Sýningin um Guðmund Sigurðsson revíuhöfund hefur dregið að sér marga góða gesti. Einn þeirra er systurdóttir hans Helga Jóna Ásbjarnardóttir sem kom ásamt vinkonu sinni að sjá sýninguna í dag. Helga Jóna er dóttir Jórunnar systur Guðmundar og margir myndu kannast við hana undir nafninu Lilla Hegga eins og Þórbergur Þórðarson kallaði hana á sínum tíma.  

 

Sýningin um Guðmund Sigurðsson mun standa fram að mánaðamótum svo nú fer hver að verða síðastur að sjá hana.

Silja Aðalsteinsdóttir og Böðvar Guðmundsson komu við í Safnahúsi s.l. sunnudag, en þau voru í Borgarnesi um helgina þar sem þau voru bæði með dagskrá í Landnámssetrinu. Í Safnahúsi skoðuðu þau sýninguna um sr. Magnús Andrésson, en dóttir hans Ragnheiður kemur mjög við sögu í umfjöllun Silju um Guðmund Böðvarsson.  Einnig skoðuðu þau sýninguna um Guðmund Sigurðsson revíuhöfund, móðurbróður Böðvars. Sýningin um sr. Magnús mun standa til næsta hausts, en sýningunni um Guðmund Sigurðsson lýkur um næstu mánaðamót.

Í dag er dagur bókasafnanna haldinn hátíðlegur víða á bókasöfnum landsins. Slagorð dagsins í ár er Lestur er bestur en með því er lögð áhersla á mikilvægi lesturs.  Í tilefni dagsins valdi starfsfólk bókasafna 100 bestu barnabækurnar, efnt var til ljósmyndasamkeppni og nemum í framhaldsskólum landsins gafst kostur á að taka þátt í stuttmyndasamkeppni þar sem unnið var með slagorð dagsins.  Frekari upplýsingar má sjá hér.

Hér á Héraðsbókasafni Borgarfjarðar verður boðið uppá konfekt í tilefni dagsins, myndasjóv af starfseminni fær að rúlla á skjá og birtur er áðurnefdur listi yfir 100 bestu barnabækurnar.

 

 

Byggðasafn Borgarfjarðar fær oft góðar gjafir sem tengast borgfirskri sögu og menningu. Í dag færði Hallsteinn Sigurðsson myndhöggvari safninu útskurðarmun eftir föðurbróður sinn Hallstein Sveinsson (1903-1995) sem var afar listhagur og sérstakur velgjörðarmaður Listasafns Borgarness. Um er að ræða útskorið egg sem var á sínum tíma gjöf til móður gefandans, Þóru Eyjólfsdóttur (1907-1993), sem var gift Sigurði Sveinssyni bróður Hallsteins eldra. Síðast var eggið í eigu Auðar Sigurðardóttur.

Margmennt var í gærkvöldi á opnun heimildasýningar í Safnahúsi: Dýrt spaug -  aldarminning Guðmundar Sigurðssonar (1912-1972).  Guðmundur var einn helsti revíuhöfundur landsins á sínum tíma og vinsæll útvarpsmaður.  Hann var ættaður úr Hvítársíðu en ólst upp í Borgarnesi.

 

Dagskrá kvöldins var fjölbreytt og skemmtileg og sérstök stemning ríkti í sýningarsal fastasýningar hússins, Börn í 100 ár. Synir Guðmundar, Guðmundur og Óttar fluttu erindi um manninn og verk hans, Jóhanna V. Þórhallsdóttir tengdadóttir skáldsins söng revíulög og Bjarni Jónatansson lék undir á flygil barónsins á Hvítárvöllum. HLjóðfærið er engu líkt, það hefur hlýjan og klingjandi hljóm þrátt fyrir háan aldur (smíðað 1865). Var einstakt að heyra þann hljóm undir léttum fallegum söng í þessu umhverfi.

 

Að lokinni dagskrá skoðuðu gestir sýninguna um revíuskáldið og þáðu veitingar áður en haldið var heimleiðis.

Þann 27. febrúar næstkomandi verður opnuð heimildasýning um Guðmund Sigurðsson í anddyri bókasafns í Safnahúsi. Við það tækifæri verður boðið upp á dagskrá í tali og tónum um Guðmund, sem var einn fremsti revíu- og gamanvísnahöfundur Íslands á 20. öld. Guðmundur var ættaður úr Hvítársíðu en alinn upp í Borgarnesi.
Jóhanna Þórhallsdóttir söngkona og tengdadóttir Guðmundar syngur lög við texta eftir Guðmund og Bjarni Jónatansson leikur undir á sögufrægan flygil barónsins á Hvítárvöllum.

Nýverið barst Héraðsbókasafni Borgarfjarðar myndarleg  gjöf. Um er að ræða bækur úr eigu Guðmundar Hjartarsonar fyrrverandi seðlabankastjóra, en hann lést fyrir nokkrum árum og ánafnaði Safnahúsi bókasafni sínu.  Þar er margt góðra bóka og er gjöfin því talsverður styrkur fyrir héraðsbókasafnið. Guðmundur var fæddur á Litla-fjalli í Borgarhreppi en fór til Reykjavíkur 25 ára gamall og bjó þar eftir það. Hann hélt þó alltaf miklu sambandi við Borgarfjörðinn og átti sterkar taugar þangað.  Rausnargjöf Guðmundar er afar vel þegin og mun koma að góðum notum fyrir gesti bókasafnsins.

Safnahús og Tónlistarskóli Borgarfjarðar hafa tekið saman höndum um tilraunaverkefni til að vekja athygli á þuluforminu og hvetja til sköpunar á grundvelli þess. Verkefnið er unnið með aðstoð Árnastofnunar sem leggur til upptökur af eldri þulum sem varðveist hafa í munnlegri geymd, kveðnar af borgfirskum konum. Um leið er skáldkonunnar Guðrúnar Jóhannsdóttur frá Sveinatungu minnst með því að úrval af þulum hennar er notað sem námsefni fyrir hluta nemenda skólans á vorönn 2012.

Þann 10.janúar síðastliðinn fagnaði kennarinn og ljóðskáldið Pétur Önundur Andrésson 60 ára afmæli sínu. Hann bjó sem kunnugt er um margra ára skeið í Reykholtsdalnum og stundaði þar m.a kennslu og garðyrkju.  Í tilefni af þessum tímamótum hefur verið sett undir liðnum bókin, hér hægramegin á síðunni, kynning á ljóðabók hans, Ljóðnætur, sem út kom árið 2010.  Bókin er sjötta ljóðabók Péturs sem gaf út sína fyrstu ljóðabók fyrir rúmum 35 árum síðar.   

Á næstunni verða sýndir á sjónvarpsskjá í Safnahúsi um 60 ára gamlir kvikmyndaþættir, bútar sem á sínum tíma voru teknir af Guðna Þórðarsyni (Guðna í Sunnu) að frumkvæði Borgfirðingafélagsins. Efnið er sýnt með góðfúslegu leyfi höfundar og fyrir tilstilli Óskars Þórs Óskarssonar verktaka og kvikmyndagerðarmanns í Borgarnesi.