð fimm barna hjónanna Brynjúlfs Jónssonar og Þórnýjar Þórðardóttur. Fyrstu níu ár ævi sinnar ólst Guðrún upp á bænum Veiðilæk í Norðurárdal en flutti þá í Borgarness og bjó þar til ársins 1932 er hún flutti til Reykjavíkur.  Guðrún var við nám í Hvítárbakkaskóla veturinn 1930-1931 og stundaði síðar söngnám og naut framsagnar í íslensku og ensku.  Hún var sjúklingur á Landakotsspítala árin 1935-1939 en sinnti eftir það saumaskap og barnagæslu í heimahúsum.  Guðrún hélt mikilli tryggð við þau börn sem hún gætti og hélt góðu sambandi við er þau uxu úr grasi en sjálf giftist hún ekki og eignaðist ekki afkomendur.