Safnahús

Gleðilega hátíð!

Opnunartími bókasafns yfir hátíðarnar: Opið alla virka daga 13-18 Lokað aðfangadag og gamlársdag   ENG Opening hours of library over the holidays: All weekdays 13-18 CLOSED on Dec 24th and Dec 31st  

Fantasíur – Jóhanna L. Jónsdóttir

        Opnun laugardaginn 2. október kl. 13:00-15:00. Verkin á sýningunni eru Fantasíur sem orðið hafa til við innblástur frá íslenskri náttúru, birtu hennar og árstíðabundnum litum; fantasíur sem fæðst hafa í huga Jóhönnu þegar hún starir á auðan strigann og umbreytir honum. Verkin eru unnin í olíu á striga. Sýningin stendur til 4. nóvember og er opin á opnunartíma Safnahúss, 13:00-18:00 virka daga.

Vefsíða um menningu fyrir börn

Safnahús er eitt menningarhúsanna á nýrri vefsíðu verkefnisins List fyrir alla. Þar er m.a. kynnt sýningin Börn í 100 ár sem er um börn og fyrir börn. Föstudaginn 3. september var opnuð ný upplýsingasíða um fjölþætta miðlun menningar til barna á vegum verkefnisins. List fyrir alla er á forræði mennta- og menningarmálaráðuneytisins og er ætlað að velja og miðla listviðburðum til barna og ungmenna um land allt. Sýningin Börn í 100 ár  er hluti þess menningarframboðs sem finna má á nýju vefsíðunni. Við hönnun hennar var sérstaklega hugað að þörfum barna og ungmenna og hefur hún reynst afar góð fyrir móttöku skólahópa. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu um menningarstefnu árið 2013 og var það í fyrsta skipti sem samþykkt var sérstök stefna íslenska ríkisins á sviði lista og menningararfs.  Stefnan snýr að aðkomu ríkisins að þeim málaflokkum.  Í henni eru fjórir meginþættir: Sköpun og þátttaka í menningarlífi, áhersla á gott aðgengi að listum og menningararfi, mikilvægi samvinnu stjórnvalda við aðila sem starfa á sviði menningar og loks mikilvægi þátttöku barna og ungmenna í menningarlífinu. Í menningarstefnu Borgarbyggðar má finna sama tón um áherslur á menningarstarf fyrir börn. Grunnsýningar Safnahúss taka mið af því og eru því báðar einkar vel til þess fallnar…

Vetraropnun frá 1. september

Vetraropnunartími á sýningum tók gildi í Safnahúsi 1. september og gildir hún fram til 1. maí.  Opið er á sýningar alla virka daga 13:00 til 16:00 eða eftir samkomulagi á öðrum tímum. Bókasafnið er eftir sem áður opið alla virka daga 13:00 – 18:00 og Skjalasafnið 13:00 – 16:00 alla virka daga og einnig 08:00 – 12:00 skv. samkomulagi.   Leitið frekari upplýsinga á www.safnahus.is, í síma 433 7200 eða sendið bréf á safnahus(hjá)safnahus.is.

Góð heimsókn í baðstofuna

Baðstofan frá Úlfsstöðum er mikil gersemi og er miðpunktur sýningarinnar Börn í 100 ár.  Þangað komu góðir prúðbúnir gestir í gær, þær Anna Dröfn Sigurjónsdóttir og Sigrún Elíasdóttir. Erindið var að taka upp myndband í baðstofunni. Þær stöllur vinna að ýmsum verkefnum saman, gjarnan á sviði ullarvinnslu, handverks og/eða þjóðlegra fræða (#sigrunoganna). Meðal þess sem þær hafa gert er að koma saman fram í hlaðvarpi Sigrúnar, Myrka Ísland. Í gær tóku þær upp kynningarefni fyrir dönsku prjónahátíðina Pakhusstrik sem haldin verður í Kaupmannahöfn nú í september. Þær útbjuggu af þessu tilefni myndræna kveðju til Dana og sýndarveruleikamyndband þannig að gestir á hátíðinni setja á sig sýndarveruleikagleraugu og eru þá staddir heima í baðstofu í tóvinnu. Þess má geta að þegar sýningin Börn í 100 ár var sett upp var Sigrún starfandi í Safnahúsi og átti mikinn þátt í hugmyndafræði hennar.  Það var svo Unnsteinn Elíasson bróðir hennar sem setti baðstofuna saman, en hún hafði verið tekin niður að tilhlutan Þjóðminjasafnsins árið 1974.

