Safnahús

Sýningunni 353 andlit lýkur

Sýningin 353 andlit lýkur brátt göngu sinni en hún var opnuð um miðjan júní s.l. Hefur hún fengið mikla aðsókn og hafa gestir verið mjög ánægðir með hana.  Á sýningunni má sjá ljósmyndir af mannlífi í Borgarnesi í upphafi 9. áratugarins með augum Helga Bjarnasonar blaðamanns sem steig sín fyrstu skref í blaðmennsku á þessum árum.  Á sýningunni má sjá myndir af jafn mörgum andlitum og titillinn segir til um ásamt myndskýringum Helga sem lagt hefur á sig ómælda vinnu við að afla upplýsinga um myndefnið.  Verkefnið var unnið með tilstyrk Safnaráðs íslands og Stéttarfélags Vesturlands og stendur fram til þriðjudagsins 22. september. Þess má geta að þetta er í annað sinn sem Helgi efnir til viðamikillar sýningar í Safnahúsinu og fjallaði sú fyrri um gömlu Hvítárbrúna við Ferjukot og var opnuð á 90 ára afmæli brúarinnar 1. nóvember 2018. Eru honum færðar innilegar þakkir fyrir óeigingjarnt starf í þágu safnanna. Næsta verkefni í Hallsteinssal er einkasýning Guðmundar Sigurðssonar myndlistarmanns sem lengi starfaði sem skólastjóri Grunnskólans í Borgarnesi. Verður hún opnuð í kyrrþey, en verður komin upp mánudaginn 28. september og verður eftir það opin virka daga 13 til 18. Ljósmynd: Helgi Bjarnason.

Bókasafnsdagurinn 2020

Bókasafnsdagurinn er haldinn hátíðlegur víða um land og minnt á mikilvægi bókasafna auk þess sem þetta er dagur starfsfólks bókasafnanna.  Héraðsbókasafnið fékk góða heimsókn í morgun þegar elstu börnin á leikskólanum Klettaborg komu og fengu lánþegaskirteini hjá Sævari Inga Jónssyni héraðsbókaverði. Öðrum börnum á leikskólanum voru svo afhent skírteini sín á leikskólanum sjálfum síðar um daginn.  Er þetta gert í tilefni af Degi læsis sem einnig er í dag.  Af þessu tilefni var einnig birt útstilling á safninu á sögu glæpasagnaformsins á Íslandi undir yfirskrift dagsins, Lestur er bestur, hryllilega spennandi.  Eru allir hvattir til þess að líta við á bókasafninu í dag og það er að venju opið frá 13-18. Mynd: GJ.

Breyting á viðburðaskrá

Myndamorgunn skjalasafnsins sem vera átti fimmtudaginn 10. september hefur verið felldur niður meðan beðið er átekta um framvindu sóttvarnarmála. Næsti myndamorgunn verður að óbreyttu fimmtudaginn 8. október kl. 10.00. Jarðfræðifyrirlestri Ívars Arnar Benediktssonar sem einnig átti að vera 10. september hefur verið frestað um sinn og verður ný dagsetning tilkynnt síðar. Næsta sýningaropnun er að óbreyttu fyrirhuguð 26. september. Í Safnahúsi er náið fylgst með þróun mála í samfélaginu og stefnt á áframhaldandi öflugt menningarstarf um leið og aðstæður leyfa.

Vetraropnun frá 1. sept.

Vetraropnun á sýningar tók gildi 1. september og er nú ekki lengur opið um helgar.  Sjá má nánar um opnunartíma með því að smella hér. Aðsókn hefur verið afar góð í sumar og þökkum við þeim fjölmörgu gestum kærlega fyrir komuna. Til viðbótar við grunnsýningarnar tvær eru þrjár aðrar sýningar í húsinu, sýningin 353 andlit (ljósmyndir Helga Bjarnasonar), Saga úr samfélagi (framtak Eyglóar Lind Egilsdóttur á tímum Covid) og spjaldasýning um þann harmræna atburð sem átti sér stað vestur af Mýrum árið 1936 þegar franska rannsóknaskipið Pourquoi pas strandaði og mikið mannfall varð.  Sú sýning er einnig í boði sem vefsýning. Við minnum á að þrátt fyrir vetraropnunartíma er eftir sem áður er opnað um helgar fyrir hópa (10+).

