Enn ég um Fellaflóann geng,

finn eins og titring í gömlum streng,

hugann grunar hjá grassins rót

gamalt spor eftir lítinn fót.

 

 

Þannig hefst hið kunna kvæði Jóns Helgasonar prófessors um bernskuslóðir sínar (kvæðið er birt í heild hér fyrir neðan) á Rauðsgili í Hálsasveit þar sem hann fæddist þennan dag árið 1899. Foreldrar Jóns voru Helgi Sigurðsson bóndi og Valgerður Jónsdóttir kona hans.  Jón missti föður sinn níu ára gamall og þá flutti móðir Jóns til Hafnarfjarðar með börnin tvö, Jón og systur hans Ingibjörgu.

Jón varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1916, aðeins 17 ára að aldri og hafði þá aðeins setið einn vetur sem reglulegur nemandi. Mag. art í norrænum fræðum varð Jón við Kaupmannahafnarháskóla árið 1923. Jón varði svo doktorsritgerð sína um Jón Ólafsson frá Grunnavík þann 7. janúar 1926.  sama ár kom ritgerðin út í bókarformi í Kaupmannahöfn.  Jón kenndi við háskólann í Osló veturinn 1926-27 en var skipaður forstöðumaður handritasafns Árna Magnússonar 1927 í Kaupmannahöfn þar sem hann bjó allar götur síðan. Tveimur árum síðar tók Jón við stöðu Finns Jónssonar og var skipaður prófessor í íslenskri tungu og bókmenntum við Hafnarháskóla. Þá höfðu raunar þrjár stöður verið sameinaðar í eina: prófessor staða Finns, prófessorsstaða Valtýs Guðmundssonar í íslensku máli og bókmenntum og staða forstöðumanns Árnasafns.  Þessu embætti gegndi Jón í 40 ár.

 

Jón Helgason var tvíkvæntur, fyrri kona hans var Þórunn Ástríður Björnsdóttir og eignuðust þau þrjú börn en Þórunn lést árið 1966.  Seinni kona Jóns var Agnete Loth en þau gengu í hjónaband árið 1975.  Jón Helgason lést í kaupmannahöfn 19.janúar 1986, á 87. aldursári.

 

Of langt mál væri að telja upp öll þau fræðirit sem Jón kom að á sinni starfsævi, jafnt frumsömdum sem fjölmörgum útgáfum og rannsóknum. Í tengslum við kennarastarfið samdi hann jafnframt kennslu- og lesbækur. Meðal frumsamdra bóka hans sem sérstaklega voru ætlaðar íslenskum almenningi má nefna Handritaspjall (1958), Tvær kviður fornar, Völundarkviða og Atlakviða með skýringum (1962) og Kviður af Gotum og Húnum, Hamdismál, Guðrúnarhvöt, Hlöðskviða með skýringum (1967).   Úrval úr greinum Jóns og ræðum var gefið út af Hafnarstúdentum honum til heiðurs á sexugsafmæli hans 30.júní 1959.  Tíu árum síðar þegar Jón fagnaði sjötugsafmæli sínu var gefið út afmælsrit þar sem margir fræðimenn og vinir Jóns lögðu til erindi honum til heiðurs.

 

 

Einn strengur í brjósti hins fjölhæfa fræðimanns er þó enn ónefndur en Jón var einnig afbragðsgott skáld og nokkur kvæða hans eru alþekkt meðal almennings og hefur Jón verið talið eitt dáðasta skáld 20.aldarinnar á Íslandi.  Frá hendi Jóns kom þó aðeins ein ljóðabók með frumortum kvæðum, Úr Landssuðri fyrst 1939 en önnur útgáfa hennar kom út 1948 með viðaukum og úrfellingum.   Í bókinni var einnig að finna nokkur þýdd kvæði en kvæðaþýðingar sínar birti Jón einnig í tveimur bókum; Tuttugu erlend kvæði og einu betur kom út árið 1962 og Kver með útlendum kvæðum út árið 1976.  Heildarsafn kvæða Jóns kom út í Kvæðabók árið 1986 í umsjá seinni konu hans.  Í tilefni af því að hundrað ár voru liðinn frá fæðingu Jóns árið 1999 gaf Mál og menning út nýtt heildarsafn kvæða það ár. Þar eru fyrri bækurnar þrjár, ásamt öðrum kvæðum af ýmsum æviskeiðum;  bæði gamankvæði frá stúdentaárunum sem og alvarlegri kveðskapur frá efri árum, en sum þeirra höfðu ekki birst áður á prenti.  Nefndist þetta úrval Úr Landsuðri og fleiri kvæði.  Þá var einnig við sömu tímamót gefin út hljóðdiskurinn Áfangar, þar sem Jón les nokkur kvæða sinna en margir eru á því að þannig hljómi kvæði hans best; í flutningi hans sjálfs.

