Skemmtidagskrá Safnahúss Borgarfjarðar og Landnámssetursins.
Í kvöld les Einar Már Guðmundsson upp úr nýútkominni ljóðabók sinni Ég stytti mér leið fram hjá dauðanum. Einnig mæta Elísabet Eyþórsdóttir söngkona og Börkur Hrafn Birgisson lagasmiður og flytja ljóð Einars Más. Aðgangur er ókeypis.
Í Desembermánuði verður Snjólaug Guðmundsdóttir handverkskona frá Brúarlandi með sölu á handverki sínu, í Safnahúsinu 2.hæð. Meðal muna eru handofnir og þæfðir munir úr ull, skartgripir úr skeljum og steinum, ljóðakort og vatnslitamyndir. Opið alla virka daga frá 13-18, þriðjudaga og fimmtudaga frá 13-20.
Þann 1. desember n.k. verður frumflutt lag Hilmars Arnar Hilmarssonar við ljóð Guðmundar Böðvarssonar, Rauði steinninn, á steinhörpur Páls listamanns á Húsafelli í Hvítársíðu. Snorri á Fossum, Steindór Andersen, Gunnar Kvaran, Frank, hljómsveitin Sigurrós og fleiri valinkunnir vinir Páls munu heiðra okkur með nærveru sinni og sýna lipra takta á steinhörpuna hans.
Aðgangur ókeypis og allir velkomnir.
Vakin er athygli á því að 1. desember er síðasti dagur á yfirlitssýningu á verkum Páls í Safnahúsi Borgarfjarðar í Borgarnesi.
Dagskrá í samvinnu Safnahúss og Landnámsseturs tengd strandi franska rannsóknaskipsins Pourquoi Pas? á skerinu Hnokka fyrir 70 árum. Friðrik Rafnsson segir frá nýlega útkominni bók um ævi og störf Jean-Babtiste Charcot vísindamanns og skipstjóra Pourquoi Pas?. Sýnt verður viðtal sem Gísli Einarsson tók við Harald Sveinsson frá Álftanesi um kynni hans af skipverjum Pourquoi Pas? og merkilegar tilviljanir. Aðgangur ókeypis.
„GÓÐIR BORGFIRÐINGAR“ Skemmtikvöld Safnahússins og Landnámssetursins. Þar koma fram Bragi Þórðarson, Margrét Jóhannsdóttir og Bjarni Guðmundsson með sagnaefni og tónlist. Ókeypis aðgangur.
Á degi íslenskrar tungu í fyrra var opnuð í Safnahúsi Borgarfjarðar sýning á frumsömdum ljóðum og myndskreytingum nemenda fimmtu bekkja í grunnskólum héraðsins. Þátttaka var mjög góð og áttu sumir nemendur fleiri en eitt ljóð.
Einar Kárason, Tómas R. Einarsson og Halldór Guðmundsson kynna nýtt efni hver úr sinni smiðju.
Ókeypis aðgangur.
Í nóvember og desember verða haldnar í Landnámssetrinu í Borgarnesi kvöldskemmtanir í samvinnu Safnahússins og Landnámssetursins. Í boði verður fjölbreytt sagnaskemmtun, upplestrar og tónlist með frábærum listamönnum. Sjá dagskrá nánar á kvöldskemmtanir
Sýningin Pourquoi-Pas? - strandið, var opnuð með viðhöfn laugardaginn 16. september 2006. Sýningin er sett upp í Tjernihúsi, 120 ára gömlu pakkhúsi, sem Hollvinasamtök Englendingavíkur hafa nýverið lokið endurgerð á.
Sýningin Pourquoi-Pas? - strandið verður fyrst um sinn opin á laugardögum kl 13:00 - 17:00, til 11. nóvember n.k. Hún er einnig opin eftir eftirspurn. Allar nánari upplýsingar gefur forstöðumaður Safnahúss Borgarfjarðar, Ása S. Harðardóttir.
Föstudaginn 9. júní var í tilefni Borgfirðingahátíðar haldin samkoma í Safnahúsinu. Jónína Erna Arnardóttir, formaður menningamálanefndar Borgarbyggðar var kynnir.
Á dagskránni var opnun sýningar á ljósmyndum Guðbjargar Hörpu Ingimundardóttur. Haraldur Jónsson las upp úr bók sinni „Hugrenningur“. Fjögur börn lásu upp ljóð sín sem valin höfðu verið til birtingar í bókinni „Ljóð unga fólksins". Í Safnahúsinu eru einnig til sýnis myndverk úr rekavið eftir Lúkas Kárason og vettlingasafn Helgu Hansdóttur. Ljósmyndasýning Hörpu, verk Lúkasar og vettlingasafn Helgu verða áfram til sýnis næstu vikur.