Á föstudaginn síðastliðinn brá munavörður undir sig betri fætinum og heimsótti Menntaskólann í Hamrahlíð. Þangað hafði hún með sér ýmis lækningatól frá Páli Blöndal sýslulækni í Mýrar og Borgarfjarðarsýslum á 19.öld. Nemendur fengu að líta ýmis tól og tæki sem tengjast námsefni þeirra í vinsælu valnámskeiði í sögu sem nefnist Saga læknisfræðinnar.

Eins og margir hafa eflaust orðið varir við er nú hafin endurbygging svokallaðra Hlíðartúnshúsa í Borgarnesi. Hlíðartúnshúsin eru gömul útihús sem standa á holtinu vestan við Menntaskóla Borgarfjarðar í Borgarnesi og hafa verið aðdráttarafl fyrir ferðamenn undanfarna áratugi. Fyrst og fremst eru þau minjar um búsetumótun í Borgarnesi þar sem þeir íbúar sem ekki voru verslunarmenn voru bændur og fluttu búskap sinn að hluta með sér inn í þéttbýlið.

 

Fimmtudaginn 27. ágúst kl. 17.00 verða alls þrír viðburðir í Safnahúsi. Opnaður verður ljósmyndavefur og ljósmyndasýningin „Rammar“ auk sýningar á teikningum 11 ára drengs, Matthíasar Margrétarsonar, sem heldur nú sína fyrstu sýningu á hinum ýmsu furðuverum.

Ljósmyndasafnið mun sýna myndir sem gefnar hafa verið til safnsins í römmum og ekki hefur verið talin ástæða til að hreyfa við, enda fallegur rammi oft mikilvægur hluti af því hvernig ljósmynd nýtur sín. Sýningin hefur hlotið yfirskriftina „Rammar“ og mun standa til 6. nóvember.

Sýning Katrínar var tekin niður á föstudaginn sl. og eftir að búið er að telja úr gestabókinni er ljóst að hún hefur sett aðsóknarmet. Samtals hafa skrifað 948 manns í bókina frá opnun hennar og sennilega hafa einhverjir gleymt að skrifa og því líklegt að yfir 1000 manns hafi skoðað frábært handverk Katrínar. 

Stór hluti þátttakenda í sumarlestri 2009
Í sumar hafa duglegir krakkar á aldrinum 6-12 ára tekið þátt í sumarlestri á bókasafninu en þetta er í annað sinn sem Safnahúsið stendur fyrir verkefninu.  Í ár tóku 30 börn þátt og lásu þau ríflega 150 bækur.  Verkefninu lauk formlega í gær þegar haldin var sérstök uppskeruhátíð í Safnahúsinu sem heppnaðist með miklum ágætum. 

 

Vegna mikillar aðsóknar hefur hannyrðasýning Katrínar "Þá er það frá" verið framlengd til 21. ágúst n.k.

Sýningin er opin kl. 13.00-18.00 virka daga.

Hannyrðasýningin vinsæla "þá er það frá..." á efri hæð Safnahúss verður opin á Safnadaginn, næsta sunnudag 12. júlí, frá kl. 13-18. Katrín verður á staðnum og spjallar við gesti.

 

Verið velkomin

Nú eru komin 4 ólík verkefni fyrir börn sem heimsækja sýninguna Börn í 100 ár. Verkefnin eru fyrir tvo aldurshópa 6 - 11 ára og svo 12 - 16 ára. Þetta eru léttar spurningar sem tengjast lífi barna síðustu 100 árin:

 

Skólar á Íslandi

Ungmennafélög og íþróttir

Hernámsárin

Lífskjör á Íslandi.

 

Við vonum að krakkar sem fara um sýninguna taki þátt og skili inn svörum og eigi þannig jafnvel von á óvæntum glaðningi með haustinu.

 

 

Enn ég um Fellaflóann geng,

finn eins og titring í gömlum streng,

hugann grunar hjá grassins rót

gamalt spor eftir lítinn fót.

 

 

Þannig hefst hið kunna kvæði Jóns Helgasonar prófessors um bernskuslóðir sínar (kvæðið er birt í heild hér fyrir neðan) á Rauðsgili í Hálsasveit þar sem hann fæddist þennan dag árið 1899. Foreldrar Jóns voru Helgi Sigurðsson bóndi og Valgerður Jónsdóttir kona hans.  Jón missti föður sinn níu ára gamall og þá flutti móðir Jóns til Hafnarfjarðar með börnin tvö, Jón og systur hans Ingibjörgu.

Mikil aðsókn hefur verið á sýningu Katrínar Jóhannesdóttur á þeim tæpum tveimur vikum sem hún hefur staðið. Uppstilling Katrínar á vönduðu handverki sínu þykir einstaklega listrænt og fallega upp sett. Þegar þetta er skrifað hafa um 300 manns séð sýninguna.