Hlúð að gögnum Júlíusar Axelssonar

Í vetur og sumar hefur verið unnið að flokkun og skráningu gagna og ljósmynda úr safni Júlíusar Axelssonar sem varðveitt er á Héraðsskjalasafni.  Unnið var úr seinni afhendingu Júlíusar, þar voru dagbækur hans, teikningar, skrif og þúsundir ljósmynda. Er þetta mikilvægur áfangi í því stóra verkefni að flokka og skrá allt það mikla safn sem var í eigu Júlíusar. Farið var yfir yfir 20 myndaalbúm. nokkur frá barnæsku hans og foreldrum en langflest frá honum (árin 1961-1994). Um 10 þeirra sýna uppbyggingu, viðburði og fólk í Borgarnesi á árunum 1995-1997. Myndirnar sýna ferðir Júlíusar, húsabyggingar í Borgarnesi og gatnaviðgerðir, margs konar aðra uppbyggingu og viðburði og ekki síst fólkið í bænum. Margt af skrifum Júlíusar var einnig skráð þar sem hann hafði búið til heilan heim með dagblöðum, ökutækjaskrá og sögum úr samfélaginu. Nú þegar er búið að skanna inn hunduð mynda af þeim 4147 sem voru skráðar. Þótt gríðarleg vinna sé ennþá eftir við að yfirfara og skrá gögn frá Júlíusar hefur markverður áfangi náðst og er það mikið ánægjuefni. Það var Lilja H. Jakobsdóttir félagsfræðingur sem vann verkið fyrir skjalasafnið og gerði það af mikilli alúð.  Uppbyggingarsjóður Vesturlands veitti verkefninu styrk sem skipti miklu máli í að það komst til framkvæmda. Þess…

Plan B í Safnahúsi

Í ár fer hluti af samtímalistahátíðinni Plan B fram  í Hallsteinssal og er það gjörningatvíeykið RebelRebel sem sýnir í salnum. Það er skipað listamönnunum Ragnheiði Bjarnarson og Snæbirni Brynjarssyni og þau hafa framið gjörninga á listasöfnum og galleríum, og sýnt dansverk á sviðslistahátíðum heima og erlendis. Einnig má nefna að Rebel Rebel á í reglulegu samstarfi við Onirisme Collective, sem er skipað listamönnum víðsvegar að úr heiminum, og rannsakar list í draumheimum. Sýning RebelRebel í Safnahúsi ber nafnið Ýta! eða Push á ensku. Hún stendur til 20. ágúst.  Opið er 13 til 18 virka daga og 13 til 17 á helgum. Við Safnahúsið er einnig myndverkið Nef eftir Loga Bjarnason. Vísar það til þess að Hallsteinn Sveinsson gaf Borgarnesingum stórt verðmætt listasafn sitt árið 1971.       

Sumar í Safnahúsi

Góð aðsókn er að sýningum þessar vikurnar og margir sækja bókasafnið heim. Við minnum á að síðasti sýningardagur Viktors Péturs Hannessonar er 29. júlí, sýning hans sem ber heitið Borgarfjarðarblómi er einstaklega falleg og helguð íslenskri náttúru. Næsta sýningarverkefni í Hallsteinssal er á vegum Listahátíðarinnar Plans B í Borgarnesi og má fylgjast með dagskránni á Facebook síðu hátíðarinnar og/eða á heimasíðu hennar.    Sunnudaginn 25. júlí tók gildi grímuskylda á söfnum og 1 metra nálægðarmörk milli ótengdra aðila. Við biðjum gesti okkar að taka tillit til þessa og gæta vel að handþvotti og notkun spritts.   Verið hjartanlega velkomin í Safnahúsið.  Sjá opnunartíma hér: https://safnahus.is/opnunartimar/

Hinsegin hátíð Vesturlands

Um næstu helgi verður hinsegin hátíð Vesturlands haldin í Borgarnesi. Samnefnt félag stendur fyrir hátíðinni, en það var stofnað í byrjun þessa árs.  Grunnsýningar Safnahúss eru tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Þar fá gestir tækifæri til að horfa á heiminn í gegnum sakleysi barna af öllum stigum samfélagsins og ganga út með þá vissu að mannkynið allt skuli vera frjálst eins og fuglinn.  Við óskum aðstandendum hátíðarinnar og samfélaginu öllu til hamingju með framtakið.

Góð aðsókn á sýningar

Góð aðsókn hefur verið á sýningar Safnahússins síðustu mánuði og er fjöldi gesta á fyrri helmingi þessa árs farin að nálgast tímabilið fyrir Covid.  Allnokkuð hefur verið um heimsóknir skólahópa og almennra hópa á grunnsýningarnar tvær, Börn í 100 ár og Ævintýri fuglanna. Einnig eru erlendir ferðamenn farnir að koma í auknum mæli auk innlendu ferðamannanna sem hafa verið duglegir að koma.  Aðsókn á skammtímasýningar hefur líka verið afar góð. Sýning Ingu Stefánsdóttur í Hallsteinssal er nýlokið og fékk hún mikla aðsókn. Núverandi sýning var opnuð s.l. helgi og stendur til 29. júlí. Hún ber heitið Borgarfjarðarblómi og þar má sjá verk Viktors Péturs Hannessonar. Þess má geta að Hallsteinssalur er nú bókaður til ýmiss konar miðlunarverkefna langt fram á árið 2023 sem staðfestir mikið samfélagslegt gildi hans. Ljósmynd: Sjálfboðaliðar frá Reykjavíkurdeild Rauða krossins komu nýverið til að skoða grunnsýningar safnanna.