Andrés Önd og Hobbitinn

Sumarlestur barna var á sínum stað í sumar og voru alls kyns bækur lesnar, allt frá Andrési Önd til Hobbitans. Eins og síðustu tvö ár á undan teiknaði Ragnheiður G. Jóhannesdóttir einkennismynd Sumarslesturs (sjá mynd) og nokkrir bekkir Grunnskólans í Borgarnesi komu í heimsókn á safnið áður en átakið fór af stað.  Í ár tóku 26 krakkar þátt og lásu 174 fjölbreyttar og spennandi bækur, allt valið eftir áhuga og getu viðkomandi.  Vegna veirunnar var árleg uppskeruhátíð blásin af þetta árið en  þátttakendur beðnir þess í stað að koma á bókasafnið á opnunartíma þess og sækja þar verðlaun og viðurkenningar fyrir gott verk. Tíu heppnir þátttakendur fengu bókaverðlaun og allir fengu Lestrargóðgæti frá Eddu Útgáfu og nytsamlegt dót frá Tækniborg og Arion banka. Vonandi verður hátíðin haldin með sínu rétta pompi og prakt á næsta ári.  Héraðsbókasafnið gekkst fyrir þessu ágæta verkefni nú sem endranær og umsjón hafði Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður með aðstoð Sandra Sjabanssonar sumarstarfsmanns bókasafnsins.

Góð aðsókn í sumar

Starfsfólk Safnahúss hefur fagnað mörgum góðum gestum það sem af er sumri. Fimm sýningar eru í húsinu, þar af tvær sem opnaðar voru í júní. Annars vegar er það sýning Helga Bjarnasonar 353 andlit. Heitið vísar til þess að á sýningunni eru ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir, myndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Sýningin Saga úr samfélagi var opnuð 27. júní, en þar segir frá framtaki Eyglóar Lind Egilsdóttur  í Borgarnesi, sjö barna móður og ömmu sem gladdi marga á erfiðum Covid-tímum í vor með því að búa sig upp í mismunandi búninga og guða á gluggann hjá barnabörnum sínum í sóttkví.  Sonja dóttir hennar náði myndum af þessu og skrifaði skýringartexta. Með fleiri myndum er á sýningunni varpað frekara ljósi á konuna að baki þessu vinsæla framtaki. Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Hafa þær verið vel sóttar í sumar. Auk þessa eru eldri sýningar s.s. sýning um harmleikinn sem varð haustið 1936 þegar franska rannsóknaskipið Pourquoi pas strandaði við Straumfjörð. Auk þessa eru nokkrar vefsýningar uppi allt árið hér á heimasíðunni og má sem dæmi nefna…

Frásögn af háskaferð

Safnahús var með innlegg í félagsstarf aldraða að Borgarbraut 65a í Borgarnesi í hádeginu, sem hluta af sumardagskrá á vegum félagsstarfsins. Það er Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir sem skipuleggur dagskrána og er hér á mynd með þátttakendum, sem hlýddu á Guðrúnu Jónsdóttur safnstjóra rifja upp skrif Kristleifs Þorsteinssonar um háskaferð frostaveturinn 1881 frá Húsafelli til Reykjavíkur. Þess má geta að það verður fjölbreytt og skemmtileg dagskrá hjá félagsstarfinu næstu þrjár vikurnar sem hægt er að nálgast á heimasíðu Borgarbyggðar. Kristleifur ÞorsteinssonKristleifur var fæddur árið 1861 og lést 1952. Hann var þekktur fyrir vandaða sagnaritun um borgfirska hætti og sögu. Minni hans var afar gott og gat hann lýst atvikum úr bernsku sinni með glöggum hætti. Meðal rita sem eftir hann liggja er Úr byggðum Borgarfjarðar, greinasafn um mannlíf og verkhætti í Borgarfirði. Hann átti einnig stærstan þátt í Héraðssögu Borgfirðinga og ritaði fjölda greina auk fréttapistla sem hann sendi  reglulega í Lögberg, annað blað Íslendinga vestan hafs í um þrjátíu ár. Kristleifur náði háum aldri og hélt áfram að skrifa á meðan heilsan leyfði. Ljósmynd (GJ) f.v.: Fanney Hannesdóttir, Júlíana Hálfdánardóttir,  Sveinn Hallgrímsson, Ása Sigurlaug Halldórsdóttir, Guðbjörg Svavarsdóttir, Sigrún D. Elíasdóttir, Guðrún Karitas Hallgrímsdóttir og Gerður Karitas Guðnadóttir.

