Margmennt var í gærkvöldi á opnun heimildasýningar í Safnahúsi: Dýrt spaug –  aldarminning Guðmundar Sigurðssonar (1912-1972).  Guðmundur var einn helsti revíuhöfundur landsins á sínum tíma og vinsæll útvarpsmaður.  Hann var ættaður úr Hvítársíðu en ólst upp í Borgarnesi.

 

Dagskrá kvöldins var fjölbreytt og skemmtileg og sérstök stemning ríkti í sýningarsal fastasýningar hússins, Börn í 100 ár. Synir Guðmundar, Guðmundur og Óttar fluttu erindi um manninn og verk hans, Jóhanna V. Þórhallsdóttir tengdadóttir skáldsins söng revíulög og Bjarni Jónatansson lék undir á flygil barónsins á Hvítárvöllum. HLjóðfærið er engu líkt, það hefur hlýjan og klingjandi hljóm þrátt fyrir háan aldur (smíðað 1865). Var einstakt að heyra þann hljóm undir léttum fallegum söng í þessu umhverfi.

 

Að lokinni dagskrá skoðuðu gestir sýninguna um revíuskáldið og þáðu veitingar áður en haldið var heimleiðis.

Sýningin um Guðmund verður í Safnahúsi út aprílmánuð. Þar má sjá ljósmyndir og ýmis gögn tengd lífi hans og störfum. Ennfremur er þar til sýnis atriði úr revíunni Gullöldin okkar, sem samin var af Guðmundi og Haraldi Á. Sigurðssyni og frumsýnd árið 1957. 

 

Þessi hátíðardagur hefur verið lengi í undirbúningi og vill Safnahús koma á framfæri innilegum þökkum til ættingja Guðmundar Sigurðssonar, fyrir verðmætt framlag þeirra til þessa verðuga verkefnis.

 

Ljósmyndir með frétt:  Guðrún Jónsdóttir.

 

I – Bjarni Jónatansson við barónsflygilinn og Guðmundur B. Guðmundsson í ræðustól.

II – Jóhanna V. Þórhallsdóttir skapaði fallega stemningu með söng sínum.

III gestir – Signý Sæmundsdóttir, Haukur Júlíusson og Ingibjörg Jónasdóttir.

Categories:

Tags:

Comments are closed