Nýverið barst Héraðsbókasafni Borgarfjarðar myndarleg  gjöf. Um er að ræða bækur úr eigu Guðmundar Hjartarsonar fyrrverandi seðlabankastjóra, en hann lést fyrir nokkrum árum og ánafnaði Safnahúsi bókasafni sínu.  Þar er margt góðra bóka og er gjöfin því talsverður styrkur fyrir héraðsbókasafnið. Guðmundur var fæddur á Litla-fjalli í Borgarhreppi en fór til Reykjavíkur 25 ára gamall og bjó þar eftir það. Hann hélt þó alltaf miklu sambandi við Borgarfjörðinn og átti sterkar taugar þangað.  Rausnargjöf Guðmundar er afar vel þegin og mun koma að góðum notum fyrir gesti bókasafnsins.

Guðmundur  Tómas  Hjartarson fæddist 1. nóvember 1914, einn sjö systkina á Litla-Fjalli. Hann andaðist í Reykjavík 6. apríl 2007. Foreldrar hans voru Pálmína Sigríður Guðmundsdóttir frá Hólmlátri á Skógarströnd (1890-1976) og Hjörtur Þorvarðarson frá Leikskálum í Haukadal (1876-1937).  Guðmundur fluttist til Reykjavíkur 1939 og starfaði sem lögregluþjónn þar 1942- 1946. Hann var starfsmaður Sósíalistaflokksins 1946-1956 og forstöðumaður Innflutningsskrifstofunnar

1956-1960. Frá 1960 vann hann ýmis störf fyrir Sósíalistaflokkinn, var í kosningabandalagi Alþýðubandalagsins og gegndi mörgum ábyrgðarstöðum frá stofnun þess. Hann tók einnig virkan þátt í stofnun Samfylkingarinnar. Guðmundur var einn af stofnendum Sigfúsarsjóðs (Sigurhjartarsonar), sat í bankaráði Búnaðarbankans, var í stjórn K.R.O.N.  og Áburðarverksmiðju ríkisins. Hann var formaður byggingarstjórnar Seðlabanka Íslands frá 1982 til 1988. Guðmundur var seðlabankastjóri í 10 ár, frá 1974 til 1984. Hann kvæntist árið 1951 Þórdísi Þorbjarnardóttir frá Neðra-Nesi í Stafholtstungum (1916 – 1994). Foreldrar hennar voru Þórdís Halldórsdóttir (1884-1976) og Þorbjörn Sigurðsson bóndi á Neðra-Nesi (1875-1942). Þau hjón voru barnlaus.

 

Það eru ættingjar Guðmundar sem hafa haft umsjón með bókasafninu frá láti hans og þangað til það kom í Safnahús fyrir nokkru.  Eru þeim færðar bestu þakkir fyrir þá milligöngu.

 

 

Helstu heimildir:
Óþekktur höfundur. 2007. Guðmundur Hjartarson. Mbl. 20. apríl, bls. 38.
Ljósmynd: Kaldal – Héraðsskjalasafn Borgarfjarðar.

 

 

Categories:

Tags:

Comments are closed