Starfsemin sumarið 2020

Alls eru fimm sýningar í gangi í Safnahúsi í sumar og sumarlesturinn er hafinn á bókasafninu. Margir voru orðnir bókþyrstir eftir lokun safnanna í vor og fólk hefur verið duglegt að sækja sér bækur. Ný sýning var opnuð um miðjan júní og hefur hún fengið heitið 353 andlit (sjá mynd). Heitið vísar til þess að á sýningunni eru ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir, myndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga Bjarnasonar sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Sú sýning verður opin fram í september. Sýningin Saga úr samfélagi (sjá mynd) var opnuð 27. júní, en það er segir frá framtaki Eyglóar Lind Egilsdóttur  í Borgarnesi, sjö barna móður og ömmu í Borgarnesi sem gladdi marga á erfiðum Covid-tímum í vor með því að búa sig upp í mismunandi búninga og guða á gluggann hjá barnabörnum sínum í sóttkví.  Sonja dóttir hennar náði myndum af þessu og skrifaði skýringartexta. Þær myndir hefur hún góðfúslega samþykkt að gefa á Héraðsskjalasafnið. Með fleiri myndum er á sýningunni varpað frekara ljósi á konuna að baki þessu vinsæla framtaki. Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævinýri fuglanna, báðar hannaðar af Snorra Frey…

Alþjóðlegi safnadagurinn

Í dag er alþjóðlegi safnadagurinn 2020. Söfn um allan heim minnast hans með rafrænum hætti og leggja jafnframt áherslu á jafnrétti og fjölbreytileika í heiminum. Í Safnahúsi er sú leið farin að minnast mætrar konu sem var fædd í upphafi 20. aldar og bjó yfir ríkri réttlætiskennd, ekki síst varðandi réttindi kvenna. Þetta er skáldkonan Halldóra B. Björnsson frá Grafardal. Hennar er nú minnst hér á síðunni og við hvetjum fólk til að kynna sér ævi hennar og verk. Í tilefni dagsins er veittur ókeypis aðgangur á grunnsýningar safnanna.

Sýningar sumarið 2020

Sýningu Ingu Stefánsdóttur sem opna átti 16. maí var frestað um eitt ár, fram til 2021. Fram til 2. júní í sumar verða í Hallsteinssal sýndar landslagsmyndir frá nágrenni Húsafells, úr safneign Listasafns ASÍ. Þar má sjá verk eftir Ásgrím Jónsson, Jón Þorleifsson og Jón Stefánsson. Einnig eru þar sýnd verk í eigu Nýlistasafnsins eftir hollenska listamanninn og Íslandsvininn Douwe Jan Bakker. Sýningarstjóri er Elísabet Gunnarsdóttir safnstjóri Listasafns ASÍ. Fimmtudaginn 11. júní er svo upphafsdagur sýningarinnar 353 andlit undir sýningarstjórn Helga Bjarnasonar. Þetta er í annað sinn sem Helgi annast sýningarverkefni fyrir Safnahús, en hann var sýningarstjóri að sýningu um Hvítárbrúna sem sett var upp á 90 ára afmæli hennar árið 2018. Heitið 353 andlit vísar til þess að á sýningunni má sjá ljósmyndir þar sem 353 andlit koma fyrir. Um er að ræða ljósmyndir af mannlífi í Borgarnesi á fyrrihluta 9. áratugarins séð með augum Helga sem þá starfaði sem blaðmaður Morgunblaðsins á staðnum. Margt af myndunum sýnir verkafólk að störfum og er verkefnið stutt af Stéttarfélagi Vesturlands. Sýningin stendur fram í september. Á neðri hæðinni eru grunnsýningarnar Safnahúss, Ævintýri fuglanna og Börn í 100 ár. Þær eru opnar 13-17 alla daga sumarsins, aðgangseyrir er 1500 og ókeypis fyrir börn…