 

Í lokin á þessari samantekt er við hæfi að birta tvö kvæði, það fyrra heitir Lestin brunar og það orti Jón árið 1927.  Hafa nokkur ólík lög verið sungin við þetta kvæði.

 

Lestin brunar, hraðar, hraðar,

húmið ljósrák sker,

bráum ert þú einhver staðar

óralangt frá mér.

 

Út í heim þú ferð að finna

frama nýjan þar,

ég hverf til anna minna,

allt er líkt og var.

 

Þú átt blóðsins heita hraða,

hugarleiftur kvik;

auglegð mín er útskersblaða

aldagamalt ryk.

 

Einhvers skírra, einhvers blárra,

æskti hugur minn,

og þú dreifðir daga grárra

deyfð og þunga um sinn.

 

En nú liggja leiðir sundur,

ljósin blika köld,

aldrei verður okkar fundur

eftir þetta kvöld.

 

Gegnum haustsins húmið þetta

hug minn víða ber,

aldrei muntu af því frétta

að hann fylgir þér.

 

Aldrei spyrðu alla daga

að í kvöld ég hef

ort á tungu yztu skaga

einstök fábreytt stef.

 

Þegar brátt þín mynd og minning

máist föl og hljóð,

er til marks um okkar kynning

aðeins þetta ljóð. 

 

Allar raddir óma glaðar,

einn ég raula mér;

lestin brunar, hraðar, hraðar,

húmið ljósrák sker. 

 

Úr landsuðri og fleiri kvæði, bls: 14-15.

 

 

Á Rauðsgili

 

Enn ég um Fellaflóann geng,

finn eins og titring í gömlum streng,

hugann grunar hjá grassins rót

gamalt spor eftir lítinn fót.

 

Enn ég um Fellaflóann geng,

finn eins og titring í gömlum streng,

hugann grunar hjá grassins rót

gamalt spor eftir lítinn fót.

 

Hugrökk teygist á háum legg

hvönnin fram yfir gljúfravegg,

dumbrauðu höfði um dægrin ljós

drúpir hin vota engjarós.

 

Löngum í æsku ég undi við

angandi hvamminn og gilsins nið,

ómur af fossum og flugastraum

fléttaðist síðan við hvern minn draum.

 

Mjaðarjurt, hvað þú ert mild og skær,

mjög er ég feginn, systir kær,

aftur að hitta þig eina stund;

atvikin banna þó langan fund:

 

Handan við okið er hafið grátt,

heiðarfugl stefnir í suðurátt,

langt mun hans flug áður en dagur dvín,

drygri er þó spölurinn heim til mín. 

 

 Úr Landssuðri og fleiri kvæði bls: 55

 

Í þessari samantekt er einkum stuðst við grein Ólafs Halldórssonar í Andvara (nýr flokkur xxxix) frá árinu 1997 en greinin nefnist “Jón Helgason”, áðurnefnt heildarsafn kvæða Jóns frá 1999 og Æviskrár samtíðarmanna (I-R) eftir Torfa Jónsson sem út kom árið 1983 hjá bókaforlaginu Skuggsjá.
 
Samantekt: Sævar Ingi Jónsson héraðsbókavörður

Categories:

Tags:

Comments are closed