Í dag fagnar Bjarni Valtýr Guðjónsson frá Svarfhóli í Hraunhreppi 85 ára afmæli sínu.  Hannhefur meðfram öðrum störfum, komið víða við á listabrautinni, verið kirkjuorganisti til 70 ára og samið og útsett fjölda sönglaga sem flutt hafa verið við margvísleg tilefni og sum hver verið gefin út.  Á allra síðustu árum hafa fjórar frumortar ljóðabækur litið dagsins ljós frá hans hendi, ennfremur ein ævintýrasaga, ein unglingabók og ein þýdd skáldsaga. Bjarni Valtýr skrifaði einnig sögu Ungmennafélagsins Bjarnar Hídælakappa, Með vorblænum, sem út kom árið 1974.  Hann var ritstjóri Kaupfélagsritsins í 17 ár og Borgfirðings í eitt ár.  Þá eru ótalin ýmis ritstörf önnur. 

Hann hefur jafnframt starfað með fjölmörgum félögum, til að mynda hefur hann setið í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar allt frá stofnun þess árið 1963.

 

Hann hefur jafnframt starfað með fjölmörgum félögum, til að mynda hefur hann setið í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar allt frá stofnun þess árið 1963.

 

Um leið og Bjarna Valtý eru færðar bestu afmælisóskir er hér birt eitt kvæða hans, ljóðið Hvert sem ég lít úr samnefnri ljóðabók sem gefin var út árið 2013.  Hér sem víðar í skáldskap Bjarna Valtýs verður náttúran og ekki síður landið okkar honum að yrkisefni.  Steindór Andersen sá þekkti kvæðamaður, hefur einmitt kallað landið og söguna stóru ástina í lífi hans.

 

Hvert sem ég horfi á heiðríkri nótt

himinljós doka um stundirnar rótt

sumar að völdum þá situr.

Geislanna roði þá hækka fer hljótt,

hvarvetna draumfagur litur.

 

Hvar sem ég geng yfir hrjósturlend hraun,

heiðar og mosa, þá bíður sú raun

alla leið aftur að snúa.

Þó veitist mér aldregi verðugust laun

vil ég á landinu búa,

 

Hvort ég nú sigli frá vogi eða vík

veit ég að reynast þau áhrifin lík.

Hátt sig þá heiðarnar bera.

Sýnist vor ættjörð af sjónfegurð rík,

samleiknum eldsins og frera.

 

Hvert sem ég lít einhvern ljósbjartan dag

lóuna heyri ég þylja sinn brag,

dýrðina dásemdar róma.

Yrkir um sólina, ljóðar sitt lag

laðar fram eílífðar hljóma.

 

Categories:

Tags:

Comments are closed